19 mar Snögg í sturtu

Það er einkum tvennt sem ég tek með mér út í lífið eftir að hafa alist upp á Flateyri, vestur á fjörðum.
Annars vegar það að ég er nokkuð lausnamiðuð manneskja. Enda voru þau ófá skiptin sem veður eða færð settu strik í reikninginn í minni heimabyggð. Slík veðurháð tilvera kallar jafnan á skjót viðbrögð og breytt plön. Sem gerir það að verkum að þegar ég stend frammi fyrir vandamáli, hvort sem er hjá mér eða öðrum, er ég yfirleitt fljót að kokka upp einhverja bráðsniðuga lausn. Oft er því tekið fagnandi. En ekki alltaf.
Hitt er að ég er gædd þeim eiginleika að vera eldsnögg í sturtu. Það er vegna þess að á Flateyri bjuggum við ekki við þau lífsgæði að vera með jarðhita. Heitavatnskútur og góð tímastjórnun var því algjört lykilatriði þegar kom að því að bregða sér í sturtu og er enn. Sérstaklega á aðfangadag og á þessum helstu baðdögum. Þá þurfti skýra aðgerðastjórnun og stundum slatta af hugrekki. Enda vond tilfinning að vera með hárið löðrandi í sjampói undir ískaldri bunu. Á veturna er svo einnig staðalbúnaður á hverju heimili að vera með rafmagnsofna og hitablásara og fullt af teppum innan seilingar. Með tilheyrandi rafmagnsreikningi.
Það eru nefnilega mikil lífsgæði í því fólgin að búa við heitt vatn. Á Íslandi eru köld svæði og heit svæði. Þess vegna gladdi það mig óheyrilega að lesa tilkynningu þess efnis að ríkisstjórnin ætlaði að verja allt að milljarði króna til leitar að heitu vatni til húshitunar á næstu fjórum árum með átakinu „Jarðhiti jafnar leikinn“. Þannig á að styrkja leit að heitu vatni á köldum svæðum þar sem raforka eða jafnvel olía er notuð til húshitunar.
Yfir 90 prósent heimila á landinu hafa aðgang að hitaveitu og ríkið niðurgreiðir raforku til húshitunar fyrir um 2,5 milljarða á ári. Það er því öllum til hagsbóta að finna heitt vatn sem víðast. Það lækkar kostnað heimila, fyrirtækja og ekki síst sveitarfélaga. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir köld svæði og samfélagið allt. Einmitt vegna þess að heitt vatn jafnar leikinn og dregur úr óþarfa kostnaði og mengun. Fyrir utan auðvitað þá augljósu staðreynd að íbúar kaldra svæða eiga að geta notið þess til jafns við aðra að láta úr sér líða eftir langan vinnudag í rjúkandi heitri og langri sturtu.