Frelsið er ekki sjálfgefið

Nú þegar við kveðjum árið 2024 og tökum á móti nýju ári fyllist ég þakklæti og ákveðinni bjartsýni þótt staða heimsmála gefi vissulega tilefni til annars. Árið hér heima var viðburðaríkt, með lýðræðið í brennidepli. Í sumar kusum við nýjan forseta, Höllu Tómasdóttur. Eftir stutta og snarpa kosningabaráttu var mynduð ný ríkisstjórn undir forystu þriggja kvenna. Þá var vígður nýr biskup Íslands á árinu, Guðrún Karls Helgudóttir. Það má því segja að þetta hafi verið kraftmikið kvennaár en fyrst og síðast undirstrikaði það að lýðræðið á Íslandi virkar. Það er dýrmætt.

Kosningabaráttan sem fór fram undir lok árs var sú skemmtilegasta sem ég man eftir. Það var ómetanlegt að finna stuðninginn, jákvæðnina og traustið sem þjóðin sýndi okkur í Viðreisn og ríkisstjórnarflokkunum öllum. Fyrir það vil ég þakka.

Mikilvægi alþjóðasamvinnu

Árið hefur fært okkur tækifæri og áskoranir, bæði hér heima og á alþjóðavettvangi. Það er heiður að fá að gegna embætti utanríkisráðherra Íslands í nýrri ríkisstjórn. Því fylgir sömuleiðis mikil ábyrgð sem ég tek alvarlega enda gegnir landið okkar mikilvægu hlutverki í sífellt flóknari heimi.

Með vaxandi ólgu á alþjóðavettvangi skiptir máli að Ísland tali fyrir friði og því að alþjóðalög og mannréttindi séu virt. Staða heimsmála kallar á nánari og virkari samvinnu Íslands við Evrópusambandið, önnur norræn ríki og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum. Sem fyrr eru aðild okkar að NATO og tvíhliða varnarsamningur við Bandaríkin frá árinu 1951 grunnstoðir í vörnum landsins.

Alþjóðasamvinna hefur sjaldan verið brýnni en nú. Atburðir síðustu vikna í Eystrasaltinu undirstrika þetta, en þar voru sæstrengir skemmdir og öryggi grunninnviða stefnt í hættu. Samstaða ríkja Atlantshafsbandalagsins skiptir sköpum og dregur fram mikilvægi þess að geta treyst á styrk og stuðning bandalagsríkjanna. Það er því brýnt að við hættum að líta á alþjóðasamstarf og varnarmál sem umræðuefni fast í pólitískum kreddum. Fyrir okkur er mikilvægt að við styrkjum samvinnu við önnur vestræn ríki og vinaþjóðir til að tryggja öryggi og stöðugleika inn í framtíðina, enda er það frumskylda ríkisins að tryggja öryggi borgaranna.

Treystum þjóðinni

Ný ríkisstjórn ætlar að vinna varnar- og öryggisstefnu fyrir Ísland sem miðar að því að styrkja stöðu landsins í breyttum heimi. Framkvæmd, ábyrgð og fyrirkomulag stjórnsýslu varnarmála verður skýrð enn frekar. Einnig er mikilvægt að skoða hvernig varnarsamningurinn frá 1951 taki til nýrrar öryggisáhættu eins og netárása eða eyðileggingar á sæstrengjum í kringum landið.

Við munum að sjálfsögðu standa vörð um EES-samninginn og styrkja hagsmunagæslu Íslands. Lykilatriði er að tryggja að Ísland haldi áfram að vera virkur þátttakandi á alþjóðavettvangi. Hvort sem það er vegna mannúðar, friðar, öryggis, varna eða viðskipta, svo dæmi séu nefnd.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Það verður gert eigi síðar en árið 2027 í kjölfar víðtækrar umræðu í samfélaginu. Þetta er ekki ákvörðun sem ríkisstjórnin tekur ein heldur ráðast næstu skref af opinni lýðræðislegri umræðu sem þjóðin tekur síðan á endanum afstöðu til. Þjóðin ræður framhaldinu. Við það á enginn að vera hræddur.

Ísland er leiðandi

Í heimi sem stendur frammi fyrir áskorunum á borð við stríð, loftslagsbreytingar, tæknibyltingar og breytta alþjóðapólitík er samvinna lykillinn að árangri. Í slíkri samvinnu getur Ísland haft áhrif til góðs og verið leiðandi á ýmsum sviðum, t.a.m. þegar kemur að sjálfbærni og mannréttindum.

Löngum hefur verið litið til Íslands þegar kemur að tækni og þekkingu á sviði sjávarútvegs- og orkumála. Það hef ég fundið bæði sem þingmaður og ráðherra. Að þessu verðum við áfram að hlúa.

Með sjálfbærri nýtingu auðlinda okkar, sem og áframhaldandi stuðningi við grænar nýsköpunarlausnir, getum við stuðlað að jákvæðum breytingum á heimsvísu. Á sama tíma þurfum við að halda áfram að tryggja orkuöryggi og fjárfesta í umhverfisvænum samgöngum. Það er mikilvægur þáttur í því að bregðast við áskorunum samtímans.

Ísland hefur sömuleiðis verið eitt þeirra landa sem horft er til sem fyrirmynda á sviði jafnréttismála. Við kusum fyrsta kvenforseta heims árið 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin og eftir því var tekið. Við höfum tekið þetta hlutverk okkar alvarlega. Hér er kynjajafnrétti nú með því mesta í heiminum og það eru einnig réttindi hinsegin fólks. Ég held hreinlega að það sé í þjóðarsál okkar Íslendinga að vilja vera land jafnréttis þar sem tækifæri okkar allra eru tryggð.

Að standa vörð um frelsið

Það er mín trú að sjaldan hafi verið mikilvægara að standa vörð um frelsið. Hugmyndina um að einstaklingurinn sé frjáls til að taka þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Það er trú á jafnrétti, réttlæti og mannréttindi. En líka trúin á að samfélög geti best þrifist þegar þau byggja á lýðræðislegum gildum. Þetta eru hornsteinar samfélags okkar sem aldrei má taka sem sjálfsögðum hlut.

En frelsið hefur átt undir högg að sækja. Við sjáum víða um heim tilhneigingu til afturhalds, þar sem stjórnvöld brjóta niður lýðræðislegar stoðir og grafa undan frelsi einstaklinga, hvort sem það er með því að skerða tjáningarfrelsi, réttindi kvenna eða jaðarsettra hópa. Eða hagræða kosningum og framkvæmd þeirra, allt eftir því hvernig það hentar valdhöfum hverju sinni.

Innrásarstríð Rússa í Úkraínu er einnig atlaga að lýðræði og því frelsi sem er okkur Íslendingum kært en ekki síður mikilvægt. Ísland mun áfram standa þétt við bak Úkraínu á erfiðum tímum.

Við upplifum stórkarlalega stórveldapólitík þar sem víða er grafið undan lýðræðinu og réttarríkinu með markvissum áróðri, deilum, skemmdarverkum og miskunnarlausum hernaði.

Þess vegna er mikilvægi öryggis og varna meira en áður. Þess vegna er það verkefni okkar hverju sinni að verja frelsið og efla það. Þess vegna þurfum við að taka virkan þátt í samfélagi þjóðanna á grundvelli lýðræðislegra stofnana, opinnar umræðu og réttlætis. Þess vegna verður Ísland áfram að vera stoltur talsmaður frelsis og frjálslyndis á alþjóðavettvangi. Því það er ekki aðeins ákvörðun um utanríkisstefnu, heldur hver við viljum vera sem þjóð.

Samstiga til verka

Í gegnum tíðina hefur Ísland sýnt og sannað að smæð þjóðar okkar stendur ekki í vegi fyrir því að við getum verið stór í hugmyndum, hugsun og framtíðarsýn. Við myndun nýrrar ríkisstjórnar var það leiðarstef okkar að vinna að lausnum fyrir samfélagið sem byggja á trausti og sterku samstarfi, í þágu þjóðar.

Markmið okkar í ríkisstjórn er meðal annars að létta róðurinn fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Byggja upp og ýta undir fjölbreytni í atvinnulífi og verðmætasköpun. Með samhentri ríkisstjórn aukast líkur á að það takist.

Okkar fyrsta verk verður að ná stöðugleika í efnahagslífi með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins og að ríkisstjórn landsins verði raunverulegur bandamaður Seðlabankans við lækkun vaxta í landinu.

Líðan þjóðar

Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur sem nú tökum við stjórnartaumunum að vinna að þeim málum sem snúa að líðan fólksins í landinu. Fyrir okkur í Viðreisn hafa það verið sérstök áherslumál að stytta biðlista barna, auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjármagna meðferðarúrræði vegna fíknivanda. Að gæta þess að þau börn og ungmenni sem hafa lent utangarðs komist inn í garðinn aftur og þeim verði sinnt af kostgæfni. Andleg vanlíðan spyr ekki um efnahag og fíknisjúkdómar fara ekki í sumarfrí.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að styrkja velferðarkerfið, hvort sem það er heilbrigðiskerfið, menntakerfið, réttarkerfið eða aðrar grunnstoðir samfélagsins. Öflugir innviðir og efnahagslegur sem félagslegur stöðugleiki eru undirstöður þess að fólk vilji búa á Íslandi og skapa hér framtíð fyrir fjölskyldur sínar.

Saman inn í framtíðina

Árið 2025 bíður okkar með fjölda verkefna sem krefjast hugrekkis en bjóða einnig upp á gríðarleg tækifæri. Ef við vinnum saman með frelsi og mannúð að leiðarljósi getum við haldið áfram að leggja grunn að samfélagi og framtíð sem við getum öll verið stolt af.

Gleðilegt ár, kæru landsmenn. Megi gæfa og gleði fylgja ykkur öllum.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024