13 des Ísland og umheimurinn
Rétt eins og undanfarin ár hefur árið sem nú er að líða einkennst af óróleika og stríðsátökum á alþjóðavettvangi. Hér á Íslandi hefur þessi staða leitt til aukinnar áherslu á utanríkismál, ekki síst á öryggis- og varnarmál eins og merkja má á þeirri miklu uppbyggingu hernaðarmannvirkja sem hefur átt sér stað á varnarsvæðinu í Keflavík.
Undanfarin 80 ár hefur Ísland verið frjálst og fullvalda ríki. Sú staðreynd hefur endurspeglast í stöðu okkar á alþjóðavettvangi. Örfáum árum eftir stofnun lýðveldisins 1944 urðum við aðilar að Sameinuðu þjóðunum og eitt af stofnríkjum NATO. Við erum í samstarfi við okkar norrænu frændþjóðir og erum aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, Schengen-samstarfinu og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið svo dæmi séu tekin.
Við höfum sem frjálst og fullvalda ríki tekið ákvörðun um að vera fullgildir þátttakendur á vettvangi þessa fjölbreytta samstarfs sem hefur mikil áhrif á hagsmuni okkar, þar með talið öryggismál. Af sömu ástæðu er ég þeirrar skoðunar að við ættum að vera hluti af Evrópusambandinu og standa þar jafnfætis þeim sjálfstæðu og fullvalda Evrópuþjóðum sem sjá hagsmunum sínum best borgið þar.
Það er hins vegar mikilvægi norræns samstarfs sem ég vil árétta hér enda hefur það sennilega aldrei verið jafn mikilvægt og nú. Stríð í Evrópu og vaxandi ógn við lýðræðið í mörgum löndum álfunnar auk loftslagsbreytinga sem snerta ekki síst okkur hér á norðurslóðum ættu að vera okkur öllum sterk áminning um að þétta raðirnar.
Í síðasta mánuði náðist mikilvægur og langþráður áfangi í norrænu samstarfi þegar þing Norðurlandaráðs, sem haldið var hér í Reykjavík undir formennsku Íslands, samþykkti einróma að vísa tillögum vinnuhóps á vegum ráðsins um endurskoðun Helsinkisamningsins til ríkisstjórna Norðurlandanna til áframhaldandi vinnu. Helsinkisamningurinn sem er undirstaða norræns samstarfs er gjarnan nefndur hin norræna stjórnarskrá. Hann var undirritaður árið 1962 og síðast endurskoðaður fyrir tæpum 30 árum. Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur undanfarin ár verið vaxandi þungi í umræðu um mikilvægi þess að endurskoða samninginn til að styrkja norrænt samstarf. Í þeirri umræðu hefur sérstaklega verið bent á að ákvæði um varnar- og öryggismál væri ekki að finna í samningnum. Eins vantaði áherslur á viðbrögð við ýmsum samfélagsógnum sem ekki voru til staðar fyrir einhverjum áratugum síðan.
Endurskoðun Helsinkisamningsins hefur þannig gefið gott tækifæri til að ramma inn áherslur í norrænu samstarfi í breyttum heimi þar sem full ástæða er fyrir okkur að taka höndum saman um að verja þau gildi sem hafa lagt grunn að norrænni velferð.