Óðagot er engum til gagns

Það blasti við stórfengleg sýn í Kórnum í Kópavogi í síðustu viku þegar ég gekk inn á Mannamót markaðsstofa landshlutanna. Viðburðurinn er hluti af Ferðaþjónustuvikunni sem haldin er á hverju ári. Troðfullur salur af sýningarbásum og fólki sem beið spennt eftir samtali og tækifæri til að kynna hinar ýmsu afurðir, afþreyingu eða hugmyndir. Og af nógu var að taka.

Markaðsstofurnar eru samtals sjö á landinu. Þær starfa með yfir þúsund fyrirtækjum og 61 sveitarfélagi um allt land. Gróskan var ótrúleg og orkan í salnum áþreifanleg.

Ég náði samtali við ótal einstaklinga sem flestir voru nokkuð bjartsýnir og spenntir fyrir komandi mánuðum. Ég smakkaði alls kyns hnossgæti og safnaði bæklingum um fjölbreyttar leiðir til gistimöguleika og afþreyingar um allt land sem ég hlakka til að heimsækja. Það var áhugavert að finna að fólk hafði mikinn áhuga á að ræða við nýkjörinn þingmann um stöðu greinarinnar og mikilvægi þess að byggja enn frekar undir hana. Sérstaklega þegar kemur að fyrirsjáanleika og gagnsæi ákvarðana.

Þar nefndu margir við mig hversu illa kveðjugjöf síðustu ríkisstjórnar hefði komið við greinina þegar
ákveðið var í flýti að skella innviðagjaldi á skemmtiferðaskip. Ákvörðun sem keyrð var í gegn við afgreiðslu fjárlaga í október. Það var ekki endilega það að tekin hefði verið ákvörðun um gjaldtöku sem stóð í fólki. Heldur óðagotið og asinn. Enda hefur ákvörðunin þegar haft í för með sér afbókanir og fjárhagslegt tjón. Sérstaklega í smærri sveitarfélögum eins og Vesturbyggð, Árneshreppi og í Grundarfirði. Sömu raddir heyrast nú frá Djúpavogi, Grenivík, Höfn, Seyðisfirði og víðar. Innviðagjaldinu var ætlað að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu. En innviðagjaldið sem um ræðir er 2.500 krónur á nótt á hvern farþega. Til samanburðar er gjaldið í landi 800 krónur
á hvert herbergi. Hjón greiða því 5.000 krónur fyrir nóttina í skemmtiferðaskipi en töluvert
minna ef gist er í landi. Burtséð frá því hvað okkur kann að finnast um slíkar gjaldtökur er í mínum huga alveg skýrt að það er ekki vönduð stjórnsýsla að keyra slík mál í gegn án fyrirvara eða samráðs. Tala nú ekki um þegar um er að ræða atvinnustarfsemi sem reiðir sig á verðskrár ogbókanir langt fram í tímann.

Fyrir landsbyggðina skiptir öllu máli að vera ekki með öll eggin í sömu körfunni þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Ferðaþjónusta og menningartengd starfsemi gegnir þar algjöru lykilhlutverki. Stjórnvöld eiga að vinna með greininni að þeirri uppbyggingu, en ekki bregða fyrir hana fæti í einhverju óðagoti.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. janúar 2025