29 jan Ráðuneyti útflutnings og byggðamála tekur til starfa

Í stjórnarmyndunarviðræðum undir lok síðasta árs lögðu oddvitar nýrrar ríkisstjórnar áherslu á að byggja upp öflugt ráðuneyti sem styður grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Niðurstaðan var stofnun nýs atvinnuvegaráðuneytis, sem mér var falið það mikilvæga hlutverk að byggja upp.
Ráðuneytið er byggt á grunni matvælaráðuneytisins sem heldur á málefnum fiskveiða, landbúnaðar, matvæla (þ.m.t. fiskeldis), matvælaöryggis og dýravelferðar. Nú bætast við málefni ferðaþjónustu, iðnaðar og viðskipta- og neytendamála sem styrkja grunn þess enn frekar.
Árið 2023 fluttu Íslendingar út vörur og þjónustu fyrir alls 1.800 milljarða króna. Ferðaþjónustan stóð að baki þriðjungi þessara verðmæta eða 600 milljörðum. Við fluttum út sjávarfang fyrir 350 milljarða og iðnvörur fyrir 500 milljarða, þar af var útflutningur áls 320 milljarðar. Þá nam útflutningur fiskeldisafurða 46 milljörðum og landbúnaðarvörur voru fluttar út fyrir átta milljarða. Samanlagt nemur þetta rúmlega 1.550 milljörðum eða 86% af öllum útflutningstekjum Íslendinga það árið. Það væri því hægt að kalla þetta nýja ráðuneyti útflutningsráðuneytið.
Útflutningur skiptir okkur gríðarmiklu máli. Í hvert skipti sem við kaupum vöru eða þjónustu í útlöndum þurfum við að greiða fyrir það í erlendum gjaldmiðli. Ef við flytjum ekki út verðmæti þá þurfum við að taka lán fyrir öllu því sem við flytjum inn. Það endar auðvitað með ósköpum.
Sameining allra þessara atvinnugreina innan eins ráðuneytis skapar einstakt tækifæri. Með nánu samstarfi og samlegðaráhrifum milli greina munum við leggja áherslu á aukna samkeppnishæfni, ábyrga nýtingu auðlinda og nýsköpun. Leiðarljós okkar verður jafnvægi þriggja stoða sjálfbærninnar: efnahags, samfélags og umhverfis.
Við munum virkja hugvit og framtakssemi landsmanna til að efla þessa atvinnuvegi Íslands með nýrri verðmætasköpun, aukinni samkeppnishæfni og meiri sjálfbærni að leiðarljósi. Með öflugu samstarfi við atvinnulíf og samfélög tryggjum við að allar greinar ráðuneytisins stuðli að framþróun og styrkingu efnahagslífsins til hagsbóta fyrir þjóðina.
Sjávarútvegur, fiskeldi, landbúnaður og ferðaþjónusta eru grunnatvinnuvegir landsbyggðarinnar og gegna lykilhlutverki í að tryggja samfélagslega festu í öllum landshlutum. Við munum leggja sérstaka áherslu á þátt þessara greina í lífi og starfi í hinum dreifðu byggðum landsins. Það eru spennandi tækifæri til þess að gera vel í öllum þessum greinum á mismunandi hátt í öllum fjórðungum landsins.
Framtíðin er björt ef við vinnum saman og setjum rétt verkefni í forgang. Með nýsköpun, markvissu átaki og ábyrgum vinnubrögðum getum við tryggt að Ísland verði áfram leiðandi í verðmætasköpun, félagsauði og sjálfbærni.
Framtíðin er í okkar höndum.