Ræða Hönnu Katrínar við stefnuræðu forsætisráðherra

Forseti kæru landsmenn,

Það bendir fátt til þess að stjórnvöld muni ranka við sér og taka með ábyrgum hætti á þessari hringavitleysu vaxta og verðbólgu sem við þekkjum því miður öll svo vel.

En í stað þess að skammast út í ríkisstjórnina fyrir það, ætla ég að hvetja hana til að horfast í augu við vandann. Verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru of brýn til að við festumst í pólitískum skotgröfum.

Þegar Viðreisn kom fram á sjónarsviðið 2016 – lögðum við meðal annars áherslu á að þjóðin fengi að ákveða hvort sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu, þessu sterka hagsmunabandalagi Evrópuþjóða.

Þá hlógu ýmsir forsvarsmenn gömlu stjórnmálaflokkanna að okkur. Þeim þótti kjánalegt að við værum í svona framtíðarpælingum um lægri vexti og meiri samkeppni.

Ég veit ekki hvort þeir hlæja núna en ég veit að það gerir almenningur ekki. Þorri atvinnulífsins hlær ekki heldur. Framtíðin hlægilega er núna veruleiki heimila landsins sem berjast í bökkum vegna verðbólgu og svimandi vaxtabyrði. Framtíðin hlægilega er nútíðin sem fyrirtæki landsins þurfa að kljást við þegar þau reyna að halda hjólum atvinnulífsins gangandi í þessu sligandi umhverfi.

Framtíðin er komin og við hefðum sannarlega þurft að undirbúa hana betur.

Viðreisn mun ekki kvika frá þeirri trú að almannahagsmunir felist í því að bæta kjör heimila og fyrirtækja landsins með því að evran verði gjaldmiðill okkar. Þannig tryggjum við lægri vexti og minni verðbólgu fyrir íslenskan almenning.

 

En þangað til verðum við að taka á þeim bráðavanda sem heimili og fyrirtæki landsins standa frammi fyrir núna.  Hagstjórn borgaralegra afla þarf að verða ofan á.

Stjórnmálamenn sem þora að forgangsraða verkefnum í þágu atvinnulífs og í þágu heimila verða að taka við boltanum núna.  Við í Viðreisn erum tilbúin til verksins.

Kæru landsmenn,

Nú hefur verið boðað þjóðarátak þar sem virkja á allt samfélagið. Við þekkjum ástæðuna, aukin vanlíðan barna og ungmenna og alvarlegar afleiðingar þess – aukinn vopnaburður barna og ungmenna og skelfilegar afleiðingar þess. Hér megum við heldur ekki detta í pólitískar skotgrafir. Við þurfum að bæta úr þessu saman. Ekki með tímabundnu átaki heldur viðvarandi breytingum.

Við Íslendingar þekkjum það að bregðast við erfiðu ástandi hjá fólkinu okkar. Fyrir tæpum 30 árum tók hópur sérfræðinga til við að kortleggja þá félagslegu þætti sem hefðu áhrif á vímuefnanotkun ungmenna og hanna forvarnaraðgerðir. Útkoman var forvarnarlíkan, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi, til að mynda foreldra, kennara, félagsmiðstöðva og íþróttafélaga. Og þetta virkaði, áfengisnotkun íslenskra ungmenna minnkaði til mikilla muna en nú er staðan að versna á ný.

Núverandi ástand er þungbær, óbærileg áminning um að ef við sinnum ekki innviðunum okkar og tryggjum viðvarandi forvarnir, þá brestur eitthvað.

Við í Viðreisn höfum verið að heimsækja skóla út um allt land. Við heyrum áhyggjur kennara og foreldra af stöðunni. Við heyrum ítrekað að börnin okkar eru ekki að ná að lesa sér til gagns.  Við heyrum af miklum áskorunum inn í kennslustofum, bekkirnir eru of stórir, kennarar eru undir of miklu álagi og ofan á þetta bætast óþolandi biðlistar eftir greiningum eða sálrænni aðstoð fyrir börn. Börn eiga ekki að vera á biðlistum.

Þetta verður ekki leyst með einu tímabundnu átaki.  Aftur er þetta verkefni sem við þurfum að bregðast með langtímahugsun að leiðarljósi.

Kæru félagar

Ábyrgð okkar hér í þessum sal er mikil. Látum þennan kosningavetur snúast um hugmyndafræðilega umræðu um stóru málin sem varða þjóðarhag. Berum virðingu fyrir hvert öðru – berum virðingu fyrir íslensku samfélagi.