08 jún Friður, frelsi og lýðræði í Evrópu
Það stefnir í spennandi kosningar til Evrópuþingsins sem fara fram þessa dagana í 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins. Útkoman mun enda hafa mikil áhrif á framvinduna í Evrópu á næstu árum. Ísland er þar auðvitað ekki undanskilið og það ekki eingöngu í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í þessum kosningum eiga 370 milljón Evrópubúar þess kost að hafa áhrif á þróun mála. Íslenskir kjósendur eru því miður ekki í þeim hópi, enn sem komið er.
Kosningunum lýkur á morgun en þá mun koma í ljós hvernig þingsætin 720, sem skiptast hlutfallslega milli ríkjanna, verða skipuð með tilliti til þess hvað þeir flokkahópar sem starfa á Evrópuþinginu fá marga þingmenn hver. Þar liggur hin eiginlega pólitík og áhrif innan Evrópusambandsins, frekar en hvað hvert land er með marga þingmenn enda er engin Evrópuþjóð eyland þegar kemur að samvinnu innan álfunnar.
Í aðdraganda kosninganna var útlit fyrir að harðlínuflokkar á jaðri evrópskra stjórnmála myndu auka fylgi sitt verulega ef marka má greiningar erlendra fjölmiðla á stöðunni. Hvort slíkir harðlínuflokkar ná raunverulegu flugi og í kjölfarið ná svo að vinna saman og auka þannig áhrif sín verður að koma í ljós.
Þrátt fyrir þennan uppgang harðlínuflokkanna gefa kannanir sterklega til kynna að núverandi bandalag hófsamra frjálslyndra flokka sitt hvorum megin við miðjuna muni halda meirihluta. Meirihluta sem flestir íslenskir stjórnmálaflokkar myndu staðsetja sig í. Breytt valdahlutföll á þinginu gætu auðvitað þó sett strik í reikninginn.
Erindi frjálslyndra flokka hefur aldrei verið mikilvægara en einmitt nú. Frelsið sem er okkur svo kært, hefur í gegnum tíðina verið einn af hornsteinum lýðræðis í Evrópu og ein af meginforsendum sameiginlegrar hagsældar okkar. Þeim fer fækkandi sem muna myrkustu tíma Evrópu og það er hætt við að fyrnist yfir vitnisburð þeirra. Hætt við að við gleymum varnaðarorðum þeirra sem upplifðu tíma þar sem friður var fjarlægur draumur og frelsið og lýðræðið í raunverulegri útrýmingarhættu.
Friður meðal landa Evrópu hefur verið stærsta afrek Evrópusambandsins síðustu áratugi. Friður í Evrópu er forsenda þess að íbúar álfunnar njóti áfram þeirra kosta og tækifæra sem felast í frjálslyndu lýðræði. Nú eru þar blikur á lofti eins og við öll þekkjum. Við skuldum þeim sem vörðu frelsið og lýðræðið um miðja síðustu öld og unga fólkinu sem á skilið að fá að móta eigin framtíð á friðartímum. Þess vegna skipta kosningar til Evrópuþingsins máli. Þess vegna þarf frjálslynd friðelsk íslensk þjóð að eiga þar atkvæðisrétt.