09 maí Nú þarf hægri hagstjórn og vinstri velferð
Fyrir fram hefði mátt ætla að samstjórn Sjálfstæðisflokks og VG með Framsókn myndi skila miðjupólitík með hóflegri blöndu af hægri hagstjórn og vinstri velferð.
Eftir sjö ára reynslu er niðurstaðan þveröfug: Við sitjum uppi með vinstri hagstjórn og hægri velferð.
Að auki er engu líkara en vinstri pólitík hafi ráðið hnignun löggæslunnar. Hægri pólitík hafi hindrað raunhæfar aðgerðir í loftslagsmálum. Vinstri pólitík ráðið afturför í orkuskiptum. Og það versta í hvoru tveggja varðveitt auðlindanýtingu í þágu sérhagsmuna.
Næstu kosningar ættu að snúast um það fyrst og fremst að snúa þessari reynslusögu við.
Minningargrein
Dómur fjármálaráðs um síðustu fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar segir í hnotskurn að hún sé full af góðum áformum en tóm af raunhæfum aðgerðum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú, ári fyrir kosningar, yfirgefið fjármálaráðuneytið eftir að hafa ráðið ríkisfjármálunum að mestu í áratug. Því má líta á dóm fjármálaráðs sem óvenju hreinskilin minningarorð.
Framsókn nær ekki að breyta miklu. Eftir næstu kosningar er kominn tími breytinga.
Við þurfum varanlega prinsippfestu í fjármálaráðuneytið. Aðeins þannig er unnt að hverfa frá þeim tíu ára veruleika að í fjármálaráðuneytinu tali menn fyrir einni hugmyndafræði en framkvæmi aðra.
Hærri skattar eða kerfisbreyting?
Um markmið í heilbrigðismálum er ekki mikill ágreiningur milli flokka. En aðferðafræðin skiptir máli. Þannig var það til verulegra bóta þegar Framsókn tók við af VG í heilbrigðisráðuneytinu.
Á næsta kjörtímabili þarf hins vegar að tengja langtímaáætlanir í heilbrigðismálum með markvissari hætti við fjármálaáætlun.
Hátt hlutfall vaxtagjalda ríkissjóðs er langsamlega stærsta skýringin á því að við stöndum öðrum Norðurlöndum ekki fyllilega á sporði í velferðarmálum.
Stóra pólitíska spurning næstu tveggja kjörtímabila er hins vegar hvort auka á svigrúm velferðarkerfisins með hærri sköttum eða kerfisbreytingu í peningamálum.
Samfylkingin vill auka svigrúmið á átta árum með hærri sköttum. Viðreisn vill nota sama tíma til kerfisbreytinga til að koma hlutfalli vaxtaútgjalda niður á svipað stig og á öðrum Norðurlöndum. Tvær ólíkar leiðir með sömu niðurstöðu.
Hætta
Mesti ójöfnuðurinn í samfélaginu á rætur í þrískiptu gjaldmiðlahagkerfi, því flóknasta á Vesturlöndum. Þar starfa útflutningsgreinarnar, með 40% þjóðarframleiðslunnar, í samkeppnishæfu umhverfi á meðan einstaklingar, velferðarkerfið og fyrirtæki á innlendum markaði þurfa að sætta sig við ósamkeppnishæfa mynt.
Helsta hættan í næstu kosningum felst í því að Samfylkingin hefur snúið við blaðinu í þessum efnum og býðst nú til að taka höndum saman við stjórnarflokkana til að viðhalda þessu óréttlæti, því efnahagslega óhagræði og þeim óstöðugleika, sem af því hlýst.
Forystumenn verkalýðsfélaga hafa hins vegar talað fyrir því að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að skoða þetta viðfangsefni. Það snýst um hvort tveggja: Jöfn tækifæri og betri stöðugleika.
Hér talar verkalýðshreyfingin fyrir frjálslyndum sjónarmiðum en stjórnarflokkarnir og Samfylking fyrir gamaldags vinstri sjónarmiðum.
Önnur hætta
Önnur hætta felst í þeirri stefnubreytingu Samfylkingar að bjóðast til þess að taka höndum saman við Sjálfstæðisflokk til að veita sjávarútveginum pólitíska tryggingu fyrir ótímabundnum rétti til að nýta auðlind í þjóðareign.
Tímabundinn nýtingarréttur er ekki aðeins eina leiðin til að tryggja ásættanlegt réttlæti heldur er hann forsenda fyrir langtíma rekstraröryggi, sem tryggt er með lögum, en veltur ekki á pólitískri velvild frá einum kosningum til annarra.
Hér er tekist á um hvort fylgja eigi frjálslyndri hugmyndafræði eða halda áfram gamaldags pólitík, sem líkist helst kínverskum kapítalisma.
Viðreisn og Framsókn eru einu flokkarnir sem líta á tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign sem prinsipp, sem gilda eigi fyrir allar atvinnugreinar.
Nóg komið
Sú mikla umpólun sem orðið hefur á stefnu Samfylkingar á lykilsviðum í efnahags- og auðlindapólitík eykur hættuna á því að eftir kosningar verði framhaldið á svipuðum nótum og verið hefur.
Eftir endurskilgreiningu á jafnaðarstefnunni er lítill sem enginn munur á stefnu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks nema í skattamálum.
Við þurfum hins vegar víðtæka stefnubreytingu: Málamiðlun á miðjunni um það sem með hæfilegri einföldun má kalla: Hægri hagstjórn og vinstri velferð.