Gjaldmiðill Bakkabræðra

Þjóðsag­an um þá Bakka­bræður Gísla, Ei­rík og Helga er mörg­um kunn. Þeir vildu svo óskap­lega vel en skiln­ing­ur á aðstæðum hverju sinni var tak­markaður og verksvitið vantaði al­veg. Heimskupör þeirra bræðra eru mörg bráðfynd­in þótt af­leiðing­arn­ar væru stund­um al­var­leg­ar.

Und­an­farið hef­ur mér oft orðið hugsað til þess þegar þeir Gísli, Ei­rík­ur og Helgi reyndu að bera sól­skin inn í glugga­laust hús. Húsið höfðu þeir byggt þannig til að halda kuld­an­um úti en þeir áttuðu sig fljót­lega á því að myrkrið gerði dvöl­ina þar óbæri­lega. Bræðurn­ir dóu ekki ráðalaus­ir held­ur tóku sig til einn góðan veður­dag þegar sól­in skein glatt og fóru að bera út myrkrið úr hús­inu í húf­um sín­um, hvolfdu úr þeim og báru aft­ur inn í þeim sól­skin. Þetta bisuðu þeir við dag­langt og hugsuðu sér svo gott til glóðar­inn­ar um kvöldið þegar þeir hættu að setj­ast inn í bjart húsið. En þar mætti þeim auðvitað sama myrkrið og áður.

Þessi saga minn­ir á til­raun­ir með ís­lensku krón­una. Rán­dýrt til­rauna­verk­efni sem engu skil­ar. Smæð gjald­miðils­ins okk­ar verður vanda­mál þar til við skipt­um hon­um út fyr­ir stærri og stöðugri gjald­miðil. Smæð ís­lensku krón­unn­ar kall­ar á marg­falt hærri vaxta­kostnað ís­lenskra heim­ila og ís­lensks at­vinnu­lífs en þekk­ist í lönd­un­um í kring­um okk­ur. Þess­ar miklu sveifl­ur sem fylgja ís­lensku krón­unni hafa valdið stökk­breyt­ingu lána hjá heim­il­um og fyr­ir­tækj­um og þannig dregið úr efna­hags­legu sjálf­stæði. Það get­ur eng­in þjóð staðið und­ir svona viðbót­ar­kostnaði án þess að það hafi veru­leg nei­kvæð áhrif á lífs­kjör­in.

Efna­hags­leg­ur ávinn­ing­ur evr­unn­ar er sér­stak­lega mik­il­væg­ur nú á tím­um þar sem ís­lenskt hag­kerfi má eng­an veg­inn við því að sitja uppi með um 500 millj­arða króna ár­leg­an kostnað krón­unn­ar af skuld­um bara vegna hærri vaxta en inn­an evr­unn­ar. Þessi upp­hæð er ein­fald­lega feng­in með því að marg­falda lang­tíma­vaxtamun á ís­lensku krón­unni og evru með heild­ar­skuld­um rík­is, sveit­ar­fé­laga, annarra op­in­berra aðila, fyr­ir­tækja og heim­ila.

Þessi kostnaður, ann­ars veg­ar í formi vaxta og verðbólgu og hins veg­ar í formi óstöðugs gjald­miðils, er að setja fjölda heim­ila og fyr­ir­tækja á hliðina. Það er stærsta viðfangs­efni stjórn­mál­anna að opna á fag­lega og yf­ir­vegaða umræðu um þessi mál með það að mark­miði að koma bönd­um á þenn­an kostnað sem á manna­máli er auðvitað ekk­ert annað en auka­skatt­ur á ís­lenskt sam­fé­lag. 500 millj­arða króna auka­skatt­ur.

Við þurf­um að létta róður­inn hjá heim­il­um og hjá at­vinnu­líf­inu. Bæta lífs­kjör­in. Við ger­um það ekki með því að beita aðferð Bakka­bræðra. Fer það ekki að verða full­reynt?

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2024