23 ágú Reykvíkingar eiga betra skilið
Pólitíkin er skrítin tík. Ein skýrasta birtingarmynd þeirrar staðreyndar er óskiljanleg andstaða ýmissa sjálfstæðismanna við úrbætur í samgöngumálum Reykvíkinga síðustu ár. Spurningin sem hefur legið í loftinu er: Hvað hafa íbúar Reykjavíkur eiginlega gert Sjálfstæðisflokknum? Svari hver fyrir sig.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins hafa lengi kallað eftir því að samgöngukerfið verði uppfært í samræmi við fjölgun íbúa og bíla. Bara frá árinu 2019 hefur íbúum svæðisins fjölgað um 21.000 og bílum um 16.000. Allar greiningar á stöðunni og leiðum til úrbóta sýna að fjölbreyttar samgönguleiðir skila mestum árangi auk þess að mæta kröfum íbúa um frelsi til að velja sér samgöngumáta. Því fleiri íbúar sem velja almenningssamgöngur eða hjól, því meira pláss fyrir bíla. Þetta er ekki pólitísk skoðun, þetta er grunnskólastærðfræði.
Sem þingmaður Reykjavíkur fagna ég skýrri afstöðu Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins til endurskoðaðs samgöngusáttmála höfðborgarsvæðisins þar sem hann tekur af allan vafa um stuðning við löngu tímabærar og nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum. Jafnt framkvæmdir við uppbyggingu stofnvega sem almenningssamgangna. Í Morgunblaði gærdagsins segir Bjarni að almenn sátt ríki um að við munum ekki leysa úr samgönguáskorununum nema með öflugum almenningssamgöngum og sterku göngu- og hjólreiðastígakerfi ásamt mikilvægum stofnvegaframkvæmdum.
Lífsgæði borgarbúa verða þá vonandi ekki lengur bitbein í pólitísku fýlukasti. Samgöngusáttmálinn var undirritaður í gær með fyrirvara um samþykkt Alþingis og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu. Hér er auðvitað um gríðarlega innviðafjárfestingu að ræða en heildarkostnaður til ársins 2040 er áætlaður um 311 milljarðar króna. Þar af fara 42% í stofnvegi, 42% í borgarlínu, 13% í hjóla- og göngustíga og 3% í umferðarstýringu.
Í ljósi þessa mikla kostnaðar er ljóst að fjármögnunin verður rædd í þaula á Alþingi. Í bjartsýniskasti vegna orða formanns Sjálfstæðisflokksins ætla ég að vona að sú umræða verði málefnaleg. Að samhliða umræðu um kostnað verði rætt um ávinning en hann er talinn nema nær fjórföldum kostnaði eða ríflega 1.100 milljörðum króna. Og til að setja samgönguúrbætur og lífsgæði Reykvíkinga í enn frekara tölulegt samhengi má minna á að vaxtagjöld ríkisins nema árlega um 80 milljörðum króna. Sumir mættu kannski frekar taka fýlukast yfir þeirri sóun.
Viðreisn vill létta fólki róðurinn, þar skipta góðar samgöngur miklu máli. Ég gleðst yfir því að það hefur fjölgað í hópi þeirra sem vilja þannig auka lífsgæði borgarbúa og ég tek undir með Einari Þorsteinssyni borgarstjóra með að sagan muni ekki vera hliðholl þeim sem vilja tefja enn frekar samgönguúrbætur í Reykjavík.