Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson

Á dögunum heyrði ég vangaveltur tveggja ágætra stjórnmálaskýrenda. Þeir voru að velta fyrir sér hvort formenn stjórnarmyndunarflokkanna ættu að leggja þyngri áherslu á að fylla þjóðina bjartsýni eða upplýsa hana um raunverulega stöðu þjóðarbúsins.

Tilefni þessara pælinga voru nýjar upplýsingar um mun verri afkomu ríkissjóðs en haldið var á lofti fyrir kosningar.

Ólíkindi

Formenn flokkanna, sem eru í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar, virtust taka tíðindin alvarlega og gáfu til kynna að þau hefðu áhrif á viðfangsefni þeirra. Formenn fráfarandi stjórnarflokka sögðu aftur á móti að þetta skipti engu máli og hefði engin áhrif.

Mat á nýjum hagtölum getur varla verið ólíkara.

Ekki hefði komið á óvart þótt skoðanir hefðu verið skiptar um hvernig bregðast ætti við. En hitt er með ólíkindum að deilt skuli um hvort nauðsyn beri til þess.

Fyrsti vísir að miðjupólitík stjórnarmyndunarflokkanna virðist þannig endurspegla ábyrgari afstöðu til ríkisfjármála en raunin var hjá fráfarandi stjórn jaðranna yst til hægri og vinstri.

Skýring

Þessi gjörólíka pólitíska hugsun gæti skýrt hvers vegna verðbólga varð meiri hér og þrálátari en í grannlöndunum í kjölfar heimsfaraldursins. Að hluta til gæti hún líka varpað ljósi á ástæður þess að hér þurfti stríðsvexti til þess að ná verðbólgunni niður.

Að öðrum hluta eru stríðsvextirnir afleiðing af því að krónan uppfyllir ekki helstu skilyrði þess að vera nothæfur gjaldmiðill. Að því leyti er ekki við fráfarandi ríkisstjórn að sakast, nema fyrir þá sök að viðurkenna ekki þann veruleika.

Vextir hér verða alltaf í einhverjum mæli hærri en í grannlöndunum. Það verður líka höfuðverkur nýrrar ríkisstjórnar.

Raunsæi

Pælingar stjórnmálaskýrendanna um bjartsýnisboðskap eða raunsæis varð til þess að ég skoðaði hvernig þessu hefði verið farið þegar sú ríkisstjórn var kynnt til sögunnar, sem færði Ísland inn í nútímann eftir seinni heimsstyrjöld.

Þetta var Viðreisnarstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Forsætisráðherrann, Ólafur Thors, hóf ræðu sína á Alþingi daginn eftir myndun stjórnarinnar 1959 með þessum orðum:

„Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ítarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið mun ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi tillögur um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á.

Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla, og að erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið.“

Veruleiki

Þarna fór ekki á milli mála að raunsæisboðskapurinn trompaði bjartsýnisboðskapinn. Bjartsýnin kom svo með árangrinum.

Nú er öldin vissulega önnur. Kannski var þjóðin móttækilegri fyrir raunsæi við þær aðstæður, sem hún bjó við þá.

En ætli það lögmál hafi samt breyst að raunsætt mat á aðstæðum sé forsenda skynsamlegra og ábyrgra ráðstafana?

Veruleikinn, sem ný ríkisstjórn stendur andspænis, er ekki bara aukinn halli á fjárlögum og ríflegri verðhækkanir en lofað var. Hann birtist líka í því að vextir eru og verða hærri en í grannlöndunum. Og það er samdráttur í þjóðarbúskapnum. Mjúka lendingin tókst ekki.

Bjartsýni

Kerfisbreyting fyrstu aðgerða Viðreisnarstjórnarinnar á sinni tíð byggðist á afnámi innflutningshafta og millifærslna til atvinnugreina, réttu gengi, þátttöku í alþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi, sem þá var við lýði, stórauknum velferðarútgjöldum almannatrygginga, afnámi tekjuskatts á lægstu laun og nýjum söluskatti til að tryggja hallalaus fjárlög.

Þetta þýddi kaupmáttarrýrnun í byrjun.

Síðan kom framleiðniaukningin með vaxandi hagsæld, bjartsýni og loks aðild að EFTA.

Hulda

Enn er allt á huldu um hvort stjórnarmyndunarflokkarnir muni stíga það stóra skref að fela þjóðinni að ákveða næstu kerfisbreytingu með því að hefja á ný viðræður um fulla aðild að Evrópusambandinu.

Slík ákvörðun gæti þó orðið tilefni til aukinnar bjartsýni á samkeppnisstöðu heimila og fyrirtækja í krónuhagkerfinu í framhaldi af aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum og fyrstu umbótum í velferðarkerfinu.

Í búð reynslunnar er raunsæið undirstaða bjartsýninnar.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 19. desember 2024