Eldhúsdagur: Sigmar Guðmundsson

Virðulegur forseti. Kæru landsmenn. Okkur Íslendingum finnst það ekkert sérstaklega spennandi staðreynd að meðalhiti í júní er rétt undir 10 gráðum. Þetta er meðalhitinn hérna á Íslandi yfir sumarmánuðina. Þetta er bara eitthvað sem við þurfum að búa við og sætta okkur við. Það er hins vegar yfirgengileg sturlun, hreint út sagt og á mannamáli, að meðalhiti í íslenskum sumarmánuði skuli vera sama tala og stýrivextir á Íslandi í heilt ár, mánuðum saman, langtímum saman bera stýrivextir á Íslandi sömu tölu og meðalhiti í sumarmánuði. Þetta er alger sturlun. Þetta er mannanna verk. Þessu getum við breytt þótt við breytum ekki veðrinu. Nú er það þannig að sumarhitinn í júní fer auðvitað stundum hærra, stundum fer hann upp í 17 gráður. 17% eru einmitt vextirnir á yfirdráttarlánum um þessar mundir fyrir íslensk heimili. Það eru margir með yfirdráttarlán og það eru dulin vanskil.

Þetta er staðan hjá okkur í íslenska krónuhagkerfinu. Við erum að glíma við vaxtaokur og verðbólgubrjálæði. Vextir eru alltaf hærri hérna á Íslandi og verðbólga er alltaf hærri hérna á Íslandi heldur en í nágrannalöndunum. Þetta er óréttlátt. Það er óréttlátt að íslensk heimili þurfi að borga meira en 10% í vexti af sinni dýrustu fjárfestingu, sem er húsnæði. Það er staðan í dag, rúmlega 10% vextir á óverðtryggðum húsnæðislánum. Þetta er óréttlátt. Það er óréttlátt að við Íslendingar þurfum að borga íbúðina okkar, ungt fólk íbúðina sína, fasteignina sína, tvisvar til þrisvar á meðan fólk í nágrannalöndunum gerir það ekki. Talið við fólk í nágrannalöndunum og spyrjið, sérstaklega þið sem eruð að detta inn á húsnæðismarkaðinn núna, hvaða kjör bjóðast þar. Þau eru önnur og sanngjarnari. Þetta er óréttlátt.

Það er óréttlátt að lítil og meðalstór fyrirtæki séu að fjármagna sig á mun hærri vöxtum heldur en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þetta er mjög óréttlátt, þetta er dýrt, þetta dregur úr fjárfestingu, þetta rýrir lífskjör okkar allra. Það er líka óréttlátt að stærstu fyrirtækin okkar, útgerðarfyrirtækin, álfyrirtækin, geti labbað út úr krónuhagkerfinu á meðan við öll hin erum föst í krónuhagkerfinu. Þau geta fjármagnað sig á betri kjörum heldur en heimili og lítil fyrirtæki og meðalstór fyrirtæki. Þetta er óréttlátt en þetta er bein afleiðing af krónuhagkerfinu.

Það er nefnilega þannig að óréttlætið sem felst í háum vöxtum og hárri verðbólgu bitnar á okkur öllum. Þetta er alltaf svona hér á Íslandi; vextir og verðbólga er hærri en í nágrannalöndunum. Vaxtastig á Íslandi er með þeim ósköpum að það eru bara fjögur ríki í Evrópu sem eru með hærri vexti nú um stundir. Vitið þið hvaða lönd það eru? Það eru almennt ekki lönd sem við erum að bera okkur saman við. Það er Tyrkland, það er Belarús, Rússland og Úkraína, sem eru stríðshrjáð lönd eins og við þekkjum, lönd sem eiga í stríði. Þetta er veruleikinn. Við erum langt frá Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, sem eru alla jafna lönd sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Þetta er ósanngjarnt og þetta er óréttlátt. Þetta er hins vegar mannanna verk. Þetta er stefna ríkisstjórnarflokkanna vegna þess að það er innbyggt í það sem þau hafa fram að færa gagnvart landsmönnum að vextir hér og verðbólga hér sé hærri heldur en í nágrannalöndunum.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem vill breyta þessu, eini flokkurinn sem býður upp á eitthvað annað en plástra og skammtímalausnir. Vandinn okkar er nefnilega gjaldmiðillinn, einn minnsti gjaldmiðill í Evrópu, gjaldmiðill sem er eins og myllusteinn um hálsinn á okkur öllum. Við getum breytt þessu þótt við getum ekki breytt veðrinu og við eigum að gera það. Það er svolítið þannig að sumir stjórnmálamenn, einkum og sér í lagi þeir sem sitja við ríkisstjórnarborðið, halda því fram að það sé vel hægt að búa til stöðugleika á Íslandi með íslensku krónunni. Af hverju hefur þeim þá aldrei tekist að gera það? Af hverju hefur Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum aldrei tekist það? Það geta verið tvær skýringar á því. Önnur er sú að þeir séu alveg yfirgengilega lélegir í hagstjórninni. Hin er sú að það gæti verið einhver kerfisvandi sem flækir málin fyrir þeim. Ég ætla að leyfa þeim sjálfum að gera það upp við sig hvor skýringin sé sú rétta. En ef það er ekki krónan þá er þetta einhver heiðarlegasta sjálfsgagnrýni sem fyrirfinnst í íslenskri stjórnmálasögu.

Nú er það þannig að hagfræðilögmálin á Íslandi eru þau sömu og í löndunum sem við miðum okkur við. Það er ótrúlega blóðugt að íslenska ríkið, sameiginlegir sjóðir okkar allra, sé að borga 60–80 milljarða á ári aukreitis í vexti vegna íslensku krónunnar. Svoleiðis er það. Þetta er reiknuð stærð út frá vaxtamun Íslands og Evrópulandanna. Við gætum nýtt þessa peninga í annað en vexti. Við gætum t.d. nýtt hluta af þessum fjármunum í það að kenna börnunum okkar betur að lesa, í að gefa kennurum í skólakerfinu tækifæri til þess að sinna börnunum okkar betur. Við getum líka nýtt þessa peninga í heilbrigðiskerfið okkar. Við getum til að mynda gert það að verkum að þegar við hringjum og ætlum að komast á fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu, sem er heilsugæslan, þurfum við ekki að bíða í margar vikur eftir því að fá lækni. Þannig er staðan í dag. Hugsið ykkur, fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu og það er margra vikna bið. Hefur einhver hérna inni þurft að fara á bráðamóttökuna, annaðhvort sjálfur eða með barn að undanförnu? Það liggur fólk úti um alla ganga og það er ótrúlega löng bið. Það liggur fólk á öllum göngum, gamalt fólk, aldrað fólk, úti um allan spítala vegna þess að það eru ekki til hjúkrunarheimili.

Þetta er staðan eftir sjö ára valdatíð þessarar ríkisstjórnar. Þessir flokkar eru núna að biðja um endurnýjað umboð. Ætlum við í alvöru að láta þá sem komu okkur í þessa stöðu leysa fyrir okkur vandann? Ég held ekki. Ég held að það þurfi ný öfl til að stýra landinu og Viðreisn treystir sér í það.

Mig langar að minna ykkur á það að það er 17. júní eftir fáeina daga. Þetta er auðvitað gleðidagur í lífi okkar Íslendinga, en þann sama dag lokar eftirmeðferðarstöðin Vík hjá SÁÁ. Það er fjöldi fólks sem fær ekki eðlilega þjónustu í sex vikur í sumar og það byrjar á þjóðhátíðardaginn. Biðlistar í heilbrigðiskerfinu eru hvergi jafn nöturlegir og þarna. Stundum vantar okkur kannski eitthvað pínulítið samhengi. Við erum 63 sem erum í þessum sal. Hugsið ykkur það að á hverju einasta ári deyja tvöfalt fleiri heldur en eru í þessum sal núna úr fíknisjúkdómi, á hverju einasta ári tvöfalt fleiri.

Við skuldum fólki, þessu fólki, okkar veikasta fólki og öðru fólki á íslenskum biðlistum heilbrigðiskerfisins að gera betur. Við þurfum að fara betur með fjármuni almennings og við þurfum að vinna betur að hag fólksins í landinu. Við verðum að komast upp úr þeim skotgröfum sem ríkja hér á milli ríkisstjórnarflokkanna og læsa hvert þjóðþrifamálið á fætur öðru inni í þinginu, ofan í skúffu. Við verðum að fara að vinna fyrir fólkið þarna úti og hætta að vinna fyrir egóin hérna inni.