28 sep Léttum róðurinn. Stjórnmálaályktun 2024
Léttum róðurinn
Eftir átta ár af glötuðum tækifærum
Haustþing Viðreisnar, 28. september 2024
Erindi núverandi ríkisstjórnar er löngu lokið. Sundruð ríkisstjórn hefur leitt til erfiðrar stöðu í íslensku samfélagi. Efnahagsleg óstjórn hefur leitt til viðvarandi verðbólgu og gríðarhárra vaxta. Staða ungs fólks og þeirra sem nýlega hafa keypt sér húsnæði er sérstaklega erfið.
Hagvaxtarskeið undanfarinna ára var ekki nýtt til að búa í haginn heldur var því sóað í smáplástra og sérverkefni. Eftir stendur ríkissjóður sligaður af vaxtakostnaði.
Börn eiga ekki að vera á biðlistum
Innviðir molna, biðlistar lengjast og menntakerfið er í krísu. Menntun er undirstaða jafnra tækifæra og við verðum að tryggja öllum börnum góða menntun. Vanlíðan fer vaxandi, ekki síst hjá ungu fólki. Foreldrar og forráðamenn fá ekki aðstoð fyrir börn í miklum vanda. Þetta er vandi sem ný ríkisstjórn verður að taka á strax. Börn eiga ekki að vera á biðlistum. Hlúum að rótunum, mennskir innviðir skipta mestu máli.
Viðreisn stendur með millistéttinni
Einu aðilarnir sem sigla sléttan sjó eru þau fyrirtæki sem fá sérmeðferð hjá stjórnvöldum með ókeypis aðgangi að auðlindum og frelsi undan íslensku krónunni. Lausnirnar sem aðrir flokkar bjóða er bara meira af því sama. Meira af verðbólgu, meira af vaxtaokri og fleiri plástra. Heimili og venjuleg fyrirtæki þola ekki meira af því sama. Millistéttin á Íslandi hefur ekki síst tekið þungann af þessu ástandi. Viðreisn hafnar þessari gömlu og dýru nálgun. Það þarf að hugsa í nýjum lausnum.
Samfélag tækifæra en ekki stöðnunar
Viðreisn mun ráðast að rótum vandans. Þegar Viðreisn kemst í ríkisstjórn verður áhersla lögð á ábyrga stjórn ríkisfjármála. Sú ríkisstjórn mun endurskoða forgangsröðun útgjalda og tryggja heilbrigði, menntun barnanna okkar og öryggi. Það verður ríkisstjórn sem vinnur gegn verðbólgu. Viðreisn vill stöðugleika, litla verðbólgu og lága vexti. Samfélag tækifæra en ekki stöðnunar.
Öruggur gjaldmiðill – betra samfélag
Við þurfum öruggan gjaldmiðil sem hægt er að treysta. Stöðugur gjaldmiðill er forsenda minni verðbólgu og lægri vaxta. Kostnaður heimila, fyrirtækja og ríkisins af krónunni hleypur á hundruðum milljarða ár hvert. Með því að minnka þennan óþarfa kostnað getum við enn fremur tekist á við þau ærnu verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins, eyða biðlistum, efla löggæslu og bæta innviðina í samfélaginu, svo nokkuð sé nefnt.
Þjóðin á að ráða
Raunhæfasta leiðin er að ljúka því litla sem eftir stendur í aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Haustfundur Viðreisnar skorar á forystu flokksins að leita eftir samstöðu annarra flokka á Alþingi um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna, þetta stóra hagsmunamál almennings á Íslandi. Þjóðin á rétt á að fá að leggja mat á hvar hennar hagsmunir liggja – fremur en að vera bannað það af gæslumönnum sérhagsmuna.