05 mar Hvenær lærum við af sögunni?

Það þarf ekki djúpköfun í mannkynssöguna til að skilja hvaða hryllilegu afleiðingar harðstjórn hefur á samfélög, mannréttindi og á heimsmyndina. Við höfum séð það gerast aftur og aftur að valdamiklir menn hafa, með réttum skilyrðum, á réttum tímapunktum, náð að umbreyta frjálsum lýðræðissamfélögum í alræðisríki. „Hvernig gat þetta gerst?“ er eðlilega sú spurning sem oftast vaknar.
Fyrsta hættumerkið er þegar markvisst er dregið úr vægi og mætti lýðræðislegra stofnana. Annað hættumerki er þegar stjórnvöld vega markvisst að sjálfstæði dómstóla, fjölmiðla og löggjafarstofnana. Við það ættu viðvörunarljósin að blikka. Rauðglóandi. Enda er það alþekktur leikur í leikbók popúlistans að styrkja eigin völd með því að grafa undan þessum stofnunum. Hann ræðst á fjölmiðla, setur lagalegar skorður við gagnrýni og skipar trygglynda einstaklinga í lykilstöður innan stjórnkerfisins. Hljómar þetta kunnuglega?
Svo er það sannleikurinn. Og staðreyndirnar. Á öldum samfélagsmiðla og upplýsingaóreiðu á vakt herra algríms reynist erfiðara að greina á milli sannleika og falsfrétta. Skilja á milli bergmálshella. Ein helsta aðferð harðstjórnar er einmitt að brengla veruleikann með því að dreifa rangfærslum skipulega. Þegar almenningur hættir að trúa því sem satt er og tapar trausti á fjölmiðlum, vísindum, sérfræðingum eða almennri þekkingu þá galopnast dyrnar fyrir stjórnlyndum leiðtogum sem ákveða bara hver þeirra raunveruleiki er. Með eigin frásögnum og túlkun á honum. Hljómar þetta kunnuglega?
Síðan er dæmigert fyrir harðstjóra að undirbyggja eigin völd með því að egna hópum saman. Búa til sameiginlegan óvin sem þeir standa uppi í hárinu á. Hvort sem það eru tilteknir trúarhópar, útlendingar, hinsegin fólk eða núna nýjasta uppfinningin; hið svokallaða „woke“ lið. Hljómar þetta kunnuglega?
Líkamsræktardrottningin Jane Fonda orðaði það annars ágætlega á dögunum þegar hún sagði að það að vera „woke“ væri að standa hreinlega ekki á sama um annað fólk. Að sýna samkennd með öðru fólki. Er það allur glæpurinn?
Það er sorglegt að horfa upp á fólk glepjast af leikbók harðstjórans. Aftur og aftur. Það er enn sorglegra að heyra íslenska stjórnmálamenn taka upp slíkan málflutning og hygla honum. Það er hættuleg braut. Besta leiðin til að verjast harðstjórn er að þekkja söguna og læra af henni. Sýna hugrekki og mótmæla og benda á raunveruleikann. Standa með lýðræðinu, með mannréttindum og staðreyndum. Líta ekki undan og taka afstöðu. Sýna samkennd. Alltaf.
Annars er hætt við því að það verði skrifað um okkur í sögubókum framtíðarinnar og framtíðarkynslóðir klóri sér í höfðinu og spyrji: „Hvernig gat þetta gerst?