Íslendingar eiga skilið stöðugleikastjórn

Það er ekki fyrr en að hausti 2026 sem gert er ráð fyr­ir að verðbólga geti fallið að 2,5% mark­miði Seðlabank­ans. Það verður þá eft­ir tæp­lega 80 mánaða sam­fellt verðbólgu­tíma­bil sem er með því lengsta í sög­unni. Níu ára halla­rekst­ur á rík­is­sjóði hef­ur kynt und­ir verðbólgu­bál­inu. Nú er svo komið að ís­lenskt vaxta­stig og vaxta­byrði þekk­ist helst ann­ars í stríðshrjáðum ríkj­um.

Af­leiðing­ar óstjórn­ar­inn­ar blasa við. Sam­göngu­áætlun er ófjár­mögnuð á meðan vega­kerfið ligg­ur und­ir skemmd­um. Heil­brigðis- og mennta­kerfið er í ólestri. Meira að segja lög­gæsl­an, sem er al­gjör frum­skylda stjórn­valda, hef­ur verið van­fjár­mögnuð um ára­bil. Póli­tísk­ar áhersl­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar birt­ast ekki síst í harðri and­stöðu henn­ar við heil­brigðar leik­regl­ur í sam­fé­lag­inu. Ein­ok­un í land­búnaði hef­ur verið færð á silf­urfati til Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga. Frum­vörp hafa verið kynnt um að færa Norðmönn­um ótíma­bund­inn nýt­ing­ar­rétt á auðlind­um í fjörðum lands­ins. Skipt hef­ur verið um fjár­málaráðherra þris­var sinn­um á sex mánuðum í óstarf­hæfri rík­is­stjórn sem snýst þegar allt kem­ur til alls fyrst og fremst um hver sit­ur í hvaða ráðherra­stól.

Þetta er veru­leik­inn sem blas­ir við þing­mönn­um í vet­ur og auðvitað al­menn­ingi öll­um. Íslend­ing­ar eiga svo miklu betra skilið; stöðug­leika og stjórn sem vinn­ur með al­manna­hags­mun­um, en ekki gegn þeim.

42% sagt skilið við hag­kerfið – hin búa við óstöðug­leika

Vaxta­kostnaður heim­ila í fyrra jókst um heila 39 millj­arða. Staðlað svar rík­is­stjórn­ar­inn­ar við þessu galna ástandi er að há­vaxta­stig sé bara í eðli ís­lenska kerf­is­ins. Það sé lítið og sveiflu­kennt. Aldrei er talað um óreiðuhag­stjórn eða þá staðreynd að tvær þjóðir búa á Íslandi. Ann­ars veg­ar fólkið sem lif­ir í krónu­hag­kerf­inu og hins veg­ar fyr­ir­tæk­in sem gera upp í evr­um og doll­ur­um. Um 250 ís­lensk fyr­ir­tæki hafa yf­ir­gefið krón­una og um 42% þjóðarfram­leiðslunn­ar eins og fram kom í ný­legu svari viðskiptaráðherra við fyr­ir­spurn­um mín­um á Alþingi. Vaxta­ákv­arðanir Seðlabank­ans hafa þess vegna ekki áhrif á lán þess­ara fyr­ir­tækja. Þess­um fyr­ir­tækj­um bjóðast betri láns­kjör en heim­il­um og litl­um fyr­ir­tækj­um. Viðreisn hafn­ar þess­um veru­leika til fram­búðar. Stöðug­leiki á að vera lúx­us allra en ekki sumra. Og stöðug­leik­inn fæst ekki fyrr en al­menn­ing­ur nýt­ur stöðugs gjald­miðils rétt eins og stór­fyr­ir­tæk­in gera.

Stöðug­leiki fyr­ir unga fólkið

Þótt kaup­mátt­ur launa sé al­mennt góður á Íslandi í alþjóðleg­um sam­an­b­urði hef­ur hann hins veg­ar sveifl­ast fjór­um sinn­um meira á Íslandi en í hinum OECD-lönd­un­um bara frá alda­mót­um. Niður­sveifl­urn­ar hafa bitnað harðast á ungu fólki sem fær­ir fjár­magn til eldri kyn­slóðanna og helst gegn­um fast­eigna­markaðinn. Þetta er ungt fólk sem býr við þunga út­gjalda­byrði og er að koma und­ir sig fót­um í líf­inu. Það þarf þess vegna ekki að koma á óvart að ungu fólki, og þá sér­stak­lega menntuðu fólki, finn­ist Ísland ekki aðlaðandi kost­ur sem framtíðar­heim­ili. Staðreynd­in er nefni­lega að færri ís­lensk­ir há­skóla­nem­ar sem fara út í nám skila sér heim en ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um. Við erum Norður­landa­meist­ar­ar í út­flutn­ingi eig­in borg­ara og þar skipta þætt­ir eins og verðbólga, ís­lensk­ir vext­ir á hús­næðislán­um og verð á mat­vöru miklu, sem og stuðning­ur við barna­fjöl­skyld­ur. Þegar talað er um að vera sam­keppn­is­hæf sem þjóð þarf að horfa til þess hvaða veru­leiki bíður ungs fólks. Við verðum að taka það verk­efni al­var­lega að vera sam­keppn­is­hæf sem framtíðar­land ungs fólks.

Leyf­um fólk­inu að kjósa um stöðug­leik­ann

Um ára­tug­ur er síðan stjórn­völd meinuðu þjóðinni að taka af­stöðu til framtíðar í Evr­ópu­sam­band­inu. Frá þeim tíma hef­ur óstöðug­leik­inn verið áfram­hald­andi veru­leiki al­menn­ings. Fólkið í land­inu á að fá að kjósa um stöðug­leik­ann og áfram­hald­andi viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Þessi ákvörðun verður alltaf að vera þjóðar­inn­ar. Við eig­um að geta tekið af­stöðu til kost­anna og gall­anna í sam­ein­ingu. Stjórn­völd í sam­tali við fólkið í land­inu.

Um það snýst heil­brigt lýðræði og það er skylda rík­is­stjórn­ar sem vinn­ur í þágu al­manna­hags­muna og stöðug­leika – en ekki gegn.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2024