26 jún Frá bryggjuspjalli yfir í hugmyndafræði
Á sjómannadaginn síðasta datt mér í hug að opna á eins konar bryggjuspjall um daginn og veginn heima í Hafnarfirði með því að fara í sjómann við þá sem kynnu að hafa gaman af.
Einn viðmælandi nefndi að hann væri sáttur við tal Viðreisnar um frjálslyndi en fyndist orðræða okkar um Evrópusambandið aðeins of einhæf. Ég svaraði að þetta væru tvær hliðar á sama peningi. Önnur hliðin endurspeglaði frjálslynda hugmyndafræði okkar. Hin væri dæmi um leið að markmiðum, sem öll byggðust á frjálslyndri hugsun um lýðræði, frelsi og stöðugleika.
Pólitík snýst einfaldlega um ólíkar leiðir að sameiginlegum markmiðum. Aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntsamstarfinu er þannig hvorki stefna né markmið í sjálfu sér. Hún er hins vegar vænleg leið og skynsöm til að ná mörgum stefnumálum og markmiðum fram, sem þjóðin á sameiginlega.
Tökum dæmi:
Jöfn tækifæri
Fyrir nokkrum áratugum var útflutningsfyrirtækjunum tryggð jafnari samkeppnisstaða með því að leyfa þeim að starfa í gjaldmiðla- og vaxtaumhverfi viðskiptalandanna. Að yfirgefa krónuna. Það var eðlilegt fyrsta skref í átt að samkeppnishæfu umhverfi.
Venjuleg fjölskylda sem er að koma sér þaki yfir höfuðið lifir við allt önnur skilyrði í krónuhagkerfinu. Vaxtabyrði hennar er þrefalt hærri en eigenda stórrar hótelkeðju sem reisir nýtt hótel. Sömu sögu er að segja af bóndanum, sem reisir nýtt fjós. Hann greiðir þrefalt hærri vexti en útvegsmaðurinn sem reisir nýtt frystihús. Fjölskyldunni og bóndanum er bannað að nýta sér sömu tækifæri og hóteleigandanum og útvegsmanninum.
Ríkisstjórnin reynir að jafna þennan aðstöðumun með hærri vaxtabótum og auknum lántökum. Samfylkingin vill gera það með auknum vaxtabótum og hærri sköttum. Lausnir allra þessara flokka eru byggðar á hugmyndafræði um millifærslur og aukin ríkisumsvif.
Viðreisn er mótfallin millifærslulausnum, þegar hægt er að komast hjá þeim. Í þessu tilviki er það einfalt. Með því að tryggja öllum sama gjaldmiðla- og vaxtaumhverfi og útflutningsfyrirtækin starfa nú þegar í. Þannig er Evrópusambandsaðildin og upptaka evru bara leið að markmiði sem nokkuð breið samstaða er um að sé skynsamleg. Valið er hins vegar á milli stjórnlyndis eða frjálslyndis.
Ólíkar leiðir að sama marki
Ríkisskuldir Íslands eru ekki háar í samanburði við nágrannalöndin. Samt þurfum við að taka þrefalt stærri sneið af þjóðarkökunni en þau til að borga vaxtagjöld ríkissjóðs. Það hefur verið pólitísk ákvörðun að setja tugum milljarða meira í vaxtagjöld en aðrar þjóðir Evrópu. Það finnst mér skringileg forgangsröðun fjármuna, ekki síst þegar risaverkefni innan heilbrigðiskerfisins og innviðauppbyggingar blasa við. Þetta þrengir svigrúm velferðarkerfisins í samanburði við önnur norræn lönd.
Ríkisstjórnin leysir þetta á hraða snigilsins með lántökum og sköttum síðar. Samfylkingin vill ná markmiðinu með áfangaskiptri hækkun skatta, sem endar með að koma Íslandi í efsta sæti á skattheimtulista vestrænna þjóða.
Viðreisn er heldur ekki með skyndilausn en vill tryggja að velferðarkerfið búi ekki við lakari kost en útflutningsfyrirtækin á fjármálamarkaði. Upptaka evru myndi lækka vaxtaútgjöld og gefa velferðarkerfinu nauðsynlegt andrými og svigrúm. Á grundvelli frjálslyndrar hugmyndafræði.
Aukið atvinnufrelsi
Einföldun regluverks er viðfangsefni sem flestir flokkar sammælast um. Með engri ráðstöfun hafa þjóðir í Evrópu náð lengra í því efni en með sameiginlegum leikreglum á sviði viðskipta og neytendaverndar. Eitt sameiginlegt regluverk í stað þrjátíu ólíkra.
Bretar reyndu þetta áþreifanlega þegar regluverkið varð stirðara og skapaði fleiri viðskiptahindranir með Brexit. Hér heima er ríkisstjórnin einkar lagin í heimatilbúnum lausnum sem fela í sér að flækja og íþyngja regluverk.
Alþjóðleg samvinna af þessu tagi hefur stóraukið athafnafrelsi einstaklinga í atvinnustarfsemi jafnt sem listsköpun. Með öðrum orðum þá þýðir það meira frelsi fyrir borgarana en minna svigrúm fyrir stjórnlynda stjórnmálamenn.
Þannig er Evrópusambandsaðild leið til að ná frjálslyndum markmiðum og viðhalda þeim.
Gjaldeyrishöftin
Á dögunum kom bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Aliber til landsins. Hann kom hér fyrst fyrir hrun og benti þá á alvarlegar skekkjur í hagkerfinu og hefur komið hér oft síðan. En að þessu sinni var erindi hans að tala á ráðstefnu um erlendar fjárfestingar lífeyrissjóða.
Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann að mikilvægt væri að leggja af skiptingu milli innlendra og erlendra fjárfestinga lífeyrissjóða. Á einföldu máli þýðir það að afnema gjaldeyrishöftin á sjóðina.
Þau höft jafngilda ríflega heilli þjóðarframleiðslu og eru sennilega umfangsmestu gjaldeyrishöft sem fyrirfinnast í vestrænum markaðsbúskap. Hlutfallslegt umfang haftanna hefur vaxið með hverju ári. Tilgangur þeirra er að halda uppi gengi krónunnar. Rándýr hliðarveruleiki íslensku krónunnar.
Stjórnarflokkarnir vilja fremur gjaldeyrishöft en að lífeyriskerfið njóti jafnra möguleika á fjármálamarkaði og útflutningsfyrirtækin. Sparifé landsmanna er haldið í gíslingu til að halda lífi í gölluðu fyrirkomulagi. Samfylkingin virðist nýlega einnig hafa lagst á þá sveif.
Þessi höft valda margs konar skekkju í þjóðarbúskapnum. Við sjáum að einkafjármagn víkur í ríkari mæli fyrir félagslegu fjármagni, lífeyrissjóðunum í atvinnulífinu.
Hér hefur frjálslynd hugsun vikið fyrir stjórnlyndum viðhorfum. Því vill Viðreisn breyta. Eina leiðin til að tryggja að lífeyriskerfið njóti sömu möguleika og útflutningsfyrirtækin er að taka upp evru. Og eina leiðin til að heimilin sitji við sama borð og útflutningsfyrirtækin er að taka upp evru. Viðreisn setur þau frjálslyndu viðhorf í forgang. Evran er bara verkfærið til þess.
Meiri hugmyndafræði og pólitík
Við í Viðreisn tölum fyrir jöfnum tækifærum og erum óhrædd að sýna að við fylgjum þeirri pólitík í verki.
Spurning viðmælanda míns á sjómannadaginn var því kærkomið tilefni til að stinga enn og aftur niður penna um mikilvægi heildarsýnar á pólitísk viðfangsefni og að stefna landsins byggist á traustum hugmyndafræðilegum grunni.