11 sep Ræða Þorgerðar Katrínar við stefnuræðu forsætisráðherra
Virðulegi forseti,
Við erum áhyggjufull þjóð.
Við finnum hana flest – tilfinninguna sem hreiðrað hefur um sig eftir þá sáru atburði sem skekið hafa okkar litla samfélag. Nú síðast þegar ung stúlka í blóma lífsins lét lífið eftir hnífsstunguárás.
—
Ekkert foreldri ætti að þurfa verða fyrir þeirri þungu raun að missa barn sitt. Við hugsum hlýlega til allra þeirra sem nú eiga um sárt að binda og þurfa huggunar við. Þessi tilfinning birtist okkur í ónotum í maga móður, sem er hrædd um stelpuna sína sem ætlar út á lífið með vinum sínum. Hún birtist okkur í föður sem hefur áhyggjur af tölvuleikjanotkun sonar síns sem virðist einangra sig frá hópnum. Í námsráðgjafanum sem gengur eftir skólagangi og sér ungt og efnilegt fólk niðursokkið í snjalltækin sín og veltir fyrir sér eðli myndefnisins sem þau eru fóðruð á. Í kennaranum sem leggur sig allan fram til að taka utan um fjölbreyttan nemendahópinn en sér strax hvaða börn það eru sem eiga á hættu að lenda utan vegar þegar fram í sækir. Þetta er tilfinningin sem starfsfólk félagsmiðstöðva fær þegar þau sjá að einum unglingi er aldrei boðið með. Og hjá lögreglukonunni sem fer í annað útkallið á sömu viku, á sama heimilið – þar sem tvö börn búa. Í foreldrum, ömmum og öfum sem lesa sífellt fleiri fréttir af vanlíðan, vopnaburði og ofbeldisbrotum ungs fólks. Og hún birtist ekki síst í ungmennunum sjálfum, sem upplifa óöryggi, kvíða og depurð. Þessar áhyggjur heyri ég hvert sem ég kem.
Vanlíðan ungs fólks tekur á sig ólíkar myndir, sem í sumum tilfellum eru dimmustu og sorglegustu hliðar lífsins sjálfs. Það eru brotalamir í kerfinu og þær eru víða. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að grípa þessa einstaklinga, þessi ungmenni, því þau eru börn okkar allra. Og við verðum að veita von. Því von er ekki bara eitthvað orð. Hún er stefna. Hún er aðgerðir. Hún er framtíðin.
Virðulegi forseti,
Ég hef ferðast víða um landið og hitt mann og annan. Ég hitti fólk sem á í verulegu basli með að greiða af himinháum vöxtum af lánunum sínum. Og líka fólk komið á og yfir miðjan aldur sem gerir allt til að hjálpa börnunum sínum í þessum harða krónuveruleika. Og svo eru það þau sem hreinlega komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn í náinni framtíð. Þökk sé krónunni og slakri efnahagsstjórn.
Fólk á öllum aldri og um allt land finnur líka verulega fyrir því hversu dýrt það er orðið að versla í matinn. Við erum að tala um meginþorra þjóðarinnar. Fólk sem hefur gert allt eftir bókinni og ætti, í eðlilegu hagkerfi – að hafa það gott. En þetta sama fólk situr við eldhúsborðið um hver mánaðarmót og klórar sér í kollinum yfir því hvers vegna dæmið gengur ekki upp.
Og það spyr sig;
Af hverju þurfa þau að borga húsnæðið sitt þrisvar sinnum miðað við vini þeirra í nágrannalöndunum? Af hverju þessi dýra matakarfa? Af hverju þessar heimasmíðuðu reglur sem nýtast ekki almenningi? Af hverju er ekki jafnt gefið?
En stjórnin lætur sem ekkert sé. Hugar ekki að þessu fólki – hugar ekki að neytendum. Jarðtengingin er raunar svo brengluð að í vor sagði forsætisráðherra í þessari pontu: Að Ísland væri í bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni. Þar hafið þið það!
Ekki veit ég við hvaða fólk eða fyrirtæki ráðherrarnir í þessari ríkisstjórn eru að tala. En þetta er ekki sú staða sem blasir við venjulegu fólki þegar það opnar heimabankann sinn.
Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin fer óvarlega í efnahagsmálum, hún forgangsraðar ekki verkefnum og heimilin borga brúsann í formi ofurvaxta og verðbólgu. Sinnuleysi í ríkisfjármálum og skortur á framtíðarsýn er þjóðinni dýrkeypt. Þetta er óþolandi staða.
En við allt okkar fólk sem kvíðir mánaðarmótunum vil ég segja – við heyrum í ykkur.
Og ég minni á að þetta þarf ekki að vera svona. Vandinn er heimatilbúinn – og hann breytist ekki nema skipt sé um kúrs og um ríkisstjórn.
Það á líka við um sleðaháttinn í geðheilbrigðismálum, sinnuleysið í menntamálum, sífellt lengri biðlista eftir læknistímum, biðlistar barna eru að lengjast aftur, og svo hjúkrunarrýmum og því skeytingarleysi sem eldri borgurum þessa lands er oft sýnt. Ég vil ekki hljóma svartsýn en það breytist ekkert hjá ríkisstjórn sem eftir sjö ára innbyrðis erjur hefur gefist upp á hlutverki sínu. Flokka sem hafa viðurkennt fyrir opnum tjöldum að þeir geti ekki unnið saman. Hvað þá klárað brýn verkefni.
Kæra þjóð
Ég er líka með góðar fréttir. Það eru í mesta lagi 12 mánuðir eftir af þessari störukeppni, þar sem fátt breytist nema titlar einstaka ráðherra. Við í Viðreisn höfum fyrir löngu ákveðið að nýta þennan langdregna lokakafla til að búa í haginn. Því þegar loks losnar um límið á ráðherrastólunum – er verk að vinna.
Við verðum tilbúin – til þess að bretta upp ermar og ráðast í það verkefni að létta róðurinn fyrir íslensk heimili – og umvefja fólkið okkar, tala þeirra máli.
Kæru landsmenn,
Okkar skilaboð eru skýr. Við stöndum með fólkinu, með fyrirtækjum í landinu. Við boðum sígildan boðskap um ábyrgan ríkisrekstur, stöðugan gjaldmiðil, frjálslyndi og réttlæti. Almannahagsmuni. Þetta er okkar stefna, henni verður ekki stungið undir stól.
Við hlaupumst ekki undan merkjum, til að slá tímabundnar pólitískar keilur eða þegar gefur á bátinn. Viðreisn stendur einfaldlega í lappirnar. Við ætlum að hafa pólitíska forystu um heilbrigt samfélag þar sem frjálslynd viðhorf, mennska og efnahagslegur sjálfsagi eru viðhöfð. En til þess þarf samtakamátt. Hann fæst ekki nema með nýrri ríkisstjórn.
Það er ærið verk að vinna fyrir samfélagið okkar og Viðreisn er reiðubúin. Ég hlakka til að takast á við það verkefni, fyrir ykkur, með öflugu fólki og skýrri sýn.