Öryggi fólks á að vera forgangsmál

Á síðustu vik­um og mánuðum hafa stór saka­mál komið upp, svo sem um­fangs­mik­il rann­sókn þar sem grun­ur er um man­sal. Morðmál hafa verið fleiri en oft áður. Fjöldi út­kalla þar sem sér­sveit hef­ur þurft að vopn­ast vegna skot­vopna hef­ur næst­um þre­fald­ast frá ár­inu 2016 og nán­ast fjór­fald­ast vegna hnífa.

Starfs­um­hverfi lög­reglu hef­ur gjör­breyst á síðustu árum. Lög­regl­an, ákæru­vald, dóm­stól­ar og fang­elsi hafa þó ekki fengið mikið pláss í póli­tískri umræðu. Það er hins veg­ar löngu tíma­bært að stjórn­völd vinni eft­ir út­færðri og fjár­magnaðri stefnu á þessu sviði. Hags­mun­ir al­menn­ings krefjast þess.

Fáliðuð lög­gæsla á Íslandi ógn­ar ekki bara ör­yggi lög­reglu­mann­ana sjálfra, hún ógn­ar ör­yggi allra lands­manna. Fang­elsi lands­ins hafa sömu­leiðis ekki haft burði til að kalla menn til afplán­un­ar fyrr en löngu eft­ir að dóm­ur er fall­inn.

Viðreisn hef­ur lagt áherslu á að stefna stjórn­valda eigi að geta komið í veg fyr­ir af­brot og að fang­elsi lands­ins hafi raun­veru­lega burði til að betra menn. Við höf­um ít­rekað vakið at­hygli á að rétt­ar­kerfið hef­ur verið van­rækt.

Öryggi er fyrsta skylda stjórn­valda

Í vor óskaði ég eft­ir sér­stakri umræðu á Alþingi um al­var­lega stöðu lög­reglu og fang­elsa lands­ins. Hér blas­ir ein­fald­lega við al­var­leg innviðaskuld. Mik­inn póli­tísk­an þrýst­ing þurfti þannig til að koma í veg fyr­ir að rík­is­stjórn­in lækkaði fjár­fram­lög til lög­gæslu um 1.500 millj­ón­ir í fjár­mála­áætl­un fyr­ir næstu fimm ár. Í starf­semi þar sem nán­ast all­ur rekstr­ar­kostnaður er launa­kostnaður hefði það alltaf leitt til upp­sagna. Sú niðurstaða hefði ein­fald­lega ekki gengið upp.

Erfitt ástand í fang­els­um

Fang­els­in á Íslandi hafa búið við aðhalds­kröfu sam­fleytt í 20 ár. Al­var­leg áhrif þess­ar­ar stefnu blasa nú við. Síðastliðinn ára­tug hafa 247 fang­els­is­dóm­ar fyrnst og því ein­fald­lega fallið niður, þar á meðal 31 dóm­ur fyr­ir of­beld­is­brot og fjór­ir fyr­ir kyn­ferðis­brot. Þetta þýðir ein­fald­lega að menn sem hafa verið dæmd­ir til fang­elsisafplán­un­ar hafa ekki afplánað dóma sína. Þetta eru al­gjör­lega óboðleg skila­boð til brotaþola og sam­fé­lags­ins alls. Það þýðir sömu­leiðis að stofn­an­ir lands­ins hafa ekki burði til að fram­fylgja vilja dóm­stóla lands­ins.

En birt­ing­ar­mynd­ir al­var­legr­ar stöðu eru fleiri. Aft­ur og aft­ur ger­ist að dóm­stól­ar lands­ins dæma væg­ari refs­ingu í al­var­leg­um saka­mál­um ein­fald­lega vegna þess að mál­in hafa taf­ist inn­an kerf­is­ins. Dóm­ar fyr­ir al­var­leg brot – jafn­vel kyn­ferðis­brot – hafa verið skil­orðsbundn­ir vegna þess að mál­in hafa tekið of lang­an tíma í kerf­inu. Ástæðan er álag inn­an kerf­is­ins og að þess­ir innviðir hafa verið van­fjár­magnaðir.

Færri lög­reglu­menn en árið 2007

Árið 2007 var embætti lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu stofnað. Svæðið fær til sín 75-80% allra hegn­ing­ar­laga­brota sem rata til lög­regl­unn­ar og þjón­ar um 250 þúsund manns. Gríðarleg fólks­fjölg­un hef­ur verið á svæðinu frá 2007 en lög­reglu­mönn­um hef­ur engu að síður fækkað um­tals­vert frá því að það var stofnað. Þetta hef­ur gerst á sama tíma og um­hverfi af­brota hef­ur gjör­breyst og rann­sókn­ir saka­mála þyngst.

Lög­regla á Íslandi gegn­ir samt sem áður veiga­meira hlut­verki en víða ann­ars staðar ein­fald­lega vegna þess að í mörg­um ríkj­um er al­rík­is­lög­regla starf­andi til viðbót­ar við al­menna lög­gæslu og her­inn hef­ur svo það hlut­verk að verja þjóðarör­yggi. Engu að síður hef­ur fjár­mögn­un lög­gæslu á vakt Sjálf­stæðis­flokks­ins í dóms­málaráðuneyt­inu aldrei gert meira en að tryggja al­gjöra lág­marks­mönn­un. Fjöldi lög­reglu­manna á hverja 100 þúsund íbúa er næst­lægst­ur á Íslandi í sam­an­b­urði við 32 önn­ur Evr­ópu­ríki. Mönn­un á lands­byggðinni hef­ur enda ekki síður verið vanda­mál og viðbragðstím­inn lang­ur vegna þess víða um land. Í lög­gæslu­áætlun stjórn­valda er stefnt að stytt­ingu viðbragðstíma lög­reglu og stytt­ingu málsmeðferðar­tíma rann­sókna. Það er hins veg­ar óraun­hæft að ætla að ná slík­um mark­miðum með lág­marks­mönn­un. Ný­leg­ar mannaráðning­ar fela ekki í sér raun­fjölg­un, því vegna stytt­ing­ar vinnu­vik­unn­ar þyrfti að fjölga lög­reglu­mönn­um ein­fald­lega til að halda í horf­inu.

Það skipt­ir miklu að næsta rík­is­stjórn fjár­festi í ör­yggi fólks í land­inu með því að efla lög­gæslu í sam­ræmi við vax­andi þörf. Viður­kenna þarf að lög­gæsla er al­gjör grunnþjón­usta og fyrsta skylda stjórn­valda. Þá þarf að gera lög­regl­unni bet­ur kleift að sinna for­varn­ar­starfi meðal ungs fólks og koma þannig í veg fyr­ir að lög­regla komi aðeins inn í erfiðar aðstæður og nei­kvæð sam­skipti. Öryggi borg­ar­anna á ekki að vera af­gangs­stærð.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. ágúst 2024