Barátta heimilanna

Við erum rík þjóð. Fyrst og fremst vegna nátt­úru­auðlinda okk­ar og skyn­sam­legr­ar nýt­ing­ar þeirra. Það ger­ist hins veg­ar ekki af sjálfu sér. Þar kem­ur mann­vitið til sög­unn­ar, þekk­ing, skýr framtíðar­sýn og geta og vilji til að hrinda góðum verk­um í fram­kvæmd. Að mati Alþjóðabank­ans felst enda mik­ill meiri­hluti auðs ríkja OECD í mannauði.

Á hátíðis­dög­um verður ráðamönn­um hér tíðrætt um gildi mennt­un­ar. Að mennt­un sé und­ir­staða áfram­hald­andi fram­fara og vel­meg­un­ar í land­inu. En er stjórn­völd­um raun­veru­lega al­vara með þeim orðum?

Hag­sag­an á Íslandi frá alda­mót­um hef­ur ein­kennst af mikl­um sveifl­um. Nú er þriðja upp­sveifla ald­ar­inn­ar og frá 2022 hef­ur störf­um fjölgað hraðar en áður. Í tveim­ur síðari upp­sveifl­un­um fjölgaði störf­um ófag­lærðra mest og það hef­ur áhrif á kjör. Kaup­mátt­ur hef­ur auk­ist minna eft­ir því sem mennt­un er meiri. Á ár­un­um 2000 til 2021 jókst kaup­mátt­ur fólks með grunn­mennt­un um 44%, kaup­mátt­ur fólks með há­skóla­próf jókst um 16%. Heim­ild­ir Eurostat sýna að í þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur helst sam­an við mun­ar hvergi minna á tekj­um há­skóla­fólks og ófag­lærðra eft­ir skatta en hér á landi.

Þetta er ekki beint hvetj­andi um­hverfi fyr­ir há­skóla­menntað fólk.

Eft­ir sem áður tek­ur fólk auðvitað sjálft ákvörðun um hvaða mennt­un það sæk­ir sér. En að námi loknu tek­ur við sá raun­veru­leiki að hvort sem fólk býr að há­skóla­mennt­un eða ekki þá fær það oft litlu ráðið um efna­hags­leg­an veru­leika sinn. Sér­ís­lensk­ur veru­leiki með hinum sér­ís­lenska krónu­kostnaði í formi him­in­hárra vaxta ræður þar meira.

Viðbrögð for­sæt­is­ráðherra við ákvörðun Seðlabank­ans í síðustu viku að halda vöxt­um óbreytt­um í 9,25% voru að lýsa yfir áhyggj­um af viðbrögðum heim­il­anna. Að þau væru að segja sig úr lög­um við vaxta­ákv­arðanir Seðlabank­ans með því að segja skilið við óverðtryggð lán. Þau þyrftu þess í stað að vera dug­legri að taka á sig höggið svo háir vexti skili ár­angri í bar­átt­unni við verðbólg­una.

Heim­ili lands­ins eru ein­fald­lega að gera það sem rík­is­stjórn­in ætti með réttu að gera meira af og það er að hugsa um hag heim­il­anna. Heim­ili lands­ins eru að leita leiða til að bjarga sér í óviðun­andi efna­hags­ástandi, sem fyrst og fremst ræðst af of dýr­um gjald­miðli og ómark­vissri efna­hags­stjórn.

Far­sæld þjóða ræðst fyrst og fremst af mannauði. Sú staðreynd á alltaf að vera leiðarljós stjórn­valda og þar get­um við ein­fald­lega gert mun bet­ur.

 

Greinin birtist fyrst í morgunblaðinu 21. maí 2024