30 ágú Öryggi fólks á að vera forgangsmál
Á síðustu vikum og mánuðum hafa stór sakamál komið upp, svo sem umfangsmikil rannsókn þar sem grunur er um mansal. Morðmál hafa verið fleiri en oft áður. Fjöldi útkalla þar sem sérsveit hefur þurft að vopnast vegna skotvopna hefur næstum þrefaldast frá árinu 2016 og nánast fjórfaldast vegna hnífa.
Starfsumhverfi lögreglu hefur gjörbreyst á síðustu árum. Lögreglan, ákæruvald, dómstólar og fangelsi hafa þó ekki fengið mikið pláss í pólitískri umræðu. Það er hins vegar löngu tímabært að stjórnvöld vinni eftir útfærðri og fjármagnaðri stefnu á þessu sviði. Hagsmunir almennings krefjast þess.
Fáliðuð löggæsla á Íslandi ógnar ekki bara öryggi lögreglumannana sjálfra, hún ógnar öryggi allra landsmanna. Fangelsi landsins hafa sömuleiðis ekki haft burði til að kalla menn til afplánunar fyrr en löngu eftir að dómur er fallinn.
Viðreisn hefur lagt áherslu á að stefna stjórnvalda eigi að geta komið í veg fyrir afbrot og að fangelsi landsins hafi raunverulega burði til að betra menn. Við höfum ítrekað vakið athygli á að réttarkerfið hefur verið vanrækt.
Öryggi er fyrsta skylda stjórnvalda
Í vor óskaði ég eftir sérstakri umræðu á Alþingi um alvarlega stöðu lögreglu og fangelsa landsins. Hér blasir einfaldlega við alvarleg innviðaskuld. Mikinn pólitískan þrýsting þurfti þannig til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin lækkaði fjárframlög til löggæslu um 1.500 milljónir í fjármálaáætlun fyrir næstu fimm ár. Í starfsemi þar sem nánast allur rekstrarkostnaður er launakostnaður hefði það alltaf leitt til uppsagna. Sú niðurstaða hefði einfaldlega ekki gengið upp.
Erfitt ástand í fangelsum
Fangelsin á Íslandi hafa búið við aðhaldskröfu samfleytt í 20 ár. Alvarleg áhrif þessarar stefnu blasa nú við. Síðastliðinn áratug hafa 247 fangelsisdómar fyrnst og því einfaldlega fallið niður, þar á meðal 31 dómur fyrir ofbeldisbrot og fjórir fyrir kynferðisbrot. Þetta þýðir einfaldlega að menn sem hafa verið dæmdir til fangelsisafplánunar hafa ekki afplánað dóma sína. Þetta eru algjörlega óboðleg skilaboð til brotaþola og samfélagsins alls. Það þýðir sömuleiðis að stofnanir landsins hafa ekki burði til að framfylgja vilja dómstóla landsins.
En birtingarmyndir alvarlegrar stöðu eru fleiri. Aftur og aftur gerist að dómstólar landsins dæma vægari refsingu í alvarlegum sakamálum einfaldlega vegna þess að málin hafa tafist innan kerfisins. Dómar fyrir alvarleg brot – jafnvel kynferðisbrot – hafa verið skilorðsbundnir vegna þess að málin hafa tekið of langan tíma í kerfinu. Ástæðan er álag innan kerfisins og að þessir innviðir hafa verið vanfjármagnaðir.
Færri lögreglumenn en árið 2007
Árið 2007 var embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu stofnað. Svæðið fær til sín 75-80% allra hegningarlagabrota sem rata til lögreglunnar og þjónar um 250 þúsund manns. Gríðarleg fólksfjölgun hefur verið á svæðinu frá 2007 en lögreglumönnum hefur engu að síður fækkað umtalsvert frá því að það var stofnað. Þetta hefur gerst á sama tíma og umhverfi afbrota hefur gjörbreyst og rannsóknir sakamála þyngst.
Lögregla á Íslandi gegnir samt sem áður veigameira hlutverki en víða annars staðar einfaldlega vegna þess að í mörgum ríkjum er alríkislögregla starfandi til viðbótar við almenna löggæslu og herinn hefur svo það hlutverk að verja þjóðaröryggi. Engu að síður hefur fjármögnun löggæslu á vakt Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu aldrei gert meira en að tryggja algjöra lágmarksmönnun. Fjöldi lögreglumanna á hverja 100 þúsund íbúa er næstlægstur á Íslandi í samanburði við 32 önnur Evrópuríki. Mönnun á landsbyggðinni hefur enda ekki síður verið vandamál og viðbragðstíminn langur vegna þess víða um land. Í löggæsluáætlun stjórnvalda er stefnt að styttingu viðbragðstíma lögreglu og styttingu málsmeðferðartíma rannsókna. Það er hins vegar óraunhæft að ætla að ná slíkum markmiðum með lágmarksmönnun. Nýlegar mannaráðningar fela ekki í sér raunfjölgun, því vegna styttingar vinnuvikunnar þyrfti að fjölga lögreglumönnum einfaldlega til að halda í horfinu.
Það skiptir miklu að næsta ríkisstjórn fjárfesti í öryggi fólks í landinu með því að efla löggæslu í samræmi við vaxandi þörf. Viðurkenna þarf að löggæsla er algjör grunnþjónusta og fyrsta skylda stjórnvalda. Þá þarf að gera lögreglunni betur kleift að sinna forvarnarstarfi meðal ungs fólks og koma þannig í veg fyrir að lögregla komi aðeins inn í erfiðar aðstæður og neikvæð samskipti. Öryggi borgaranna á ekki að vera afgangsstærð.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. ágúst 2024