Regnboginn á milli fjallanna

Gleðigangan var haldin um helgina með öllum sínum töfrum og litadýrð. Hinsegin dagar minna okkur öll á að frelsi er aldrei sjálfgefið. Það er afrakstur baráttu, hugrekkis og samstöðu – og það krefst þess að við stöndum vörð um það á hverjum degi. Á Íslandi hefur margt áunnist í réttindabaráttu hinsegin fólks. Við sem eigum okkar regnbogafjölskyldur fögnum frelsinu og erum þakklát fyrir að fá að vera við sjálf, tilheyra og leggja okkar af mörkum til samfélagsins. Við erum þó meðvituð um að saga heimsins er full af dæmum þar sem skyndilega er klippt á mannréttindi og tilverurétt ákveðinna þjóðfélagshópa. Við erum meðvituð um að bakslag getur haft alvarlegar afleiðingar. Hvort sem er í orði eða á borði. Þess vegna skiptir máli að standa vörð um frelsið og minna á það. Okkar allra.

Fyrir viku vorum við konan mín nokkuð súrar að missa af dagskrá Hinsegin daga þar sem við erum staddar vestur á fjörðum. Við tókum því skyndiákvörðun um að efna til gleðigöngu í heimabænum mínum, Flateyri. Við bjuggum til viðburð með hóflegar væntingar um heimtur – enda fyrirvarinn lítill. En á laugardaginn braust sólin fram og straumur af regnbogalituðu fólki mætti til leiks. Gleðigangan á Flateyri var líklega sú stærsta í heiminum miðað við höfðatölu íbúa. En á annað hundrað manns mættu, bæði heimafólk og gestir – til að ganga saman undir regnbogafánanum til að fagna fjölbreytileikanum. Ég heyrði einhverja segja að þetta hefði verið ein sú fallegasta stund sem þeir upplifðu í sumar; litadýrð, hlátur og hlýja sem ómaði milli fjallanna. Fyrir mig persónulega var ógleymanlegt að ganga um sömu götur og flæktur unglingur gekk á sínum tíma. Sem innst inni í hjartanu vissi hver hún var en þorði ekki að segja það upphátt. Því fylgdi dásamleg frelsistilfinning að ganga hönd í hönd með konunni minni sem ég elska og fallegu börnunum okkar. Sem voru sammála um að þetta væri besti dagur lífs þeirra.

Það er undir okkur öllum komið að hlúa að frelsi okkar allra. Leyfum ekki ytri ógnum að grafa undan því. Það er hættuleg hugsun að halda að baráttunni sé lokið. Frelsið okkar er ein grunnstoð lýðræðisins. Þess vegna eigum við að rækta það, verja það og gleðjast yfir því – hvar sem við erum, hvort sem það er í höfuðborginni eða í litlu sjávarþorpi milli stórbrotinna fjalla.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. ágúst 2025