06 júl Framfarir eða fjármálablinda?
Íslandssagan er full af dæmum um stórhuga fólk sem tók afdrifaríkar ákvarðanir með hagsmuni lands og þjóðar í huga. Ákvarðanir, stundum erfiðar, þar sem hagsmunir almennings voru settir í forgang. Þess vegna erum við það sem við erum, þjóð framfara og velmegunar sem fáa hefði dreymt um fyrir ekki svo mörgum áratugum.
En sagan geymir líka dæmi um hið gagnstæða, miklu færri þó sem betur fer. Og þeir virðast til sem vilja afturför frekar en framfarir. Sennilega er slík vitleysa færð af þeim sjálfum í einhvern annan og skárri búning en við hin sjáum svo augljóslega. Eitt dæmið er endalaus áróður gegn Evrópusambandinu, ekki bara gegn aðild Íslands að því mikilvæga bandalagi Evrópuþjóða, heldur gegn sambandinu sem slíku. Endamarkmiðið virðist vera að koma Íslandi út úr Evrópska efnahagssvæðinu, með öðrum orðum skjóta okkur efnahagslega aftur um nokkra áratugi. Meiri framfarirnar það!
En þetta er auðvitað undantekningin sem sannar þá góðu reglu að flest viljum við af heilum hug finna leiðina áfram fyrir íslenskt samfélag. Mjög framarlega í forgangsröðuninni hlýtur þar að vera upplýst umræða um þann óþarfa kostnað sem fellur á ríki og sveitarfélög, smærri fyrirtæki og allan almenning vegna íslensku krónunnar.
Langtímavaxtamunur á íslensku krónunni og evru leiðir til umframvaxtakostnaðar fyrir íslenskt samfélag upp á um 500 milljarða króna á ári. Það er sturluð upphæð sem er einfaldlega fengin með
því að skoða tölur frá Seðlabanka Íslands og Hagstofunni yfir skuldir ríkissjóðs, sveitarfélaga, annarra opinberra aðila, fyrirtækja og heimila. Skuldirnar eru síðan margfaldaðar með langtímavaxtamun krónunnar og evru sem er 4,5-5,5% eftir því hvort um er að ræða skuldir fyrirtækja og heimila eða opinberra aðila.
Árlega er óþarfa vaxtakostnaður heimila landsins vegna krónunnar til dæmis um 150 milljarðar og kostnaður atvinnulífsins annað eins. Nær daglega berast fréttir af erfiðleikum heimila og fyrirtækja vegna þessa sama séríslenska vaxtakostnaðar.
Ríkissjóður ber árlega 80 milljarða aukakostnað vegna krónunnar. Þessi fórnarkostnaður er á pari við heildarlaunakostnað Landspítala þar sem starfa um 5.000 manns. Þess sama spítala þar sem fagfólkið er að sligast undan álagi vegna manneklu. Þetta er fráleit forgangsröðun og fjármálablinda sem við getum ekki látið viðgangast lengur. Nú þarf íslenskur almenningur að fá að taka af skarið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júlí