14 ágú Núvitund, veðrið og gjaldmiðillinn
Það er í raun stórmerkilegt að bókaforlög hafi í gegnum tíðina séð ástæðu til að gefa út bækur um núvitund á Íslandi. Eins og það þurfi að skóla íslenskt samfélag eitthvað sérstaklega til og kenna því að lifa í núinu. Þjóð sem hefur beinlínis gert það að sínu helsta karaktereinkenni að einblína á augnablikið í stað þess að líta of mikið til baka eða fram á við. Í því tilliti má segja að við lærum allt um núvitund strax á skólalóðinni.
Á Íslandi býr þjóð sem hefur lært að stilla sig af í augnablikinu þrátt fyrir óstöðugleika og krampakenndar sveiflur. Bæði í veðurfari og efnahag. Þar lifum við í núinu.
Þetta með veðurfarið er reyndar skiljanlegt. Við stjórnum því ekki og höfum fyrir löngu lært að vænta lítils annars en aðeins minni sudda og einstaka sólarlotu þegar best lætur. Á Íslandi eru þær eins og samrýndar systur, veðurspáin og veðurviðvörunin, og við höfum lært að umbera þær.
Þetta með íslenskt umburðarlyndi og efnahag er flóknara mál og undarlegra. Efnahagnum getum við nefnilega stjórnað sjálf. En þar sem fólkið sem er treyst fyrir verkefninu virðist halda að um efnahagsmál gildi sömu lögmál og hjá Veðurstofunni, þá er lítið sem hinn venjulegi Íslendingur getur gert nema lifa í núinu. Fram að næstu gulu viðvörun. Fram að næstu mánaðamótum. Fram að næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Fram að næstu kosningum.
Eða allt þar til veðrinu slotar og hann getur raunverulega haft eitthvað um það að segja hvort veðurbarin þjóð eigi ekki skilið að búa við stöðugan gjaldmiðil og ábyrgari fjármálastjórn. Svona til að vega upp á móti suddanum.
Er ekki löngu kominn tími til að við færum út kvíarnar í nálgun okkar á hugmyndafræði augnabliksins? Höldum áfram að sætta okkur við þá hluti sem við fáum ekki breytt. Eins og veðrið. En ákveðum um leið að breyta því sem við getum breytt. Ekki sætta okkur heldur við einstaka augnablik svikalogns heldur gerum viðvarandi breytingar sem bæta hag okkar svo um munar.
Þessar breytingar nást í gegn með því að fela þeim stjórn efnahagsmála sem hafa sannarlega teiknað upp færar og vel þekktar leiðir að stöðugleika og endalokum okurvaxta og óðaverðbólgu. Leiðir sem fela í sér annan og sterkari gjaldmiðil og ábyrgari efnahagsstjórn. Viðreisn hefur leitt brautina þar og mun halda áfram að vinna þannig að almannahagsmunum.