04 apr Varnir og vinir í NATO
Þegar NATO var stofnað fyrir 75 árum og Ísland ákvað að ganga í bandalagið og gerast einn af stofnaðilum þess var það umdeild ákvörðun. Markmið NATO var skýrt. Það var stofnað til höfuðs Sovétríkjunum, til varnar lýðræðinu í Evrópu. Við skipuðum okkur í sveit með vestrænum lýðræðisríkjum í stað þess að halla okkur að Sovétríkjunum. Blessunarlega.
Þegar ég hóf feril minn á þingi fyrir rétt tæpum 25 árum var bandalagið 50 ára. Með falli múrsins og inngöngu þjóða í NATO, sem áður tilheyrðu Varsjárbandalaginu, var undirstrikað að hugsjónir um vestrænt lýðræði og markaðshagkerfi höfðu sigrað. Gömlu Austur-Evrópuþjóðirnar höfðu þá leitað til NATO, ekki síst á grundvelli 5. greinar stofnsáttmálans. Hún segir til um að ef ráðist verður á eitt ríki NATO þýðir það árás á þau öll. Með þessu vildu þau einnig fjarlægja sig með afgerandi hætti frá Rússlandi og þeim stjórnarháttum sem þar voru viðhafðir.
Í tilefni af hálfrar aldar afmælinu fullyrtu ýmsir í umræðunni gjarnan að með lokum kalda stríðsins hefði tilgangur NATO brostið og hagsmunir og sýn aðildarríkjanna á ógnir orðið ólíkar. Oftar en ekki hljómuðu þessar raddir frá sömu uppsprettu og höfðu í gegnum tíðina séð NATO allt til foráttu – og jafnvel ekki náð sér að fullu eftir fall kommúnismans. Tregi og eftirsjá liðinna tíma þessara hópa á 50 ára afmælinu virtist móta að einhverju leyti afstöðuna gagnvart NATO. Það sama gilti í raun á 60 ára og 70 ára afmælinu. Nú eru aðstæður með allt öðrum hætti og þessar raddir hafa flestar hægt um sig.
Árið 2019 á 70 ára afmæli NATO sagði ég á fundi hjá Varðbergi, samtökum um vestræna samvinnu og alþjóðamál, að heimurinn væri breyttur og ógnir margvíslegar. Hætturnar væru þarna, jafnvel verulegar en kannski ekki alltaf jafn augljósar og á árum áður.
Þremur árum síðar réðust Rússar inn í Úkraínu, heimsmyndin breyttist og hætturnar urðu flestu lýðræðislega þenkjandi fólki ljósar. Megintilgangur NATO, til varnar lýðræði og frelsi í Evrópu, varð skýrari og mikilvægari en áratugina á undan.
Gildi alþjóðasamstarfs
Höfum hugfast að afstaða Íslands til samvinnu og samstarfs við önnur ríki mun ráða miklu um þjóðarhag. Það gildir ekki síst um varnir og öryggi landsins.
Sérhvert skref sem við Íslendingar höfum tekið í alþjóðasamvinnu, hvort sem það er í gegnum EFTA, EES eða NATO, hefur styrkt okkur sem þjóð og eflt efnahagslega velferð landsmanna. Öryggi okkar og aðild að bandalaginu hefur reynst okkur giftudrjúg. Svo ekki sé minnst á hversu verðmætasköpun í sinni víðustu mynd í gegnum öryggi og frið, er ómetanleg.
Sagan sýnir að með aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu lögðum við grunn að því að efla efnahagslegt sjálfstæði landsins. Meðal annars þegar við Íslendingar stóðum í miklum útistöðum við Breta vegna fiskveiðilögsögunnar. Reyndu andstæðingar NATO hér heima fyrir af fremsta megni að gera aðild okkar tortryggilega og magna upp reiði gagnvart bandalaginu vegna framkomu Breta í okkar garð.
Seta okkar við borðið, full þátttaka og kynning á sjónarmiðum okkar reyndist okkur ómetanleg og leiddi til þess að við náðum samningum um full yfirráð yfir auðlindum okkar. Á okkur var hlustað – sætið við borðið reyndist íslensku þjóðinni happadrjúgt.
Breyttar aðstæður og endurmat
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti og væntanlegur forsetaframbjóðandi hefur haft uppi hótanir um að koma bandalagsþjóðum ekki til hjálpar skv. 5. grein sáttmálans ef þær uppfylla ekki greiðslur sínar til NATO. Þetta er ógn við samstarfið og hefur kallað á umræðu um endurmat innan varnarbandalagsins.
Þegar Rússar réðust inn í Úkraínu ákváðu bæði Svíar og Finnar að gerast meðlimir í NATO. Til að tryggja öryggi sitt. Danir fóru í þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykktu að afnema fyrirvara sína innan ESB hvað viðkemur sameiginlegum vörnum og öryggi. Í Noregi hefur verið umræða um það hvort allar þessar breytingar þrýsti enn frekar á umræðu um aðild að ESB, þegar nágrannalöndin eru komin með „tvöfalda“ aðild. NATO og ESB.
NATO er varnarbandalag meðan ESB er í grófum dráttum bandalag um efnahag og stjórnmál. Eftir innrás Rússa í Úkraínu hefur vægi ESB á sviði öryggismála aukist og breyst. Er þetta meira samofið en áður eins og Mathilde Fastning, pistlahöfundur hægri hugveitunnar Civita í Noregi, hefur bent á. Og hún spyr hvort NATO-aðildin dugi Norðmönnum.
Hún dregur fram að hlutverk NATO sé svæðisbundnar varnir, byggðar á 5. grein stofnsáttmálans, og að bandalagið ráði yfir hergögnum og herafla. Hlutverk ESB hafi þróast í að takast á við aðra þætti þeirrar ógnarmyndar sem við blasi. Eins og netógnir, verndun innviða og upplýsingaóreiðu. Því til viðbótar sjái ESB um þjálfun úkraínskra hermanna auk annarra aðgerða eins og söfnun tölfræðiupplýsinga. Samvinna ESB og NATO sé orðin yfirgripsmikil enda séu 23 af 27 ríkjum ESB í NATO. Fyrrnefndur pistlahöfundur bendir jafnframt á að ráðherrar ESB-ríkja ræði meira utanríkis- og öryggismál sín á milli en áður. Ráðherrar ESB funda oftar en gert er hjá NATO. Þriðju ríki eins og Ísland og Noregur eiga ekki aðgang að þeim óformlegu ráðherrafundum Evrópusambandsins.
Hvað okkur Íslendinga varðar þurfum við að endurmeta stöðu okkar þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Viðreisn var eini flokkurinn sem lagði strax fram þingsályktunartillögu í þá veru eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022. Þar lögðum við meðal annars áherslu á að styrkja enn frekar tvíhliða varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna en varnarsamningurinn milli ríkjanna frá 1951 og aðildin að NATO eru hornsteinar í vörnum landsins.
Samningurinn tekur hins vegar ekki tillit til breyttra aðstæðna í Evrópu, nýrra ógna eða aukinnar áherslu á norðurslóðir. Þegar kemur að öryggi landsins má ekki leika vafi á hvað þarf til svo að varnir séu skýrar og öryggi tryggt.
Í mínum huga þarf öryggisins vegna að halda áfram að rækta farsælt samband við Bandaríkin. Óvissan með Donald Trump sem Bandaríkjaforseta er vissulega mikil, jafnvel ógn við vestræn lýðræðisöfl. Það er stór breyta. Þess þá heldur vil ég hvetja þá einstaklinga sem mæra hann daglega hér heima og jafnvel láta líta út fyrir að vera í þokkalegum tengslum við hann, til að tala máli Íslands og tryggja áfram öryggi landsins. Í samstarfi við Bandaríkin.
Það breytir hins vegar ekki því að við Íslendingar þurfum að móta okkar eigin varnarstefnu. Sá hluti þjóðaröryggisstefnunnar er frekar þunnur þrettándi og ekki í takti við breyttar áherslur í heimsmálunum. Og við eigum ekki að vera blaut á bak við eyrun þegar kemur að Pútín og hans félögum. Svartsýnustu raddirnar gagnvart Rússlandi hafa sýnt að þær höfðu því miður rétt fyrir sér.
Mér er minnisstæð sameiginleg þingmannaráðstefna Evrópuríkja í París sem haldin var daginn eftir innrás Rússa í Úkraínu. Eðlilega breyttist dagskráin og ekkert annað var rætt. Eftirminnilegustu ræðurnar voru þegar allt að því grátklökkir en líka nokkuð reiðir þingmenn Eystrasaltsríkjanna og Póllands sögðu að þeir hefðu varað NATO og Evrópuríkin við hættunni á yfirgangi Rússa, en ríkin skellt skollaeyrunum við þeim viðvörunum. Þrátt fyrir Georgíu 2008 og Krímskaga 2014.
Við höfum ekki efni á því að taka þessum hlutum með léttvægum hætti. Við getum heldur ekki leyft gömlu úrtöluröddunum gagnvart NATO og vestrænni varnarsamvinnu að draga úr ábyrgð okkar Íslendinga á að hlúa betur að öryggi og vörnum landsins. Í samstarfi við okkar helstu vinaþjóðir. Austan hafs sem vestan.
Hluti af endurmati á vörnum okkar og öryggi felst í því að skoða hvort staða okkar geti orðið sterkari innan beggja bandalaga, NATO og ESB. Þvergirðingsháttur þeirra sem neita að ræða þetta af yfirvegun má ekki koma í veg fyrir að við kortleggjum allar þær leiðir sem geta tryggt betur öryggishagsmuni Íslands.
Farsæl ákvörðun, virkir þátttakendur
Ákvörðun um aðild að NATO liggur fyrir, nú til 75 ára og hefur verið til farsældar fyrir þjóðina. Við höfum tekist á herðar alþjóðlegar skuldbindingar sem í dag væri beinlínis varasamt út frá þjóðaröryggi að hverfa frá. Frekar þurfum við að endurmeta varnir okkar og öryggi út frá þeim ógnum sem nú blasa við.
Við munum til að mynda ekki geta tryggt öryggi á norðurslóðum án aðkomu NATO og þeirrar sérþekkingar og stuðnings sem við fáum þaðan, eins og reyndar í fleiri málum. Aðildin að NATO er því jafnmikið öryggismál, umhverfismál, lýðræðismál og fullveldismál fyrir þjóðina í dag og hún var á sínum tíma. Áskoranirnar eru bara annars eðlis.
Vera okkar í NATO hefur sýnt að við eigum ekki að óttast alþjóðasamstarf, frekar eigum við að vera virkir þátttakendur. Í varnarsamstarfinu höfum við einnig haldið á loft sjónarmiðum sem okkur Íslendingum eru oft ofarlega í huga og léð mikilvægum málum rödd okkar, hvort sem það er á sviði mannúðar eða jafnréttis.
Við eigum að gera okkar til að hafa áhrif á ákvarðanir sem teknar eru, og þora að taka skýra afstöðu þegar okkur finnst bandalagið feta rangan veg eða jafnvel taka rangar ákvarðanir. En fyrst og síðast eigum við af fullri einlægni og einurð að halda áfram þátttöku okkar í farsælu varnarsamstarfi til 75 ára. Þannig verjum við best dýrmætt frelsið og lýðræði.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024