Setjum tappa í flöskuna

Mér finnst frá­bært að sjá hvernig ný rík­is­stjórn hef­ur störf sín. Við horf­um fram á nýtt upp­haf í stjórn lands­ins. Fersk­an tón. Þar sem sam­heldni, festa og skýr sýn um framtíðina er leiðar­stefið. Stóra verk­efnið er að ná tök­um á rík­is­fjár­mál­un­um. Eft­ir sjö ár af út­gjalda­fylle­ríi fyrri rík­is­stjórn­ar er kom­inn tími til að setja tappa í flösk­una og boða nýja nálg­un. Tak­ist það ekki er bor­in von að hægt sé að tryggja nauðsyn­lega innviðaupp­bygg­ingu um allt land, styrkja stoðir heil­brigðis- og vel­ferðar­kerf­is­ins eða fjár­festa í mennta­kerf­inu. For­send­an fyr­ir þessu öllu er til­tekt og for­gangs­röðun fjár­muna í bland við aukna verðmæta­sköp­un um allt land.

Það var ekki gott fyr­ir þjóðina að sitja uppi með rík­is­stjórn þriggja skip­stjóra sem sátu fast­ir um borð í sama bátn­um en vildu all­ir róa hver í sína átt­ina. Niðurstaðan af slíkri til­raun blas­ir við. Bát­ur­inn sner­ist í hringi. Þjóðin kaus og skila­boðin frá henni eru skýr. Hún kall­ar á breyt­ing­ar og breytta nálg­un. Sam­henta skip­stjóra sem róa í sömu átt.

Mér fannst þess vegna frá­bært að sjá nýj­asta út­spil rík­is­stjórn­ar­inn­ar: „Ver­um hag­sýn í rekstri rík­is­ins“ þar sem stjórn­in kall­ar eft­ir um­sögn­um frá al­menn­ingi um hagræðing­ar­hug­mynd­ir til bæði skemmri og lengri tíma. Þegar þessi grein er rituð hafa yfir 2.300 um­sagn­ir verið send­ar inn. Marg­ar stór­góðar. Það er aug­ljóst að al­menn­ing­ur hef­ur mik­inn áhuga á þessu stóra verk­efni okk­ar – sem er að fara bet­ur með fé og tæki­færi þjóðar­inn­ar. Útgjöld rík­is­ins árið 2025 eru 1.550 millj­arðar króna eða 16 millj­ón­ir á hverja fjög­urra manna fjöl­skyldu. Það skipt­ir öllu máli að ný rík­is­stjórn slái nýj­an tón. Tón hinn­ar hag­sýnu hús­móður sem ein­set­ur sér að fara bet­ur með og end­ur­hugsa leik­inn. Vera lausnamiðuð og finna leiðir. Án þess þó að drepa stemn­ing­una á heim­il­inu.

Á vef stjórn­ar­ráðsins er spurt: „Mynd­um við verja op­in­beru fé í sömu verk­efni og með sama hætti ef við vær­um að byrja frá grunni?“ Það finnst mér frá­bær út­gangspunkt­ur. Við hrein­lega verðum að staldra við og spyrja okk­ur krí­tískra spurn­inga um grunnþjón­ustu á veg­um rík­is­ins. Hvað er eðli­legt og æski­legt að ríkið reki – og hvað ekki?

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn hafa stjórnað land­inu nær óslitið frá lýðveld­is­stofn­un. Þess­ir flokk­ar bera mikla ábyrgð á út­blæstri bákns­ins og flækj­u­stigi kerf­is­ins. Það eru því ærin verk­efni að rekja upp þá löngu­vit­leysu sem hér hef­ur ríkt. Við hlökk­um til verk­efn­is­ins með traustu sam­ráði við þjóðina. Það er ekk­ert sýnd­ar­sam­ráð. Held­ur raun­veru­leg aðgerðastjórn­un.

Þið getið treyst því.