10 maí Heimilislæknar eiga ekki að vera lúxus
Þau okkar sem komin eru til vits og ára þekkja biðlistavandann sem skapaður hefur verið í heilbrigðiskerfinu. Þegar kemur að heilsugæslunni, fyrsta viðkomustað heilbrigðiskerfisins samkvæmt heilbrigðisstefnu stjórnvalda, er staðan sú að stór hluti Íslendinga er án heimilislæknis. Víða er ekki hægt að fá bókaðan tíma en starfsfólk heilsugæslunnar vinnur kraftaverk á hverjum degi við að bjarga fólki úr ógöngum vegna stöðunnar.
Mönnun heimilislækna er í sögulegu lágmarki. Til að uppfylla staðla Félags íslenskra heimilislækna þyrfti að þrefalda fjölda heimilislækna í fullu starfi. Sem betur fer hefur verið stöðug ásókn í sérnám í heimilislækningum síðustu ár en það eru þó nokkur ár í að heimilislæknum fari að fjölga aftur.
Þessi staða er ekki óvænt. Hún hefur legið fyrir lengi, en þegar vantar stefnumótun sem byggist á skilningi á stöðunni og skýrri þarfagreiningu þá þarf ástandið ekki að koma á óvart.
Sú stefna sem stjórnvöld hafa unnið eftir, að bæta sífellt viðbótarverkefnum á heilsugæsluna, gengur heldur ekki lengur. Þetta kemur niður á getu heilsugæslunnar til að sinna kjarnastarfsemi sinni einmitt á sama tíma og aldrei hefur verið meiri eftirspurn eftir þeirri kjarnastarfsemi, m.a. vegna fjölgunar og öldrunar íbúa. Hér þarf að snúa kúrsinum við.
Það þarf að leggja áherslu á að styrkja kjarnastarfsemi heilsugæslunnar. Minnka óþarfa álag, draga úr sóun og fækka viðvikum sem hafa ekki skýran tilgang. Tryggja faglegt og spennandi starfsumhverfi og stuðla að tækniþróun sem styður við þessi markmið. Þar er af nægu að taka varðandi skráningu vottorða, forgangsröðun í tíma, forskráningu erinda, almenna ráðgjöf og fjarþjónustu svo dæmi séu tekin.
Loks þarf að nýta fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar til að búa til réttu hvatana. Þar hafa stjórnvöld því miður villst af leið frá því að fjármögnunarlíkanið var tekið í notkun fyrir tæpum áratug.
En allt þetta er háð því að stjórnvöld hafi skýra og markmiðasetta stefnu byggða á framtíðarsýn um þau verkefni sem við viljum að heilsugæslan okkar sinni. Aðrir hlutar heilbrigðiskerfisins verða svo að fá stuðning til að sinna öðrum verkefnum. Heilbrigðisstefna þarf líka að fela í sér alvörusamþættingu innan heilbrigðiskerfisins þannig að mismunandi hlutar þess, til dæmis sjúkrahús, heilsugæsla, endurhæfing og sérgreinalæknar, starfi á forsendum sem styðja við sameiginlegt markmið.
Hér þarf að gera betur. Verkefnið liggur fyrir og hefur gert lengi. Það gengur ekki að heimilislæknar verði viðvarandi lúxus hér á landi.