12 apr Vond meðferð valds
Eftir síðustu stólaskiptin hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna sem voru kynnt á dögunum var tiltekið sérstaklega að ætlunin væri að berjast gegn verðbólgunni. Ég legg til að eitt fyrsta skrefið þar verði að ganga í lið með stjórnarandstöðunni á þingi, Samkeppniseftirlitinu, Neytendasamtökunum, Félagi atvinnurekenda, Samtökum verslunar og þjónustu, VR og matvælaráðuneytinu (listinn er lengri) og viðurkenna að með því að keyra í gegnum þingið breytingar á búvörulögum sem undanskilja stór fyrirtæki í landbúnaði frá samkeppnislögum voru gerð alvarleg mistök sem þarf að leiðrétta.
Þegar breytingartillögur meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis á málinu lágu fyrir sendi Samkeppniseftirlit nefndinni harðort bréf þar sem sagði m.a. að með þeim yrðu felldar niður varnir sem samkeppnislög búa bændum og neytendum án þess að aðrar haldbærar kæmu í staðinn. Hér væri unnið gegn hagsmunum neytenda og líkur á að verð á kjötvöru til þeirra hækkaði þar sem afurðastöðvum væri nú ætlað sjálfdæmi um verðlagningu. Einnig væru hagsmunir bænda fyrir borð bornir þar sem það aðhald sem þeir gætu sýnt viðsemjendum sínum, m.a. til að stuðla að ásættanlegu afurðaverði eða framþróun greinarinnar, minnkaði eða hyrfi. Kannanir Samkeppniseftirlitsins sýndu að nú þegar væru bændur ósáttir við stöðu sína gagnvart afurðastöðvum. Líkur væru á því að það ástand myndi versna. Og þetta mál eins og meirihlutinn gekk frá því gæti unnið gegn nýgerðum kjarasamningum sem einmitt standa vonir til að geti aðstoðað í baráttunni við hina þrálátu verðbólgu.
Aðrir gagnrýnendur tala á sömu nótum. Matvælaráðuneytið telur m.a. að lögin gangi þvert á upphaflegan tilgang sinn að rétta hag bænda. Til að mynda hafi meirihlutinn fellt niður kröfu um að einungis fyrirtæki í meirihlutaeigu bænda, eða undir stjórn þeirra, fengju þær undanþágur sem veita átti frá samkeppnislögum. Svo langt hafi verið gengið í hina áttina að fyrirtæki sem eingöngu flytji inn landbúnaðarafurðir og jafnvel þau sem hafi enga starfsemi sem tengist landbúnaði geti fallið undir undanþáguna.
Að lokum segist ráðuneytið beinlínis búast við því að lagasetningin kalli á viðbrögð vegna mögulegra brota EES-samningsins vegna samkeppnismála og neytendaverndar.
Ef ríkisstjórnin undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur einhvern áhuga á því að tryggja hér heilbrigðar markaðsaðstæður og bæta hag bænda og neytenda í stað þess að hygla milliliðum á þeirra kostnað þá leiðréttir hún þessi mistök og það sem fyrst.
Það er svo þingsins að tryggja að þau vinnubrögð sem voru viðhöfð við þetta mál endurtaki sig ekki. Við getum ekki farið svona með það vald sem okkur er gefið.