26 mar Í þágu almannahagsmuna

Sjávarútvegurinn er ein mikilvægasta atvinnugrein Íslands og ber að tryggja að auðlindin skili eðlilegum tekjum til samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að leiðrétta veiðigjöldin, þannig að þau endurspegli betur raunverulegt verðmæti aflans og tryggi sanngjarna skiptingu arðsins af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.
Við endurskoðun á veiðigjöldum kom í ljós að núverandi aðferð endurspeglar ekki raunverulegt aflaverðmæti nytjastofna og er frumvarpið lagt fram til að bæta þar úr. Stærstur hluti veidds fisks fer í vinnslu innan sömu fyrirtækjasamstæðna og verðlagning í þeim viðskiptum hefur ekki endurspeglað markaðsverð. Þetta hefur leitt til þess að veiðigjöld hafa verið of lág og endurspegla ekki upprunalega hugmyndafræði um skiptingu hagnaðar af veiðum.
Til að tryggja réttlæti í gjaldtöku verður nú stuðst við raunverulegt verðmæti aflans. Þessi breyting er mikilvægt skref í að tryggja að auðlindin skili réttlátum tekjum til samfélagsins.
Þrátt fyrir hækkun veiðigjalda er útgerðin vel aflögufær. Ef leiðréttingin hefði verið gerð árið 2023 hefði framlegð fyrirtækjanna farið úr 93,8 milljörðum í 84,2 milljarða og samanlagður hagnaður þeirra úr 67,5 milljörðum í 59,9 milljarða. Þó að þetta sé umtalsverð lækkun, þá er ljóst að sjávarútvegsfyrirtækin hafa sterkan rekstrargrundvöll og munu áfram njóta góðs af arðbærri auðlindanýtingu.
Þessum fyrirtækjum hefur gengið vel undanfarin ár en bókfært eigið fé útvegsfyrirtækja hefur aukist um 150 milljarða á síðustu árum, fór úr 300 milljörðum árið 2018 í 450 milljarða árið 2022. Fjármagnið nýtist í ýmis verkefni en í árslok 2019 áttu tuttugu stærstu útgerðir landsins bókfærða eignarhluti í öðrum félögum en útgerðarfélögum upp á tæplega 180 milljarða króna.
Veiðigjöld taka mið af aðstæðum. Þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar skilar auðlindin meiri tekjum til samfélagsins, en þegar erfiðleikar steðja að lækka gjöldin í samræmi við afkomu greinarinnar.
Árið 2023 nam kostnaður ríkisins við þjónustu við sjávarútveginn um 11 milljörðum króna en tekjur af veiðigjaldi voru um 10 milljarðar. Með nýrri útreikningsaðferð mun þessi mismunur lagast og tekjur af veiðigjaldi að auki stuðla að aukinni fjármögnun innviða og brýnna verkefna eins og vegagerðar um land allt.
Við munum áfram vinna að því að sjávarútvegurinn sé öflugur og samkeppnishæfur, en um leið tryggjum við að hann skili eðlilegum tekjum til samfélagsins. Fiskveiðistjórnunarkerfið verður óbreytt, en með þessari leiðréttingu er tryggt að veiðigjöldin standi undir hlutverki sínu í þágu almennings.