22 apr Skemmtileg staðreynd?
Meðal vel þekktra og skemmtilegra staðreynda um Ísland sem erlendir ferðamenn eru gjarnan upplýstir um eru þær að við erum eitt elsta lýðræðisríki heims, margir Íslendingar segjast trúa á álfa, á íslensku má finna hátt í 100 orð yfir vind, ísbíltúr er vinsælt fyrsta stefnumót, við eigum 13 jólasveina og við elskum bækur.
Í vikunni var athygli mín vakin á því að það væri að bætast í listann en í ferðamannabók má nú sjá þessa „skemmtilegu staðreynd“ á listanum: Íslenska krónan er minnsti sjálfstæði gjaldmiðill heims. Hún hefur misst 99,7% af virði sínu frá stofnun Seðlabanka Íslands árið 1961.
Einhverjum finnst óþarfi að væla yfir krónunni og þeim neikvæðu áhrifum sem hún hefur á hag heimila því við höfum það svo gott í alþjóðlegum meðaltalsmælingum. Það er vissulega rétt að lífskjör eru heilt yfir góð hér, en þau gætu verið mun betri fyrir mjög marga. Krónan er ein stærsta hindrunin á þeirri vegferð að ná því. Við þurfum til dæmis rándýran gjaldeyrisforða til að reyna að halda krónunni stöðugri og gjaldeyrishöft á lífeyrissjóðina með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum. Þá kallar krónan á margfalt hærri vexti en aðrar þjóðir búa við, líka á tímum lægri verðbólgu. Sú staðreynd kostar heimili landsins, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóð fleiri hundruð milljarða króna. Til viðbótar kemur svo það vantraust sem ríkir gagnvart krónunni á alþjóðamarkaði og kemur í veg fyrir að erlend fyrirtæki hasli sér völl hér og brjóti upp hinn íslenska fákeppnismarkað.
Svo er það söngurinn um að þetta sé ekki krónunni að kenna heldur lélegri efnahagsstjórn. Eins merkilegt og það nú er er þetta varnarafbrigði algengt meðal talsmanna þeirra flokka sem hafa farið með stjórn efnahagsmála nær óslitið síðustu áratugi.
Það er óumdeilt að verðbólga og ofurvextir eru samfélagsmein sem bitnar á öllum þorra heimila og smærri fyrirtækja, þeim sem eru föst í íslenska krónuhagskerfinu. Í þessari umræðu er gott að halda til haga að mörg stærri fyrirtæki eru óháð krónunni. Í þeirri stöðu þyrftum við öll að fá að vera.
Ef það er ekki krónuhagkerfið sem kemur okkur ítrekað í þessa vondu stöðu, þá er það sem sagt slök efnahagsstjórn þessa sama krónuhagkerfis. Að einhverju leyti eru þetta tvær hliðar á sama peningi, það er freistandi fyrir stjórnvöld hverju sinni að hafa þá útgönguleið að láta heimili og fyrirtæki bera kostnað af slakri og óagaðri hagstjórn í formi viðvarandi hárra vaxta og endurtekinna verðbólguskota.
Skemmtileg staðreynd? Nei. Sturluð staðreynd? Já.