12 júl Tímamót á Alþingi
Föstudagsins 11. júlí 2025 verður líklega minnst í sögubókum sem dagsins þegar forseti Alþingis beitti 71. grein þingskaparlaga til að stöðva umræður og ganga til atkvæða.
Á þeim tímapunkti var önnur umræða um veiðigjaldamálið búin að standa yfir í um 160 klukkutíma. Ræðurnar voru orðnar meira en 3.400. Margar vissulega innihaldsríkar og öflugar. En ég viðurkenni að síðustu þrjár vikurnar voru þær orðnar nokkuð endurtekningasamar. Meirihlutinn tók virkan þátt í upphafi. Í um 10 klukkutíma samtals. Og tók hlutverk sitt alvarlega og sat þolinmóður undir munnræpu minnihlutans á meðan reynt var að semja um þinglok.
Þrátt fyrir Íslandsmet í fyrstu og annarri umræðu talar stjórnarandstaðan fjálglega um að meirihlutinn hafi með beitingu 71. greinarinnar hrifsað málfrelsið af þeim. Það er einhver kaldhæðni í því.
Þegar um er að ræða tillögu forseta sem felur í sér að greitt verði atkvæði um þingmál meirihlutans með atkvæðagreiðslu. Þar geta allir þingmenn með mál- og tjáningarfrelsi sínu sagt sína skoðun. Í orði og með þeirri athöfn að greiða atkvæði. Engin geislavirkni eða kjarnorkusprengjur. Heldur framgangur lýðræðis og þingræðis.
Ég vil undirstrika mikilvægi þess að minnihluti eigi rétt á að tjá sig. Koma sjónarmiðum á framfæri og að hlustað sé á þau af meirihlutanum séu þau málefnaleg. Ég hef skrifað um það áður, meðal annars á þessum vettvangi, að mér finnst brýnt að tryggja betri ramma utan um þingstörf, fyrirsjáanleika þeirra og samtal milli minni- og meirihluta. En það er samt mikilvægt að misnota ekki málfrelsið. Eins og raungerðist síðustu vikurnar. Þegar þingsköpum 2007 var breytt myndaðist glufa þar sem þingmenn geta í reynd haldið endalausar fimm mínútna ræður. Það var ekki ætlunin.
Það skiptir máli að virða þinglega meðferð. Flytja mál, hlusta eftir sjónarmiðum og breyta málum ef þurfa þykir. En ekki síst að klára mál að því loknu. Það gerði atvinnuveganefnd í sínum störfum. Með breytingartillögu sem kom til móts við áhyggjur sjávarútvegssveitarfélaga um lítil og meðalstór fyrirtæki.
Í stóru myndinni snýst beiting 71. greinarinnar ekki um veiðigjöld. Eða einhverja „litla skattahækkunarbreytingu“ eins og minnihlutinn orðaði það í gær. Nei, hún snýst um þá frumskyldu forseta Alþingis að tryggja að Alþingi geti starfað eðlilega og að staðinn sé vörður um virðingu Alþingis. 11. júlí 2025 verður minnst fyrir það að vera dagurinn þar sem undirstrikað var að minnihlutinn hefur ekki neitunarvald á Alþingi. Það er mikilvægt.