19 jún 19. júní – Bríet Bjarnhéðinsdóttir heiðruð
Í dag heiðrum við minningu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og annarra baráttukvenna fyrir kvenfrelsi, á sjálfan kvenréttindadaginn 19. júní.
Þennan dag árið 1915, fengu konur á Íslandi í fyrsta sinn kosningarétt og kjörgengi til Alþingis.
Æ síðan hefur baráttufólk fyrir kvenréttindum og jafnrétti haldið daginn hátíðlegan og hefur Reykjavíkurborg heiðrað Bríeti og stöllur hennar sérstaklega með því að leggja blómsveig á leiði hennar frá árinu 2011.
Mig langar að tileinka deginum í dag fyrirmyndum fyrir konur á öllum aldri.
Og þá er ekki úr vegi að byrja að minnast Bríetar Bjarnhéðinsdóttur sem lék gríðarlega stórt hlutverk í því að koma á mikilvægum réttarbótum fyrir konur, og efla þannig lýðræðissamfélagið fyrir okkur öll.
Bríet var stofnandi Kvenréttindafélags Íslands og fyrsti formaður félagsins frá stofnun allt til ársins 1928, en markmið þess var að vinna að því að konur fengju fullt stjórnmálajafnrétti á við karlmenn, kosningarétt, kjörgengi og embættisgengi, og rétt til atvinnu með sömu skilyrðum og karlmenn.
Margt hefur breyst og áunnist á þeim 109 árum sem liðin eru, og nálgumst við endatakmark Bríetar um jafnrétti kynjanna eins og veröldin sneri við þeim á þeim tíma.
En þó svo að við getum sagt að lagalegt jafnrétti karla og kvenna, sem Bríet barðist fyrir, sé að mörgu leyti komið, þá er ljóst að staða kynjanna í samfélaginu er enn ójöfn og raunverulegt jafnrétti er ekki í höfn.
Lagaleg réttindi fara ekki alltaf saman við samfélagsstöðu. Lagaleg réttindi eru mikilvægt skref, en alls ekki eina skrefið.
Og allri jafnréttisbaráttu stafar stöðug ógn af bakslagi.
Þetta sjáum við í Bandaríkjunum, þegar horft er til réttinda kvenna til að ráða yfir eigin líkama, þetta sjáum við á Íslandi í dag þegar horft er til hinsegin samfélagsins, þá sérstaklega trans fólks og þeirra fordóma sem stöðugt dynja á því, þetta sjáum við á samfélagsmiðlum með hatursorðræðu í garð innflytjenda, litaðs fólks og kvenna.
Með hverri kynslóð koma nýjar áskoranir í jafnréttismálum, nýjar bylgjur fordóma og nýtt bakslag sem þarf að bregðast við og vinna bug á.
Það var vægast sagt sláandi að sjá hvernig hinsegin fordómar læddust uppá yfirborðið í kosningabaráttunni nú í vor þegar Baldur forsetaframbjóðandi fékk afar miðaldarlegar spurningar um fjölskyldu og hjónaband sitt, bara vegna þess að hann er hinsegin. Nánast sömu spurningar fékk forsetaframbjóðandinn Vigdís Finnborgadóttir þegar hún fyrst kvenna bauð sig fram árið 1980.
44 árum seinna fær Baldur þessar sömu gildishlöðnu spurningar.
Það má því með sanni segja að starfi Bríetar verði í raun aldrei lokið – og það sé hlutskipti nýrrar kynslóðar að taka við kyndlinum, berjast áfram og hætta ekki.
Ég beini því orðum mínum að komandi kynslóðum, til ykkar sem eruð með okkur hér í dag. Baráttunni er langt í frá lokið og við höfum séð að ef við hættum að róa bátnum og sofnum á verðinum þá rekur bátinn bara eitthvert, stefnulaust og það getum við ekki látið gerast.
Ég leyfi mér að nota þetta líkingarmál með báta því með mér hér í dag eru þrjár frænkur mínar, þær Þórdís Petra tónlistarkona og þær systur Álfrún Hanna og Lóa Björk blómarósir en við frænkurnar förum reglulega saman á netaveiðar og þurfum þar að stýra litlum báti.
Útá vatni er oft hvasst og miklar öldur.
Við frænkurnar þekkjum það að ef við hættum að róa þá rekum við bara að braut. Ef við ætlum að ná árangri í veiðiferðum okkar þá þurfum við að vera við stýrið og það á við um mannréttinda og jafnréttisbaráttu líka.
Við konur verðum að vera við stýrið og passa að láta ekki aðra sjá um það. Hvort sem það er lítill bátur sem við siglum eða þjóðarstskútan öll.
Það er nefnilega þannig að konur tilheyra öllum hópum samfélagsins, þær eru fatlaðar, þær eru trans, þær eru íþróttahetjur, þær eru innflytjendur, þær eru forstjórar og forsetar, þær eru pankynhneigðar, þær eru fátækar, þær eru gamlar og þær eru ungar og gamlar.
Að berjast fyrir réttindum kvenna þýðir marglaga og fjölþætt barátta, sem þarf að há á mörgum vígstöðum og kallar á samstöðu ólíkra hópa.
Í dag sækjum við okkur innblástur og kraft frá Bríet og hennar sögu og nýtum okkur hana sem veganesti í áframhaldandi jafnréttisbaráttu.
Í dag sækjum við líka innblástur til ykkar allra.
Kæru konur sem hér eru með okkur í dag, hvort heldur þið voruð sporgöngukonur í jafnréttisbaráttu eða eruð í dag með jafnréttisbaráttuna í fanginu. Við erum allar fyrirmyndir. Tökum það hlutverk til okkar og eigum það stoltar.
Höldum áfram að berjast og byggja réttlátara samfélag fyrir okkur öll.
Til hamingu með baráttudaginn og munum að það er ekkert gefið í þessum heimi.
Ræða flutt í Hólavallagarði 19. júní 2024