25 júl Íslenskasta fyrirsögn gærdagsins
Verðbólga eykst og áfram rigning í kortunum. Svona hljóðaði fyrirsögn á einum vefmiðlanna í gær. Hún fangar íslenskan veruleika ákaflega vel. Við viljum gjarnan meiri sól í sumarfríinu og að verðbólga lækki og vextir í framhaldinu. Veðrinu getum við ekki stjórnað. Við tökum því eins og hverju öðru hundsbiti enda öllu vön. Verðbólga er hins vegar fyrirbæri sem við getum haft áhrif á. Seðlabankinn hefur reynt að hafa áhrif á verðbólguna með því að keyra vexti hér upp úr öllu valdi. Hinir margfrægu aðilar vinnumarkaðarins hafa reynt að stilla kjarasamningum þannig upp að þeir magni ekki upp þenslu. Stjórnvöld hafa hins vegar ekki farið nægjanlega vel með peninga almennings sem er mjög mikilvæg aðferð við að ná tökum á ástandinu.
Hér er ekki gengið í takt. Afleiðingarnar eru alvarlegar fyrir heimili, fyrirtæki, sveitarfélög og ríkissjóð. Á hverjum einasta degi greiðum við öll hátt gjald fyrir verðbólguna og séríslensku vextina. Það kom fram í fréttum fyrr í vikunni að vanskil væru að aukast. Það kemur auðvitað því miður ekki á óvart því hvorki heimili né fyrirtæki ráða við háa verðbólgu og svimandi háa vexti til lengdar.
Þetta er ekki spennandi staða á kosningavetri. Þá freistast stjórnvöld gjarnan til útgjalda sem friða mögulega einhverja kjósendur, en viðhalda háu vaxtaog verðbólgustigi. En því miður er þetta sjálfskaparvíti íslensku krónunnar. Krónu sem viðheldur hér viðvarandi hærri verðbólgu og vöxtum en í nágrannalöndunum. Sjálfskaparvíti sem margir stjórnmálamenn tala um sem eftirsóknarverðan sveigjanleika. Sá sveigjanleiki er auðvitað ekkert annað en frasi sem sómt hefði sér vel í bók Orwells þar sem stríð var friður og fáfræði viska.
Það er óverjandi að íslenska ríkið sé að borga 60 til 70 milljarða á ári, aukalega, í vaxtagjöld vegna þeirrar sérvisku að halda úti sérstöku myntsvæði fyrir tæplega 400 þúsund manns. Ríkissjóður gæti gert margt fyrir þessa fjárhæð. Til að mynda greitt öll laun starfsfólks Landspítalans, tvöfaldað þá upphæð sem rennur í vegaframkvæmdir eða staðið straum af kostnaði við sjúkratryggingar.
Hér búa svipað margir og í borgunum Kaunas í Litáen, Stoke-on-Trent í Englandi og Brno í Tékklandi. Óhætt er að fullyrða að ekki nokkrum manni dettur í hug að íbúar þessara borga væru betur settir með eigin gjaldmiðil og óhjákvæmileg fylgitungl í formi verðtryggingar, okurvaxta og sérstaks gjaldeyrisforða upp á hundruð milljarða. Krónuhelsið er ekki náttúrulögmál heldur pólitísk stefna. Krónuhelsið er ákvörðun um að Íslendingar búi við verri lífskjör en þeir annars þyrftu. Við stöndum vel, en það er efnahagslegt metnaðarleysi að stefna ekki hærra með stöðugri efnahag. Verðbólga eykst og það er áfram rigning í kortunum.