22 mar Hvar er þessi agi?
Það voru vonbrigði að ekki tókst að lækka stýrivexti Seðlabankans við síðustu vaxtaákvörðun. Aðilar vinnumarkaðarins fylgdu því handriti sem Seðlabankinn sagði að myndi helst leiða til vaxtalækkunar. Samt var ekki talið rými til að hefja lækkunarferlið. Ekki síst, að sögn seðlabankastjóra, vegna þess að það er enn óljóst hvernig stjórnvöld fjármagna sína aðkomu að kjarasamningnum.
Það er nýlunda og ekki góð þróun að ríkisstjórnin er orðin lykilaðili í því að landa kjarasamningum. Að þessu sinni hyggst ríkisstjórnin leggja til 80 milljarða króna en það sem vantar er að segja hvernig hún hyggst fjármagna framlag sitt. Á meðan ráðamenn þjóðarinnar geta ekki svarað þeirri grundvallarspurningu getur Seðlabankinn ekki metið áhrif þessa framlags á verðbólguhorfur og farið í að lækka vexti. Það er ekki bara hlutdeildin í kjarasamningum sem þarf að svara fyrir heldur líka fjármögnun aðgerða vegna eldsumbrota í Grindavík. Ríkisstjórnin segist ekki ætla að hækka skatta umfram það sem þegar hefur verið ákveðið, ekki skera niður í rekstri og ekki taka lán. Eitthvað af þessu þarf þó að gerast.
Öllum sem fylgst hafa með verkum þessarar ríkisstjórnar virðist ljóst að ekki verður farið í alvöruaðhald, sem væri sú leið sem myndi hjálpa okkur langbest til að takast á við verðbólguna og hraða því að lækka vexti. Þess í stað virðast ráðherrar okkar komnir með kosningaskrekk og keppast við að lofa enn frekari útgjöldum. Enn virðist ríkisstjórnin þannig frekar ýta undir verðbólguna í stað þess að kæla hana niður. Ef ekki verður gripið hér í taumana erum við að horfa upp á áframhaldandi hagstjórnarmistök sem þegar hafa kostað íslenskar fjölskyldur og fyrirtæki milljarða króna.
Við fáum reglulega að heyra úr ranni ríkisstjórnarinnar og þeirra bakhjarla að við þurfum ekki annan gjaldmiðil til að byggja hér undir stöðugleika í efnahagskerfinu. Við gætum gert þetta sjálf með meiri aga. Hvenær kemur þessi agi? Ætlar þessi ríkisstjórn að finna hann?
Á sama tíma og Viðreisn hefur verið óþreytandi í því að gagnrýna þann óþarfa aukakostnað sem krónan leggur á okkur treystum við okkur í það verk að byggja hér upp stöðugleika til lengri tíma en nokkurra mánaða, hvaða gjaldmiðil sem við notum. Stöðugleika sem leyfir okkur að lækka vexti til framtíðar og hjálpar okkur að áætla fram í tímann. Stöðugleika sem dregur úr þörfinni á því að ríkið stígi inn sem lykilaðili í kjarasamningum, til að greiða niður kostnað heimilanna við stöðugan óstöðugleika.