15 jan Ferðaþjónusta í forgrunni
Það er við hæfi að fyrsta opinbera ræða mín sem atvinnuvegaráðherra í nýrri ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins var við opnun ferðaþjónustuvikunnar 2025. Með breytingum á skiptingu starfa ráðherra sem fylgdu stjórnarskiptunum voru málefni ferðaþjónustunnar færð undir nýtt atvinnuvegaráðuneyti með öðrum grunnatvinnuvegum þjóðarinnar.
Það hefur verið ævintýralegt að fylgjast með vexti og þróun ferðaþjónustunnar, sem hefur á fáum árum vaxið úr nánast engu yfir í að vera stærsta útflutningsgrein landsins. Síðustu misseri hefur verðbólga og hátt vaxtastig þó haft óhagstæð áhrif og ógnað verðsamkeppnishæfni Íslands. Forgangsmál nýrrar ríkisstjórnar er að ná niður verðbólgu og stuðla þannig að lækkun vaxta. Það er fátt sem skiptir íslensk fyrirtæki meira máli.
Það er full ástæða til bjartsýni fyrir árið fram undan en efnahagshorfur fara batnandi og spár gefa til kynna að áfram verði hóflegur vöxtur í komum ferðamanna á næstu árum. Við stöndum þó enn frammi fyrir áskorunum, bæði hér heima og á alþjóðasviðinu. Íslensk ferðaþjónusta býr við krefjandi alþjóðlegt samkeppnisumhverfi. Stjórnvöld og atvinnugreinin verða að vinna saman að því að hér geti ferðaþjónusta blómstrað áfram. Þar liggja miklir almannahagsmunir undir.
Ný ríkisstjórn mun vinna að aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu. Mótuð verður atvinnustefnu sem stuðlar að sjálfbærum vexti atvinnugreina, aukinni framleiðni og heilbrigðum vinnumarkaði. Stuðlað verður að hagstæðum rekstrarskilyrðum fyrirtækja og stutt við vöxt nýsköpunar og tækni. Það er ekki síst mikilvægt fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, þar sem mikil nýsköpun á sér stað sem er greininni nauðsynleg. Ríkisstjórnin hyggst jafnframt auka skilvirkni í samskiptum fyrirtækja og hins opinbera. Fjárfest verður kröftuglega í samgönguinnviðum, sem eru lífæð ferðaþjónustunnar.
Eftir því sem ferðamönnum hefur fjölgað hér á landi hefur öryggi og álagsstýring á fjölsóttum ferðamannastöðum orðið brýnna verkefni. Til að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruperlna landsins er nauðsynlegt að innleiða sanngjarnar aðgerðir sem styðja við uppbyggingu, verndun og viðhald þessara einstöku auðlinda. Í því skyni verður forgangsmál að móta fyrirkomulag um auðlindagjald fyrir aðgang ferðamanna að náttúruperlum landsins. Þetta verður unnið í samráði við ferðaþjónustuna, ekki síst til að tryggja mikilvægan fyrirsjáanleika fyrir fyrirtækin í greininni.
Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að hér sé rekin arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð. Að ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og sé ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs. Ég hlakka til verkefnanna fram undan.