21 maí Barátta heimilanna
Við erum rík þjóð. Fyrst og fremst vegna náttúruauðlinda okkar og skynsamlegrar nýtingar þeirra. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Þar kemur mannvitið til sögunnar, þekking, skýr framtíðarsýn og geta og vilji til að hrinda góðum verkum í framkvæmd. Að mati Alþjóðabankans felst enda mikill meirihluti auðs ríkja OECD í mannauði.
Á hátíðisdögum verður ráðamönnum hér tíðrætt um gildi menntunar. Að menntun sé undirstaða áframhaldandi framfara og velmegunar í landinu. En er stjórnvöldum raunverulega alvara með þeim orðum?
Hagsagan á Íslandi frá aldamótum hefur einkennst af miklum sveiflum. Nú er þriðja uppsveifla aldarinnar og frá 2022 hefur störfum fjölgað hraðar en áður. Í tveimur síðari uppsveiflunum fjölgaði störfum ófaglærðra mest og það hefur áhrif á kjör. Kaupmáttur hefur aukist minna eftir því sem menntun er meiri. Á árunum 2000 til 2021 jókst kaupmáttur fólks með grunnmenntun um 44%, kaupmáttur fólks með háskólapróf jókst um 16%. Heimildir Eurostat sýna að í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við munar hvergi minna á tekjum háskólafólks og ófaglærðra eftir skatta en hér á landi.
Þetta er ekki beint hvetjandi umhverfi fyrir háskólamenntað fólk.
Eftir sem áður tekur fólk auðvitað sjálft ákvörðun um hvaða menntun það sækir sér. En að námi loknu tekur við sá raunveruleiki að hvort sem fólk býr að háskólamenntun eða ekki þá fær það oft litlu ráðið um efnahagslegan veruleika sinn. Séríslenskur veruleiki með hinum séríslenska krónukostnaði í formi himinhárra vaxta ræður þar meira.
Viðbrögð forsætisráðherra við ákvörðun Seðlabankans í síðustu viku að halda vöxtum óbreyttum í 9,25% voru að lýsa yfir áhyggjum af viðbrögðum heimilanna. Að þau væru að segja sig úr lögum við vaxtaákvarðanir Seðlabankans með því að segja skilið við óverðtryggð lán. Þau þyrftu þess í stað að vera duglegri að taka á sig höggið svo háir vexti skili árangri í baráttunni við verðbólguna.
Heimili landsins eru einfaldlega að gera það sem ríkisstjórnin ætti með réttu að gera meira af og það er að hugsa um hag heimilanna. Heimili landsins eru að leita leiða til að bjarga sér í óviðunandi efnahagsástandi, sem fyrst og fremst ræðst af of dýrum gjaldmiðli og ómarkvissri efnahagsstjórn.
Farsæld þjóða ræðst fyrst og fremst af mannauði. Sú staðreynd á alltaf að vera leiðarljós stjórnvalda og þar getum við einfaldlega gert mun betur.
Greinin birtist fyrst í morgunblaðinu 21. maí 2024