26 sep Fjárfestum í börnum en ekki biðlistum
Fréttir síðustu vikna um börn og ungmenni hljóta að kalla á viðbrögð og athygli okkar allra. Þar kallast tvennt á. Annars vegar alvarleg ofbeldisverk og hnífaburður og hins vegar biðlistar barna og ungmenna í geðheilbrigðiskerfinu. Það gefur augaleið að þegar þúsundir barna bíða eftir greiningarúrræðum og geðheilbrigðisþjónustu mánuðum og árum saman mun eitthvað undan láta í fyllingu tímans. Það er bara staðreynd. Skortur á þjónustu þar sem hlúa þarf að andlegu heilbrigði barnanna okkar mun svo sannarlega ekki laga það ástand sem við höfum svo miklar áhyggjur af í dag.
Það er sorglegt að líta yfir sviðið
Um 50 börn eru á biðlista á BUGL og þurfa að bíða í allt að þrjá mánuði. Álagið á Stuðla er svo mikið að erfitt er að sinna þar meðferðarstarfi. Börn bíða meira en hálft ár eftir að fá tíma hjá sálfræðingi hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á þriðja þúsund börn bíða nú eftir að komast að komast í þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna. Einnig er löng bið fyrir fjölskyldur barna með alvarlegan hegðunarvanda að fá viðhlítandi þjónustu. Börn bíða í tvö ár eftir ADHD-greiningu og þriggja ára bið er eftir því að komast í einhverfugreiningu.
Þetta er langt því frá tæmandi upptalning. Biðlistar lengjast mikið og þúsundir barna fá því ekki þá þjónustu sem þau sárlega þurfa. Mér finnst ekki ofmælt að nota orðið neyðarástand um stöðuna.
Frásagnir foreldra af úrræðaleysinu sem þeir glíma við eru margar og erfiðar. Það birtist til að mynda í því að börnum er vísað á milli úrræða, jafnvel í heilan hring, því hvergi er hægt að bregðast fljótt við aðkallandi vanda. Börnum er því vísað annað. Það þarf ekki að hafa mörg orð um örvæntingu foreldra sem koma að lokuðum dyrum þegar barnið þeirra glímir við alvarleg andleg veikindi.
Stjórnvöld hafa brugðist
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er skýrt tekið fram að ætlunin sé „að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins, ekki síst börn og ungmenni“. Upptalningin hér að framan segir ansi skýrt að þetta göfuga markmið hafi ekki náðst. Þvert á móti hefur staðan versnað, eins og umboðsmaður barna hefur bent á.
Augljóst er að skipta þarf um kúrs. Biðlistavæðingin getur ekki haldið áfram. Ef okkur er alvara með því að setja börn í fyrsta sæti og forgangsraða fjármunum í þeirra þágu þarf ofur einfaldlega að taka til hendinni. Að mörgu leyti á það sama við hér og þegar við rýnum í úrræðaleysið gagnvart fíknisjúkdómnum. Við rekum mörg úrræði, fjölbreytt, með ákaflega hæfum sérfræðingum og starfsfólki, en kerfið annar ekki fjöldanum. Við vanmetum umfang vandans. Mögulega er mikil geðlyfjanotkun barna og ungmenna afleiðing af þessu, lyf eru jú auðveld lausn en svo sannarlega ekki alltaf sú besta.
Fjárfesting í andlegu heilbrigði, ekki útgjöld
Auðvitað kostar það talsverða fjármuni að vinna niður þessa biðlista. Við skulum bara viðurkenna það. En í stað þess að kalla það útgjöld að ráðast markvisst á biðlistana ættum við að temja okkur að líta á þetta sem fjárfestingu. Nauðsynlega og skynsamlega fjárfestingu í andlegu heilbrigði barna. Sem að sjálfsögðu skilar sér til baka í bættu geðheilbrigði þjóðarinnar en ekki síður efnahagslega, því fjárfestingin dregur auðvitað úr kostnaði annars staðar í heilbrigðiskerfinu síðar meir.
Fjármagnið er til
Það skynsamlegasta sem við getum gert í stöðunni er að minnka vaxtakostnað ríkissjóðs og nýta fjármuni sem þar losna í geðheilbrigðismál barna og önnur mikilvæg velferðarmál. Að mínu mati ætti ríkið að losa um þá fjármuni sem liggja í eignarhaldi á fjármálafyrirtækjum og greiða upp skuldir fyrir söluhagnaðinn. Einnig gæti ríkið selt lóðir sem það á í sama tilgangi. Upphæðirnar sem þarna um ræðir eru sennilega um 300 milljarðar. Slík upphæð getur lækkað vaxtabyrði ríkissjóðs um allt að 30 milljarða króna á ári. Þetta verður að sjálfsögðu ekki gert í einu vetfangi en á fáeinum árum má losa um þetta fé og stórauka geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni, ásamt því að efla aðra velferðarþjónustu.
Við vitum það vel að það er slegist um hverja krónu í ríkiskassanum. Því er þessi leið sem ég nefni mjög ákjósanleg. Það þarf nefnilega að forgangsraða peningunum okkar. Börn og ungmenni eiga að vera í forgangi. Ekki bara á blaði sem setning í stjórnarsáttmála, heldur með raunverulegum aðgerðum og úrræðum. Biðlistar eiga að styttast en ekki lengjast og þeim þarf helst að útrýma. Börn eiga ekki heima á biðlistum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. september 2024