20 mar Til varnar því sem mestu máli skiptir

Því er þannig háttað með margt það mikilvægasta í lífinu að við leiðum ekki hugann að því á meðan allt leikur í lyndi. Öryggi ástvina okkar, tími með þeim sem við elskum, góð heilsa, frelsi til að gera það sem hugurinn stendur til og lifa því lífi sem við kjósum – allt þetta er sjálfsagt þegar við njótum þess. En við finnum sterkt hversu dýrmætt þetta allt er þegar því er ógnað eða það er tekið frá okkur.
Undanfarna áratugi höfum við Íslendingar gengið að því sem vísu að öryggi landsins okkar og mikilvægra innviða sé tryggt. Árásarstríð Rússlands í Úkraínu, margvíslegar tilraunir til skemmdarverka í nágrannalöndum okkar og aðrar vendingar í alþjóðamálum hafa breytt þessu og kalla á endurmat. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Við erum ekki ein um að endurmeta stöðu okkur. Í Danmörku samþykktu kjósendur með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu að draga til baka undanþágu Dana við þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Bæði Finnar og Svíar hurfu frá rótgróinni hlutleysisstefnu og gengu í Atlantshafsbandalagið.
Í óvissu leita samfélög, eins og einstaklingar, til vina. Þess vegna drögum við okkur ekki í skel heldur styrkjum enn frekar samstarf við bandalagsríki okkar beggja vegna Atlantshafsins og vinnum náið með nágrannalöndum okkar. Þessum vinaþjóðum okkar sem deila sömu gildum og við um lýðræði, frelsi og mannréttindi.
Ég hef nú þegar ýtt úr vör vinnu með aðild allra flokka á Alþingi við endurskoðun öryggis- og varnarmálastefnu og á sama tíma kynnt aðgerðir í samstarfi við dómsmálaráðuneyti, Landhelgisgæslu og lögreglu sem allar miða að því að auka öryggi landsins og vernda mikilvæga innviði.
Rétt eins og við veltum ekki fyrir okkur raflögnum á meðan ljósin eru kveikt, þá stöndum við upp og athugum málið þegar það flöktir. Nú flöktir ljós friðar og frelsis. Það kallar á opna umræðu um öryggi Íslands og stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu. Ekki til að skapa ótta eða óöryggi heldur þvert á móti til að verja friðinn og frelsið sem okkur er svo annt um.