Búðu þig undir ESB kosningar

Ný ríkistjórn mun láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við ESB árið 2027. Þú hefur því um 28 mánuði til að undirbúa þína ákvörðun í þessu máli sem er eitt það mikilvægasta fyrir þjóðina okkar á næstu árum.

Kosningabaráttan er þegar hafin enda skrifa andstæðingar aðildar Íslands að ESB nánast daglega greinar þar sem ókostir aðildar eru taldir upp.

Þar segir meðal annars að Ísland tapi fullveldi sínu og öllum helstu auðlindum með aðild að ESB. Einnig að Ísland fái engar sérlausnir, að það verði ómögulegt að yfirgefa ESB og að Evrópa og Evrópusambandið sé að hruni komið. Þar ríki atvinnuleysi og að þar sé enginn hagvöxtur svo nokkur dæmi séu nefnd.

Oft er talað um „bírókratana í Brüssel“ sem öllu eiga að ráða og að fulltrúar Íslanda á Evrópuþinginu muni ekki hafa nein áhrif. Einnig að upptaka evru í stað krónu muni valda atvinnuleysi og að frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur muni eyðileggja íslenskan landbúnað. Andstæðingar ESB tala mikið um „reglugerðarfarganið“ sem kemur frá því

Allar þessar fullyrðingar eru rangar eða ýktar að mínu mati og mun ég færa rök fyrir aðild Íslands að ESB í næstu pistlum mínum hér á vefsíðu Eyjunnar/DV.

Hræðslan við ESB aðild minnir á óttann við Hvalfjarðargöngin

Margir vöruðu við göngunum, að þau myndu hrynja og fyllast af sjó. Fullyrt var að þau væru óarðbær og enginn myndi aka um þau. Sá ótti reyndist ástæðulaus eins og allir vita nú enda eru göngin ein arðbærasta framkvæmd á Íslandi síðustu áratugi.

Sama gerðist þegar Ísland gekk í NATO, EFTA og EES. Andstæðingar aðildar óttuðust að fullveldi væri ógnað og að staða Íslands myndi versna. Sá ótti reyndist ástæðulaus.

Þessi grein og þær næstu sem ég skrifa á þessum vettvangi munu fjalla um kosti þess fyrir okkur Íslendinga að bindast Evrópuþjóðum sterkari böndum og svara þeim röddum sem telja fulla aðild hættulega fyrir okkur.

Kostir aðildar eru margir

Auðvelt er að færa rök fyrir kostum fullrar ESB aðildar og svara þannig röddum efasemdarfólks. Sem dæmi má nefna að öll aðildarríkin 27 eru fullvalda ríki sem ráða yfir öllum sínum auðlindum enda hefur ESB engan áhuga á auðlindum aðildarlandanna.

Með fullri aðild Íslands að ESB mun þjóðin auka sitt stjórnunarlega sjálfstæði en landið mun fá sex þingmenn á Evrópuþinginu, aðild að ráðherraráði ESB, auk fulltrúa í framkvæmdastjórn ESB og öllum öðrum stofnunum Evrópusambandsins.

Með fullri aðild munu kosnir Evrópuþingmenn Íslands vera í meirihluta þingsins innan um þingmenn hófsamra hægri flokka, bandalags sósíaldemókrata auk frjálslyndra lýðræðisflokka.

Þannig verðum við Íslendingar í raun í meirihlutahópi þingsins eftir að full aðild hefur orðið að veruleika.

Flest aðildarríki hafa fengið varanlegar sérlausnir sem henta þeirra sérstöðu. Reglugerðir ESB fjalla flestar um að tryggja aukna neytendavernd, aukna samkeppni, öflugri umhverfisvernd og jafnrétti. Það má kalla það „fargan“ en ég kalla þetta framfarir.

Hvað „bírókratana í Brüssel“ varðar má geta þess að starfsmenn ESB eru um 34500 sem samsvarar um 30 starfsmönnum á Íslandi sem er rúmlega heildarfjöldi starfsmanna Samkeppniseftirlitsins.

Upptaka evru mun lækka vexti á Íslandi um 4,5% varanlega enda samsvarar það vaxtamuni íslenskra langtíma ríkisskuldabréfa í krónum miðað við evrur. Heildarskuldir á Íslandi eru um 10 þúsund milljarðar og má því fullyrða að krónan kosti okkur um 450 milljarða á ári, eingöngu í vaxtamun á lánum ríkisins, heimila, sveitarfélaga og fyrirtækja.

Alþjóðasamvinna er mikilvæg

Þegar skoðuð eru stærstu framfaraskref þjóðarinnar koma upp árin 1904 þegar við fengum heimastjórn, 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki, 1944 þegar lýðveldið Ísland var stofnað, 1949 þegar Alþingi samþykkti aðildina að NATO og árið 1970 þegar Ísland varð aðili að EFTA.

Eftir það var stærsta framfaraskrefið stigið þann 1. janúar árið 1994 þegar Ísland gerðist aðili að EES, evrópska efnahagssvæðinu.

Ísland hefur þannig alltaf hagnast á alþjóðasamvinnu

Fram undan er ákvörðun um næsta stóra framfaraskrefið sem er full aðild Íslands að ESB.

Meirihluti þjóðarinnar vill þjóðaratkvæðagreiðslu og fleiri eru fylgjandi aðild en á móti samkvæmt nýlegri skoðanakönnun. Evru árin eru því hugsanlega fram undan hjá þér, ágæti lesandi!

Alþjóðasamstarf sem ég vil kalla „alþjóðavirkni“ er eitt mikilvægasta málið hjá okkur í dag.

Með stríðsátökum í Evrópu og einangrunarstefnu Trump stjórnarinnar verður æ mikilvægara fyrir Ísland að vera meðlimur í alþjóðlegum samtökum eins og Evrópusambandinu.

Þannig tryggjum við hagsmuni okkar best til framtíðar.

Hafðu þetta í huga, ágæti lesandi, þegar þú kýst í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2027.

Greinin birtist fyrs á Eyjunni 15. janúar 2025