Skemmtileg staðreynd?

Meðal vel þekktra og skemmti­legra staðreynda um Ísland sem er­lend­ir ferðamenn eru gjarn­an upp­lýst­ir um eru þær að við erum eitt elsta lýðræðis­ríki heims, marg­ir Íslend­ing­ar segj­ast trúa á álfa, á ís­lensku má finna hátt í 100 orð yfir vind, ís­bíltúr er vin­sælt fyrsta stefnu­mót, við eig­um 13 jóla­sveina og við elsk­um bæk­ur.

Í vik­unni var at­hygli mín vak­in á því að það væri að bæt­ast í list­ann en í ferðamanna­bók má nú sjá þessa „skemmti­legu staðreynd“ á list­an­um: Íslenska krón­an er minnsti sjálf­stæði gjald­miðill heims. Hún hef­ur misst 99,7% af virði sínu frá stofn­un Seðlabanka Íslands árið 1961.

Ein­hverj­um finnst óþarfi að væla yfir krón­unni og þeim nei­kvæðu áhrif­um sem hún hef­ur á hag heim­ila því við höf­um það svo gott í alþjóðleg­um meðaltals­mæl­ing­um. Það er vissu­lega rétt að lífs­kjör eru heilt yfir góð hér, en þau gætu verið mun betri fyr­ir mjög marga. Krón­an er ein stærsta hindr­un­in á þeirri veg­ferð að ná því. Við þurf­um til dæm­is rán­dýr­an gjald­eyr­is­forða til að reyna að halda krón­unni stöðugri og gjald­eyr­is­höft á líf­eyr­is­sjóðina með til­heyr­andi nei­kvæðum af­leiðing­um. Þá kall­ar krón­an á marg­falt hærri vexti en aðrar þjóðir búa við, líka á tím­um lægri verðbólgu. Sú staðreynd kost­ar heim­ili lands­ins, fyr­ir­tæki, sveit­ar­fé­lög og rík­is­sjóð fleiri hundruð millj­arða króna. Til viðbót­ar kem­ur svo það van­traust sem rík­ir gagn­vart krón­unni á alþjóðamarkaði og kem­ur í veg fyr­ir að er­lend fyr­ir­tæki hasli sér völl hér og brjóti upp hinn ís­lenska fákeppn­ismarkað.

Svo er það söng­ur­inn um að þetta sé ekki krón­unni að kenna held­ur lé­legri efna­hags­stjórn. Eins merki­legt og það nú er er þetta varn­araf­brigði al­gengt meðal tals­manna þeirra flokka sem hafa farið með stjórn efna­hags­mála nær óslitið síðustu ára­tugi.

Það er óum­deilt að verðbólga og of­ur­vext­ir eru sam­fé­lags­mein sem bitn­ar á öll­um þorra heim­ila og smærri fyr­ir­tækja, þeim sem eru föst í ís­lenska krónu­hags­kerf­inu. Í þess­ari umræðu er gott að halda til haga að mörg stærri fyr­ir­tæki eru óháð krón­unni. Í þeirri stöðu þyrft­um við öll að fá að vera.

Ef það er ekki krónu­hag­kerfið sem kem­ur okk­ur ít­rekað í þessa vondu stöðu, þá er það sem sagt slök efna­hags­stjórn þessa sama krónu­hag­kerf­is. Að ein­hverju leyti eru þetta tvær hliðar á sama pen­ingi, það er freist­andi fyr­ir stjórn­völd hverju sinni að hafa þá út­göngu­leið að láta heim­ili og fyr­ir­tæki bera kostnað af slakri og óagaðri hag­stjórn í formi viðvar­andi hárra vaxta og end­ur­tek­inna verðbólgu­skota.

Skemmti­leg staðreynd? Nei. Sturluð staðreynd? Já.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2024.