26 mar Sporin hræða

Ég hef orðið vör við að ýmsir sem aðhyllast íhaldssöm- eða þjóðernisleg sjónarmið hafa áhyggjur af tjáningar- og skoðanafrelsi sínu. Kjarni málflutningsins er yfirleitt sá að samfélagslegur þrýstingur tiltekinnar „hreintrúar“ í mannréttindamálum hafi leitt til þess að „ekkert megi segja lengur“, enda vofi fordæming samfélagsins yfir og refsivöndur þess.
Hér gætir ákveðins misskilnings varðandi málfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir að sumum finnist eins og þeir megi ekki segja sína skoðun þá er það svo að okkur er öllum tryggður sá réttur í stjórnarskrá. Einstaklingar geta ekki skert málfrelsi hver annars. Ríkisvaldið hins vegar hefur þau völd að skerða frelsi með lögum. Og það hefur verið gert, til að mynda í hegningarlögum, þar sem tjáningarfrelsinu eru settar ákveðnar skorður. Í 233. grein almennra hegningarlaga er kveðið á um að: „Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernisuppruna eða þjóðlegs uppruna, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, kyneinkenna, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“
Málfrelsi er kjarni lýðræðis og frelsis. Það skiptir máli að standa vörð um frelsi okkar til að koma saman, bæði til að fagna einhverju og til að koma skilaboðum á framfæri. Frelsið til að mótmæla og sýna ríkisvaldinu aðhald. En tilveruréttur og tilverugrundvöllur fólks er ekki eitthvað sem grundvallast af skoðun sem við erum annað hvort með eða á móti. Við erum öll til og eigum okkar tilverurétt. Með umræddu ákvæði er því jaðarsettum hópum samfélagsins tryggð ákveðin vernd gegn ofbeldi og hatursfullri orðræðu. Sem betur fer búum við í samfélagi þar sem slík rætni er óalgeng. Við búum í opnu og kærleiksríku samfélagi, þar sem fjölbreytileikinn fær að þrífast. Sem er dýrmætt og gott. Og því miður ekki sjálfgefið.
Ungverjaland skerðir frelsi
Það var því erfitt að lesa heimsfréttirnar á dögunum þar sem fjallað var um uppákomu í ungverska þinginu. Þar sátu sex hugrakkir þingmenn í systurflokki Viðreisnar og mótmæltu lögum sem þar voru sett. Lögum sem kveða á um að banna gleðigöngur hinsegin fólks og þannig opinberan sýnileika hinsegin fólks. Því var haldið fram að slíkur sýnileiki sé hættulegur börnum og því beri að sporna við honum. Ungverjar settu þannig skýrt bann við því að fagna fjölbreytileikanum. Þetta er dæmi um það þegar raunverulegar skorður eru settar á tjáningarfrelsi jaðarsettra hópa.
Það var því áhugavert að upplifa að sami hópur og er hér tíðrætt um að málfrelsinu sé ógnað, þegi þunnu hljóði og tjái sig ekki hátt og skýrt um þessa aðför að tjáningarfrelsi fólks í Ungverjalandi.
Fögnum fjölbreytileikanum
Hinseginleiki er ekki smitandi. Rétt eins og ég varð ekki gagnkynhneigð á því að alast upp hjá gagnkynhneigðu fólki, umkringd gagnkynhneigðu umhverfi alla daga þá verður fólk ekki hinsegin á því að umgangast annað hinsegin fólk eða fá fræðslu um það.
Hinseginleiki snýst um lífshamingju. Að fá að vera maður sjálfur, frjáls og sáttur í eigin skinni. Og vera þannig virkur þátttakandi í samfélaginu. Sem hlýtur að vera markmið okkar allra. Ísland er í öðru sæti í Evrópu þegar það kemur að réttindum hinsegin fólks. Hér á Íslandi tökum við því sem sjálfsögðu að mæta í Gleðigönguna árlega, þar sem við söfnumst saman í tugþúsundatali og fögnum fjölbreytileikanum í öllum hans myndum. Við megum giftast, stofna til fjölskyldna og tilheyra. Eitt það fallegasta sem við gerum saman sem samfélag er að standa með þessum réttindum. Með fjölbreytileikanum.
Nú er lag fyrir fólk sem er annt um frelsi okkar til að tjá okkur, sýna okkur og koma saman í gleði, reiði eða sorg að grípa til varna fyrir þau sem sannarlega eru að upplifa skert mannréttindi.
Því sporin hræða.