Bókahreinsanir og fallvalt frelsi

Nýj­asta uppá­tæki re­públi­kana í Flórída­fylki er að hefja bóka­hreins­un í skóla­bóka­söfn­um. Um sex hundruð bæk­ur hafa verið tekn­ar úr um­ferð, sem eiga það sam­eig­in­legt að fjalla um ras­isma, fjöl­breyti­leika eða hinseg­in mál­efni. Meðal þeirra er Dag­bók Önnu Frank, ein áhrifa­mesta bók 20. ald­ar­inn­ar. Með þessu á að hreinsa huga ungs fólks og koma í veg fyr­ir að þau átti sig á fjöl­breyti­leik­an­um. Aðgerðin kost­ar skatt­greiðend­ur millj­ón­ir og er ekki aðeins aðför gegn bók­um held­ur stór­hættu­leg at­laga að tján­ing­ar­frelsi og hug­mynda­frelsi og gagn­rýnni hugs­un.

Það þarf vart að rifja upp sögu bóka­hreins­ana, en dæm­in um vald­hafa sem hafa reynt að stjórna hug­mynd­um og hugs­un­um fólks eru mörg. Bóka­brenn­ur nas­ista eru lík­lega þekkt­ast­ar. Þar voru brennd­ar bæk­ur eft­ir gyðinga, vinst­ris­innaða eða frjáls­lynda hugsuði. Í Sov­ét­ríkj­un­um voru rit bönnuð eða jafn­vel end­ur­skrifuð ef þau féllu ekki að flokkslín­unni. Í Kína á tím­um Maós var farið í sömu veg­ferð. Allt eru þetta dæmi um vald­hafa sem ótt­ast fjöl­breyti­leg­ar hug­mynd­ir og póli­tískt aðhald.

Aðgerð stjórn­valda í Flórída er rautt flagg um stöðu lýðræðis, frels­is og mann­rétt­inda. Hér er gerð til­raun til að end­ur­skrifa sög­una, fjar­lægja hug­mynda­fræði sem er stjórn­völd­um ekki þókn­an­leg og búa þannig til falska mynd af heim­in­um. Sam­fé­lög sem forðast óþægi­leg­ar staðreynd­ir svipta fólk tæki­fær­inu til að læra af fortíðinni og verja frelsið.

Það virðist vera orðin ákveðin meg­in­straumsstemn­ing fyr­ir því að tala niður jaðar­setta hópa, ef­ast um til­veru­rétt ein­stak­linga og grafa und­an mann­rétt­ind­um þeirra. Það á ekki aðeins við um Banda­rík­in held­ur einnig hér á Íslandi. Nýj­asta dæmið er orð Snorra Más­son­ar þing­manns Miðflokks­ins sem lýsti þeirri skoðun sinni í hlaðvarpi á dög­un­um að kyn­in væru aðeins tvö, og því ekki hægt að skipta um kyn. Þar talaði hann af mik­illi vanþekk­ingu um stöðu trans fólks og til­veru­rétt þeirra. Slíkt tal á ræt­ur að rekja til sömu hugs­un­ar og bóka­bannið bygg­ist á: til­hneig­ingu vald­hafa til að loka á fjöl­breyti­leik­ann, draga fólk í dilka og hafna til­vist þeirra sem falla ekki inn í þrönga skil­grein­ingu þeirra á „normi“. Snorri Más­son full­yrti þó í viðtal­inu að hann væri samt sem áður frjáls­lynd­ur maður í þess­um efn­um. Ég segi bara: Er það virki­lega svo?

Við verðum að standa vörð um frelsið og verja fjöl­breyti­leik­ann. Mæta óþægi­leg­um spurn­ing­um og þola ólík­ar skoðanir. Bæk­ur um reynslu­heim ólíkra hópa eru ekki ógn held­ur gjöf. Reynslu­heim­ur ólíkra hópa er það líka. Að loka á hann er hættu­legt skref.

Ætlum við ekki ann­ars að læra af sög­unni?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25.ágúst 2025