18 okt Hrunhrollur
Hér varð náttúrlega hrun.
Ég fæ bókstaflega hroll við að skrifa þessa setningu sem varð að margnýttri tuggu í mörg ár eftir skellinn sem íslensk heimili urðu fyrir við efnahagshrunið 2008. Sama hrollinn fékk ég við fréttir gærdagsins um að greiðslubyrði íslenskra heimila af húsnæðislánum sínum hefði ekki verið meiri frá hruni og er þar vísað í nýja skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Skýrslan staðfestir svo það sem allir vita, að hækkandi greiðslubyrði kemur verst niður á barnafjölskyldum. Þetta er staðan.
Í skýrslunni kemur líka fram að hlutfall vaxtagreiðslna af ráðstöfunartekjum fólks fer hækkandi en heimilin greiddu að jafnaði 5,7 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í vaxtagjöld á síðasta ári. Íslensk heimili fara þannig langleiðina með að greiða ráðstöfunartekjur eins mánaðar á ári í vaxtagjöld. Þetta er auðvitað brjálæði.
Þess utan líður almenningur fyrir það að tugmilljarðar króna flæða úr ríkissjóði vegna vaxtabyrði sem er margföld á við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Hugsið ykkur biðlistana í heilbrigðiskerfinu sem hægt væri að eyða ef þessir peningar færu frekar þangað. Hugsið ykkur hvað hægt væri að gera í samgöngumálum, menntamálum og löggæslumálum ef það rynnu ekki tugir milljarða á ári af skattpeningunum okkar í óþarfa vaxtakostnað ríkisins.
Í ríflega eina öld, allt frá því að tengsl íslensku krónunnar við þá dönsku voru rofin, hefur aftur og aftur verið staðfest að krónan okkar ýkir náttúrulegar hagsveiflur og vinnur þannig gegn markmiðum um efnahagslegan stöðugleika. Loforð stjórnvalda um stöðugleika og viðvarandi lága (eðlilega) vexti hafa ítrekað reynst óraunhæf. Það eina sem hefur reynst viðvarandi hefur verið rándýr vaxtamunur milli Íslands og annarra þjóða með stærri og stöðugri gjaldmiðil. Rándýr vaxtamunur sem leggst sem viðbótarskattbyrði á íslensk heimili. Og nú erum við komin á þann stað að við stöndumst samanburð við efnahagshrunið 2008.
Vextir, verðbólga og biðlistar. Þetta eru málefnin sem brenna á heimilum landsins í aðdraganda kosninga og þetta eru áskoranir sem Viðreisn hefur skýr svör við, bæði til skemmri og lengri tíma.
Ef við fáum til þess umboð munum við einhenda okkur í að takast á við vaxtaokrið og taka til í rekstri ríkisins til þess ná niður verðbólgu og forgangsraða útgjöldum í þágu heimila og atvinnulífs. Við munum setja geðheilbrigðismál og menntamál í forgang og efla löggæslu landsins. Við viljum líka leyfa þjóðinni að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort klára eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið.