Menntamálin eiga að vera ofar á blaði

Við þekkj­um flest kenn­ara sem breytti lífi okk­ar til góðs. Hjá mér koma mörg nöfn upp í hug­ann, Helga Krist­ín og Dóra ís­lensku­kenn­ar­ar í grunn­skóla. Helga móður­syst­ir dró mig að landi fyr­ir sam­ræmt próf í stærðfræði (sem hlýt­ur að hafa verið þol­in­mæðis­verk). Guðný sögu­kenn­ari í MR kveikti áhuga á lög­fræði þegar hún fjallaði um stjórn­ar­skrá Íslands og ég gæti auðveld­lega nefnt fleiri. Kenn­ar­ar eru auðvitað í lyk­il­hlut­verki í lífi barna og ung­linga. Sem mamma hef­ur reynsla mín af kenn­ur­um dætra minna verið hin sama.

Virðing fyr­ir verk­efn­inu

Niðurstaða síðustu PISA-mæl­ing­ar var að meðal 15 ára barna voru 40% þeirra ekki fær um að lesa sér til gagns. Þessi börn ljúka því miður grunn­skóla­námi án þess að hafa nægi­lega sterk­an grunn til að byggja á til fram­búðar. Sú staða er óá­sætt­an­leg. Ísland skrap­ar nú botn­inn í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og færri börn sýna af­burðaár­ang­ur hér á landi. Lé­leg­ur lesskiln­ing­ur tak­mark­ar bein­lín­is getu barna til þátt­töku í sam­fé­lag­inu. Það spegl­ar litla virðingu fyr­ir verk­efn­inu að tala eins og þess­ar niður­stöður PISA séu annað en al­var­leg­ar.

Mennta­mál eru hags­muna­mál okk­ar allra. Auðvitað hafa for­eldr­ar skóla­barna skoðun á skóla­mál­um og það væri reynd­ar mikið áhyggju­efni ef svo væri ekki. Lang­sam­lega flest­ir for­eldr­ar bera taug­ar til skóla barna sinna og vilja að nám þeirra gangi vel. Þjóðin öll vill að næsta kyn­slóð hafi færni til að tak­ast á við áskor­an­ir framtíðar­inn­ar.

Kenn­ar­ar eiga að sama skapi skilið að um þessa stöðu sé rætt og ekki síður að brugðist sé við. Og vit­an­lega segja sam­ræmd­ar mæl­ing­ar ekki alla sög­una af skóla­starfi eða alla sög­una af hæfni nem­enda. Það vita í sjálfu sér all­ir. En eft­ir stend­ur að al­var­leg teikn eru á lofti hvað þessa stöðu varðar og hafa verið um ára­bil.

Hver eru mark­miðin?

Stjórn­völd verða að vera skýr um stefnu sína í mennta­mál­um og um mark­miðin. Svo er ekki í dag. Það verður að vera metnaður til að um­gjörð skóla­starfs sé þannig að börn nái sem best­um ár­angri í námi. Án þess verður skól­inn ekki það jöfn­un­ar­tæki sem hann á að vera og náms­ár­ang­ur barna fer í aukn­um mæli að byggj­ast á baklandi barna og aðstæðum heima fyr­ir.

Í heim­sókn­um þing­flokks Viðreisn­ar í skóla fyrr á ár­inu nefndu kenn­ar­ar t.d. stór­ar hópa- eða bekkja­stærðir sem vanda­mál. Við heyrðum talað um skort á fram­boði náms­efn­is. Einnig af áskor­un­um tengd­um því þegar börn sem enga ís­lensku kunna koma inn í skól­ana. Allt eru þetta þætt­ir sem hægt er að bregðast við og bæta úr.

Lyk­il­mark­miðið þarf að vera að stjórn­völd geri allt sem í þeirra valdi stend­ur til að kenn­ar­ar fái að gera það sem þeir gera best: að kenna. Það þarf að draga úr brott­falli nýrra kenn­ara úr starfi sem er alltaf mik­il blóðtaka fyr­ir gott skólastarf.

Sam­ræmd­ar mæl­ing­ar af hinu góða

Það er sorg­legt til þess að hugsa að vegna aðgerðarleys­is rík­is­stjórn­ar­inn­ar muni skorta all­ar sam­ræmd­ar mæl­ing­ar á náms­ár­angri skóla­barna í all­nokk­ur ár. Eitt kerfi aflagt án þess að stjórn­völd hafi tryggt að annað tæki þá við í kjöl­farið. Slík vinnu­brögð lýsa ekki virðingu fyr­ir verk­efn­inu af hálfu stjórn­valda enda hef­ur umboðsmaður barna óskað eft­ir skýr­ing­um frá mennta- og barna­málaráðherra. Er­indi umboðsmanns seg­ir eitt og sér mikla sögu af stöðu mála.

End­ur­gjöf á skóla­starfi með sam­ræmd­um mæl­ing­um og próf­um er af hinu góða. Til­gang­ur þess­ara mæl­inga á fyrst og fremst að vera sá að hjálpa nem­end­um og kenn­ur­um, for­eldr­um og skól­um og síðast en ekki síst stjórn­völd­um að grípa nem­end­ur þannig að það sé ekki bara ljóst í lok grunn­skóla­göngu að 40% geti ekki lesið sér til gagns. Þá er það orðið um sein­an. Vit­an­lega þarf að fara gæti­lega með slík­ar sam­ræmd­ar mæl­ing­ar og niður­stöður þeirra. En það breyt­ir ekki því að þær veita mik­il­væga inn­sýn í skólastarf og hvar úr­bóta er þörf. Né á að af­skrifa sam­ræmd­ar mæl­ing­ar al­farið vegna þess eins að stjórn­völd van­ræktu skyldu sína við að tryggja góða fram­kvæmd þeirra. Það þarf ein­fald­lega að gera bet­ur. Í lönd­un­um í kring­um okk­ur eru sam­ræmd próf notuð. Mæl­ing­ar sem þess­ar eru stuðnings­tæki og hugsaðar til að ná fram jafn­rétti barna til náms.

Göf­ugt starf kenn­ara

Kenn­ar­inn gegn­ir einu mik­il­væg­asta og göf­ug­asta hlut­verki í lífi hvers barns. Það er okk­ar sem sam­fé­lags að hampa þessu göf­uga starfi. Til að skól­inn sé sá und­ir­bún­ing­ur fyr­ir lífið sem við vilj­um þurfa kenn­ar­ar að fá þær starfsaðstæður sem þeir þurfa. Þá verður að ríkja skiln­ing­ur á því að sam­tal um skól­ana og um mark­mið og hlut­verk þeirra er auðvitað okk­ar allra. Rík­is­stjórn­in þarf síðast en ekki síst að sýna meiri metnað fyr­ir mennta­mál­um en nú er. Staða barna krefst þess ein­fald­lega.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2024