Tími ábyrgra aðgerða í útlendingamálum

Í stafla ókláraðra mála þegar Alþingi hætti störf­um í sum­ar lá frum­varp um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um. Mik­il­væg­ar breyt­ing­ar náðu því miður ekki að verða að lög­um vegna málþófs. Á þessu ber Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn mesta ábyrgð, eins og all­ir vita. Frum­varpið verður þess vegna lagt aft­ur fram ásamt fleiri góðum mál­um sem stuðla að því að Ísland hætti að skera sig frá reglu­verki Norður­land­anna í út­lend­inga­mál­um.

Mik­il­vægt að sam­ræma regl­ur

Í frum­varpi mínu um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um fel­ast nauðsyn­leg­ar breyt­ing­ar sem senda mik­il­væg skila­boð. Þar er af­num­in svo­kölluð 18 mánaða regla. Sú sér­ís­lenska regla hef­ur í reynd virkað þannig að út­lend­ing­ur sem hef­ur sótt um alþjóðlega vernd en ekki fengið niður­stöðu inn­an 18 mánaða hef­ur sjálf­krafa fengið dval­ar­leyfi. Ísland eitt Norður­landaþjóða heim­il­ar veit­ingu dval­ar­leyf­is á þess­um sér­staka grund­velli. Regl­an hef­ur reynst sveit­ar­fé­lög­um og rík­is­sjóði mjög kostnaðar­söm. Þessi breyt­ing mun því draga úr kostnaði.

Þá eru í frum­varp­inu löngu tíma­bær­ar regl­ur um aft­ur­köll­un alþjóðlegr­ar vernd­ar vegna al­var­legra eða ít­rekaðra brota. Þar er verið að setja skyn­sam­leg­ar kröf­ur gagn­vart þeim sem hér fá alþjóðlega vernd og sam­ræma regl­ur okk­ar regl­um ná­granna­ríkja.

Í haust mun ég líka leggja fram frum­varp til laga um brott­far­ar­stöð. Sam­hliða verður grein­ing­ar­stöð sett á stofn hjá embætti lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um. Með því tryggj­um við skil­virk­ari og hraðari af­greiðslu mála. Sem stend­ur eru út­lend­ing­ar í ólög­legri dvöl vistaðir í fang­elsi. Það mun létta á stöðu í fang­els­is­mál­um og bæta aðbúnað þeirra sem vista þarf vegna þess að þeir hafa ekki sýnt sam­vinnu við brott­för úr landi.

Mis­notk­un á dval­ar­leyf­um ekki liðin

Frum­varp um farþegalista var samþykkt í vor og er nú orðið að lög­um. Lög­in styrkja stöðu Íslands gegn skipu­lögðum glæp­um með efldri upp­lýs­inga­öfl­un um það fólk sem hingað kem­ur til lands. Áform rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að efla embætti lög­regl­unn­ar á Suður­nesj­um hafa verið kynnt, en mark­miðið er að efla enn frek­ar aðgerðir gegn skipu­lögðum brota­hóp­um.

Útlend­inga­mál á Íslandi snú­ast hins veg­ar ekki ein­göngu um alþjóðlega vernd þótt póli­tísk umræða hafi verið með þeim hætti. Á grunni dval­ar­ley­fis­kerf­is­ins er um það bil fjórðung­ur af fólks­flutn­ing­um til lands­ins. Þar rík­ir stjórn­leysi sem staf­ar af al­gjöru stefnu­leysi á liðnum árum.

Ég setti af stað grein­ing­ar­vinnu á dval­ar­leyf­um í apríl og mun á næst­unni fjalla frek­ar um þá galla sem ein­kenna þetta kerfi og vinna að frum­varpi um að ná stjórn á þess­um mála­flokki. Mis­notk­un á dval­ar­leyf­um á ein­fald­lega ekki að vera liðin. Það á að vera erfitt að svindla en létt að gera rétt. Við eig­um að gera þá kröfu að þeir sem vilja setj­ast hér að leggi sitt af mörk­um og verði virk­ir þátt­tak­end­ur í ís­lensku sam­fé­lagi. Við eig­um sömu­leiðis að gera þá kröfu til okk­ar sjálfra að það fólk sem hingað flyst fái raun­veru­leg tæki­færi til þátt­töku í sam­fé­lag­inu.

Stefna Sjálf­stæðis- flokks­ins í tíu ár

Hlut­verk stjórn­valda er að sýna í verki að þau geti mótað ábyrga stefnu – og fylgt henni eft­ir með verk­um.

Af hálfu Sjálf­stæðis­flokks­ins heyr­ast nú þau skila­boð að síðasta rík­is­stjórn eigi ekki að vera dæmd af verk­um sín­um held­ur frek­ar af hug­mynd­um sem aldrei urðu að veru­leika. Þær hug­mynd­ir sem þó komust til fram­kvæmda í dval­ar­leyf­is­mál­um sköpuðu stjórn­leysi. Lengst gekk þessi mál­flutn­ing­ur sjálf­stæðismanna þegar formaður flokks­ins lýsti því á dög­un­um aðspurður um norska dval­ar­ley­fis­kerfið að aðgerðir Norðmanna væru í reynd stefna Sjálf­stæðis­flokks­ins. Það er furðuleg sögu­skýr­ing. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stjórnaði út­lend­inga­mál­um hér í rúm­an ára­tug. Nú síðast árið 2023 voru regl­ur um dval­ar- og at­vinnu­rétt­indi út­lend­inga rýmkaðar und­ir for­ystu Sjálf­stæðis­flokks­ins. Eft­ir­lit með mála­flokkn­um var síðan nán­ast ekk­ert, eins og for­seti Alþýðusam­bands Ísland hef­ur bent á. Það er því óþarfi fyr­ir sjálf­stæðis­menn að láta eins og þeir hafi verið í stjórn­ar­and­stöðu síðastliðin 10 ár. Þeir fóru með mála­flokk­inn.

Rík­is­stjórn í sókn

Nú er hins veg­ar tek­in við sam­hent og sterk stjórn sem fær ekki ein­ung­is góðar hug­mynd­ir held­ur get­ur fylgt þeim eft­ir. Nú er tími til að ráðast í nauðsyn­leg­ar laga­breyt­ing­ar. Þing­mála­skrá hausts­ins boðar mark­viss­ar aðgerðir til að ná stjórn á út­lend­inga­mál­um.

Rík­is­stjórn­in er ein­huga um þær breyt­ing­ar sem gera verður. Reynsl­an sýn­ir okk­ur að þetta skipt­ir einna mestu máli. Stefna okk­ar er skýr hvað það varðar að af­nema sér­ís­lensk­ar regl­ur. Sú stefna bygg­ist á ör­yggi og vel­ferð, ör­ugg­um landa­mær­um og raun­veru­leg­um tæki­fær­um til þátt­töku í sam­fé­lag­inu af hálfu þeirra sem setj­ast að á Íslandi.

Um­gjörð um þenn­an mála­flokk mun þess vegna styrkj­ast.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. ágúst 2025