25 ágú Bókahreinsanir og fallvalt frelsi
Nýjasta uppátæki repúblikana í Flórídafylki er að hefja bókahreinsun í skólabókasöfnum. Um sex hundruð bækur hafa verið teknar úr umferð, sem eiga það sameiginlegt að fjalla um rasisma, fjölbreytileika eða hinsegin málefni. Meðal þeirra er Dagbók Önnu Frank, ein áhrifamesta bók 20. aldarinnar. Með þessu á að hreinsa huga ungs fólks og koma í veg fyrir að þau átti sig á fjölbreytileikanum. Aðgerðin kostar skattgreiðendur milljónir og er ekki aðeins aðför gegn bókum heldur stórhættuleg atlaga að tjáningarfrelsi og hugmyndafrelsi og gagnrýnni hugsun.
Það þarf vart að rifja upp sögu bókahreinsana, en dæmin um valdhafa sem hafa reynt að stjórna hugmyndum og hugsunum fólks eru mörg. Bókabrennur nasista eru líklega þekktastar. Þar voru brenndar bækur eftir gyðinga, vinstrisinnaða eða frjálslynda hugsuði. Í Sovétríkjunum voru rit bönnuð eða jafnvel endurskrifuð ef þau féllu ekki að flokkslínunni. Í Kína á tímum Maós var farið í sömu vegferð. Allt eru þetta dæmi um valdhafa sem óttast fjölbreytilegar hugmyndir og pólitískt aðhald.
Aðgerð stjórnvalda í Flórída er rautt flagg um stöðu lýðræðis, frelsis og mannréttinda. Hér er gerð tilraun til að endurskrifa söguna, fjarlægja hugmyndafræði sem er stjórnvöldum ekki þóknanleg og búa þannig til falska mynd af heiminum. Samfélög sem forðast óþægilegar staðreyndir svipta fólk tækifærinu til að læra af fortíðinni og verja frelsið.
Það virðist vera orðin ákveðin meginstraumsstemning fyrir því að tala niður jaðarsetta hópa, efast um tilverurétt einstaklinga og grafa undan mannréttindum þeirra. Það á ekki aðeins við um Bandaríkin heldur einnig hér á Íslandi. Nýjasta dæmið er orð Snorra Mássonar þingmanns Miðflokksins sem lýsti þeirri skoðun sinni í hlaðvarpi á dögunum að kynin væru aðeins tvö, og því ekki hægt að skipta um kyn. Þar talaði hann af mikilli vanþekkingu um stöðu trans fólks og tilverurétt þeirra. Slíkt tal á rætur að rekja til sömu hugsunar og bókabannið byggist á: tilhneigingu valdhafa til að loka á fjölbreytileikann, draga fólk í dilka og hafna tilvist þeirra sem falla ekki inn í þrönga skilgreiningu þeirra á „normi“. Snorri Másson fullyrti þó í viðtalinu að hann væri samt sem áður frjálslyndur maður í þessum efnum. Ég segi bara: Er það virkilega svo?
Við verðum að standa vörð um frelsið og verja fjölbreytileikann. Mæta óþægilegum spurningum og þola ólíkar skoðanir. Bækur um reynsluheim ólíkra hópa eru ekki ógn heldur gjöf. Reynsluheimur ólíkra hópa er það líka. Að loka á hann er hættulegt skref.
Ætlum við ekki annars að læra af sögunni?