Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson

Vinnuvikan byrjaði með tveimur athyglisverðum fundum, sem snerust um auðlindir og kostnað við að tryggja varanleika í rekstri.

Annan fundinn sátu forstjóri Orkubús Vestfjarða og forstjóri Landsvirkjunar. Þeir undirrituðu samning um varanleika í orkuafhendingu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi héldu hinn fundinn. Þar var kynnt sú hugmyndafræði tveggja hagfræðinga að einkaréttur til að nýta sjávarauðlindina ætti að vera gjaldfrjáls um alla ókomna tíð.

Mælikvarði á hagkvæmni

Orkubú Vestfjarða hefur keypt skerðanlega raforku til húshitunar, sem fæst á mjög lágu verði. Hagkvæmnin við lágt verð er augljós. Óhagkvæmnin felst í því að óvissa um afhendingu er mjög kostnaðarsöm.

Stjórnendur Orkubúsins sáu í hendi sér að hyggilegra var að kaupa dýrari raforku og fá með því afhendingaröryggi í ákveðinn tíma. Þeir þekkja og viðurkenna það eðlilega lögmál í viðskiptum að fyrirsjáanleiki kostar peninga.

Þeir fóru ekki fram á að ríkið, sem á Landsvirkjun, tryggði þeim fyrirsjáanleika í orkuafhendingu á verði ófyrirsjáanlegar eða skerðanlegrar orkuafhendingar. Í því felst viðurkenning á því að verðið er mælikvarði á hagkvæmnina.

Í pólitísku samhengi er athyglisverðast að Vestfirðingar líta ekki svo á að greiðsla fyrir fyrirsjáanleika sé sérstakur skattur.

Öfug hugmyndafræði

Á fundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sveif allt önnur hugmyndafræði yfir vötnunum. Auk hagfræðinga og talsmanna samtakanna töluðu formenn Miðflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Enginn talaði fyrir þeirri skoðun að greiða ætti fyrir fyrirsjáanleika einkaréttar til að hagnýta sjávarauðlindina. Reyndar talaði enginn fyrir því að tryggja ætti sjávarútveginum fyrirsjáanleika í lögum.

Svokallað auðlindagjald er í raun viðbótar tekjuskattur. Það er ekki endurgjald fyrir fyrirsjáanlegan einkarétt. Friðþægingarskattur væri réttnefni.

Formaður Viðreisnar dró það fram í grein á Vísi um helgina að grundvöllur fiskveiðilaganna er fullkomin óvissa. Veiðiheimildir eru afturkallanlegar hvenær sem er.

Meðan óvissan er lykilatriði laganna er ekki unnt að verðleggja varanleika eins og í orkuafhendingu til Vestfirðinga. Af sjálfu leiðir að það er ekki til neinn mælikvarði á hagkvæmni fyrirsjáanleikans í rekstri sjávarútvegsins.

Stefnubreyting

Í grein sinni dró formaður Viðreisnar fram það sem hún kallaði tvískinnung talsmanna Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þeir kalla eftir að pólitíkin tryggi að einkarétturinn verði fyrirsjáanlegur en eru um leið algjörlega andvígir því að sú trygging verði fest í lög.

Tvískinnungur er afar hófsamt orð um málflutning af þessu tagi.

Það sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja í raun er þetta: Við viljum pólitíska tryggingu formanna flokka fyrir varanleika en höfnum alfarið lögfestum varanleika af því að við óttumst að hann sé dýrari.

Formenn Miðflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks voru sammála talsmönnum sjávarútvegsins í því að hrófla ekki við óvissu fiskveiðistjórnarlaganna að þessu leyti. Það er grundvallar stefnubreyting að því er Samfylkinguna varðar.

Nýr meirihluti

Með því samkomulagi sem þarna birtist og eins og skoðanakannanir standa núna hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi tryggt sér meirihluta á næsta kjörtímabili fyrir pólitískum varanleika einkaréttar, sem ekki verður verðlagður sérstaklega.

Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur vilja óbreytt auðlindagjald eða friðþægingarskatt en Samfylkingin vill hækka skattinn um einn milljarð króna á ári næsta áratug. Það er bitamunur en ekki fjár.

Talsmenn flokka lengst til vinstri eins og VG og Sósíalistar vilja líka halda friðþægingarskattinum en hækka hann fimmfalt meir en Samfylkingin.

Prinsipp eða prinsippleysi

Eftir þennan mánudagsfund er ljóst að það eru einungis Viðreisn og Framsókn sem vilja tryggja sjávarútveginum lögvarinn og samningsbundinn einkarétt til nýtingar á grundvelli sömu hugmyndafræði og Vestfirðingar tryggðu sér afhendingaröryggi á raforku.

Flokkarnir tveir hafa mismunandi hugmyndir um tæknilegar útfærslur á þessu prinsippi. En athyglisvert var í helgargrein formanns Viðreisnar að hún sagðist vera tilbúin að ræða aðrar tæknilegar útfærslur.

Það er beinlínis rangt að skattleggja sjávarútveginn umfram aðrar atvinnugreinar og hugsanlega andstætt stjórnarskrá.

Sjávarútvegurinn á hins vegar, eins og aðrar atvinnugreinar, að greiða fyrir einkarétt til nýtingar á auðlind þjóðarinnar. Varanleiki einkaréttar á ekki að byggjast á prinsippslausum loforðum einstakra flokksformanna frá einum kosningum til annarra og takmörkuðum friðþægingargreiðslum.

 

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 12. september 2024