Takk fyrir traustið

Niðurstöður kosninganna síðastliðinn laugardag sýna svo ekki verður um villst að kjósendur vilja breytingar. Það er í anda þess sem við í Viðreisn höfum fundið fyrir í vaxandi mæli síðustu vikur og mánuði í samtölum okkar við fólk. Og fyrir þau samtöl erum við mjög þakklát. Niðurstöðurnar marka líka sögulegan áfanga fyrir Viðreisn. Við rúmlega tvöfölduðum þingflokkinn þegar við fórum úr fimm þingmönnum í ellefu og í fyrsta skipti í átta ára sögu okkar eigum við kjördæmakjörna þingmenn í öllum kjördæmum. Þennan sigur eigum við ekki síst að þakka jákvæðri og málefnalegri kosningabaráttu sem var borin uppi af sterkum frambjóðendum og starfsfólki og öflugum og samstilltum hópi sjálfboðaliða úr öllum kjördæmum. Ég er stolt og þakklát yfir því að tilheyra þeim góða hópi.

Við í Viðreisn erum mjög þakklát fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt. Nú tökumst við af auðmýkt á við að reyna að mynda samstillta ríkisstjórn um risastór verkefni sem varða hag heimila og fyrirtækja landsins. Það verður ekki endilega einfalt en ef leiðarljósin eru skýr og málamiðlanir verða frekar gerðar í þágu almannahagsmuna en sérhagsmuna, þá er ég sannfærð um að hér verður mynduð sterk ríkisstjórn sem uppfyllir væntingar kjósenda.

Í kjölfar kosninganna hverfa 34 þingmenn, ríflega helmingur þingheims, á braut og nýir koma í staðinn. Meðal annars þagna nú raddir Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata á þingi. Í bili, hvað sem síðar verður. Í þessum hópi þingmanna sem ekki voru í framboði eða náðu ekki kjöri eru margir sem ég á eftir að sakna. Það er grunnur að góðu starfi kjörinna fulltrúa að þeir geti unnið saman þvert á flokka. Þótt ergelsið í síðustu ríkisstjórn hafi haft neikvæð áhrif á þingstörfin þá gátu þingmenn oft sameinast um góð og mikilvæg verkefni þvert á pólitískar línur.

Ég er stolt af kosningabaráttu Viðreisnar. Við rákum jákvæða og uppbyggilega baráttu með okkar mál að leiðarljósi og trú á það sem við stöndum fyrir. Og við lögðum áherslu á gleðina. Það hefur verið of lítið um hana síðustu árin í stjórnmálunum. Af samtölum okkar við fólk víðsvegar um landið síðustu ár vissum við að það var eftirspurn eftir þessari nálgun okkar. Hversu mikil sú eftirspurn var kom okkur hins vegar á óvart. Alls staðar þar sem við komum var þetta nefnt, og ekki bara af kjósendum Viðreisnar. Það er eftirspurn eftir jákvæðri og uppbyggilegri stjórnmálaumræðu. Vonandi tekst nýrri ríkisstjórn og nýju þingi að mæta þeirri eftirspurn.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. desember