30 maí Ný stjórn á Suðurnesjum

Þann 27. maí sl. var haldinn aðalfundur Viðreisnar í Reykjanesbæ. Fundurinn var fjölsóttur og greinilegt er að hugur er í fólki og áhugi á málefnum samfélagsins mikill. Á fundinum voru breytingar gerðar á samþykktum og nafni félagsins breytt í Viðreisn á Suðurnesjum.
Arnar Páll Guðmundsson var kjörinn formaður félagsins en auk Arnars Páls voru eftirfarandi aðilar kosnir í stjórn:
• Agnar Guðmundsson
• Halldór Rósmundur Guðjónsson
• Ingibjörg Ýr Smáradóttir
• Jón Garðar Snædal Jónsson
• Kristín María Birgisdóttir
• María Petrína Berg
Varamenn voru kosnir þeir Gunnar Ellert Geirsson og Styrmir Hafliðason
Með einlægan vilja til að bæta og byggja upp, tekur ný stjórn til starfa – staðráðin í að styrkja samfélagið á Suðurnesjum og grípa þau tækifæri sem nú gefast.
Við hvetjum áhugsamt fólk um starfssemi Viðreisnar á Suðurnesjum að hafa samband því framundan eru annasamir og skemmtilegir tímar í pólitíkinni. Þau sem hafa hug á að taka þátt í starfinu með okkur geta gerst félagar með því að skrá sig á www.vidreisn.is eða haft samband við okkur á netfangið sudurnes@vidreisn.is
Eftirfarandi stjórnmálaályktun var samþykkt í lok aðalfundar:
Tökum þátt í að móta samfélagið
Góðir stjórnarhættir, gegnsæi og siðferði eru lykilþættir í störfum sveitarstjórna og stjórnmálaflokka. Heiðarleiki, réttsýni og málefnaleg umræða eiga að vera í öndvegi við alla ákvarðanatöku, til að tryggja að ákvarðanir séu teknar með almannahagsmuni að leiðarljósi.
Eitt af grunngildum Viðreisnar frá upphafi er að almannahagsmunir skulu ávallt ganga framar sérhagsmunum. Þetta á við um öll svið sveitarstjórnar, hvort sem það snýr að fjármálum, byggðaþróun, skipulagsmálum eða úthlutun verkefna og þjónustu. Við viljum byggja samfélag þar sem jafnræði og réttlæti eru höfð að leiðarljósi í öllum ákvörðunum.
Frelsi og frjálslyndi eru forsenda framfara. Þau skapa svigrúm fyrir einstaklinga til að nýta þekkingu sína og sköpunarkraft og efla samfélagið. Með því að styðja við frumkvæði, nýsköpun og opið samtal byggjum við upp öflugt samfélag sem horfir til framtíðar.
Fjölmenning og fjölbreytileiki eru fjársjóður hvers samfélags. Opið og réttlátt samfélag byggir á virðingu, jafnrétti og samvinnu – þar sem öll fá að njóta sín og leggja sitt af mörkum.