Friður, frelsi og lýðræði í Evrópu

Það stefn­ir í spenn­andi kosn­ing­ar til Evr­ópuþings­ins sem fara fram þessa dag­ana í 27 aðild­ar­ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Útkom­an mun enda hafa mik­il áhrif á fram­vind­una í Evr­ópu á næstu árum. Ísland er þar auðvitað ekki und­an­skilið og það ekki ein­göngu í gegn­um samn­ing­inn um Evr­ópska efna­hags­svæðið. Í þess­um kosn­ing­um eiga 370 millj­ón Evr­ópu­bú­ar þess kost að hafa áhrif á þróun mála. Íslensk­ir kjós­end­ur eru því miður ekki í þeim hópi, enn sem komið er.

Kosn­ing­un­um lýk­ur á morg­un en þá mun koma í ljós hvernig þing­sæt­in 720, sem skipt­ast hlut­falls­lega milli ríkj­anna, verða skipuð með til­liti til þess hvað þeir flokka­hóp­ar sem starfa á Evr­ópuþing­inu fá marga þing­menn hver. Þar ligg­ur hin eig­in­lega póli­tík og áhrif inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins, frek­ar en hvað hvert land er með marga þing­menn enda er eng­in Evr­ópuþjóð ey­land þegar kem­ur að sam­vinnu inn­an álf­unn­ar.

Í aðdrag­anda kosn­ing­anna var út­lit fyr­ir að harðlínu­flokk­ar á jaðri evr­ópskra stjórn­mála myndu auka fylgi sitt veru­lega ef marka má grein­ing­ar er­lendra fjöl­miðla á stöðunni. Hvort slík­ir harðlínu­flokk­ar ná raun­veru­legu flugi og í kjöl­farið ná svo að vinna sam­an og auka þannig áhrif sín verður að koma í ljós.

Þrátt fyr­ir þenn­an upp­gang harðlínu­flokk­anna gefa kann­an­ir sterk­lega til kynna að nú­ver­andi banda­lag hóf­samra frjáls­lyndra flokka sitt hvor­um meg­in við miðjuna muni halda meiri­hluta. Meiri­hluta sem flest­ir ís­lensk­ir stjórn­mála­flokk­ar myndu staðsetja sig í. Breytt valda­hlut­föll á þing­inu gætu auðvitað þó sett strik í reikn­ing­inn.

Er­indi frjáls­lyndra flokka hef­ur aldrei verið mik­il­væg­ara en ein­mitt nú. Frelsið sem er okk­ur svo kært, hef­ur í gegn­um tíðina verið einn af horn­stein­um lýðræðis í Evr­ópu og ein af meg­in­for­send­um sam­eig­in­legr­ar hag­sæld­ar okk­ar. Þeim fer fækk­andi sem muna myrk­ustu tíma Evr­ópu og það er hætt við að fyrn­ist yfir vitn­is­b­urð þeirra. Hætt við að við gleym­um varnaðarorðum þeirra sem upp­lifðu tíma þar sem friður var fjar­læg­ur draum­ur og frelsið og lýðræðið í raun­veru­legri út­rým­ing­ar­hættu.

Friður meðal landa Evr­ópu hef­ur verið stærsta af­rek Evr­ópu­sam­bands­ins síðustu ára­tugi. Friður í Evr­ópu er for­senda þess að íbú­ar álf­unn­ar njóti áfram þeirra kosta og tæki­færa sem fel­ast í frjáls­lyndu lýðræði. Nú eru þar blik­ur á lofti eins og við öll þekkj­um. Við skuld­um þeim sem vörðu frelsið og lýðræðið um miðja síðustu öld og unga fólk­inu sem á skilið að fá að móta eig­in framtíð á friðar­tím­um. Þess vegna skipta kosn­ing­ar til Evr­ópuþings­ins máli. Þess vegna þarf frjáls­lynd friðelsk ís­lensk þjóð að eiga þar at­kvæðis­rétt.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júní 2024.