15 nóv Von um mikla vaxtalækkun
Húsnæðismál eiga að vera lykiláhersla ríkis og sveitarfélaga. Mikilvægasti liðurinn í því að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði er að byggja nóg. Um þetta getum við öll verið sammála. En sá skilningur þýðir samt ekki að þá sé nóg að halla sér aftur og láta eins og verkefnin leysist af sjálfu sér.
Þegar vextir eru háir er minna byggt og það gerir öllum – sér í lagi ungu fólki – erfiðara fyrir að kaupa sínu fyrstu íbúð og koma ár sinni þannig fyrir borð. Það er þess vegna gleðiefni að líkur séu loksins taldar á eins prósents vaxtalækkun síðar í mánuðinum. Þótt fyrr hefði verið og eftir hreint út sagt óþolandi langt tímabil okurvaxta.
Þessi viðspyrna mun þó ekki ná neinu flugi nema hér takist að mynda samhenta ríkisstjórn. Það gefur augaleið. Sú stjórn sem hér verður mynduð innan nokkurra vikna verður að vinna betur saman en sú sem nú hefur hrökklast frá völdum. Þetta er algjör lykilbreyta í stóra samhenginu. Það þarf ríkisstjórn sem kemur á varanlegum stöðugleika. Ríkisstjórn sem bæði skilur mikilvægi skynsamlegrar hagstjórnar og ræður við það verkefni. Við þurfum líka ráðherra sem skilja að fólk hefur engan áhuga á að velkjast lengur um á fasteignamarkaði sem minnir helst á fjárhættuspil. Fólk á rétt á fyrirsjáanleika varðandi mánaðarlegar afborganir húsnæðislána og fólk á rétt á því að þau kosti ekki annan handlegginn og meira til í formi vaxta sem hafa verið hér margfalt hærri en húsnæðislánavextir í nágrannalöndum okkar.
Skilaboð okkar í Viðreisn hafa verið skýr um árabil. Það er ekki boðlegt ástand að húsnæðisvextir séu alltaf margfalt hærri hér en í nágrannalöndunum. Fólk þráir að vita hver mánaðarleg afborgun húsnæðislánsins verður, þó ekki væri nema nokkra mánuði fram í tímann.
Fái Viðreisn til þess umboð munum við taka til óspilltra málanna í þessum verkefnum sem varða sameiginlega hagsmuni okkar allra. Aðeins þannig mun okkur takast að rétta úr kútnum og kveða niður þráláta íslenska vaxtagrýlu. Það er mikilvægasta verkefnið. Þótt vonir um 1% vaxtalækkun í lok nóvember gangi eftir erum við ekki laus úr hringavitleysunni nema hér verði mynduð ríkisstjórn sem vill og getur komið á stöðugleika. Bæði til skemmri og lengri tíma. Þar liggja hinir raunverulegu almannahagsmunir.