15 ágú Tími ábyrgra aðgerða í útlendingamálum
Í stafla ókláraðra mála þegar Alþingi hætti störfum í sumar lá frumvarp um breytingar á útlendingalögum. Mikilvægar breytingar náðu því miður ekki að verða að lögum vegna málþófs. Á þessu ber Sjálfstæðisflokkurinn mesta ábyrgð, eins og allir vita. Frumvarpið verður þess vegna lagt aftur fram ásamt fleiri góðum málum sem stuðla að því að Ísland hætti að skera sig frá regluverki Norðurlandanna í útlendingamálum.
Mikilvægt að samræma reglur
Í frumvarpi mínu um breytingar á útlendingalögum felast nauðsynlegar breytingar sem senda mikilvæg skilaboð. Þar er afnumin svokölluð 18 mánaða regla. Sú séríslenska regla hefur í reynd virkað þannig að útlendingur sem hefur sótt um alþjóðlega vernd en ekki fengið niðurstöðu innan 18 mánaða hefur sjálfkrafa fengið dvalarleyfi. Ísland eitt Norðurlandaþjóða heimilar veitingu dvalarleyfis á þessum sérstaka grundvelli. Reglan hefur reynst sveitarfélögum og ríkissjóði mjög kostnaðarsöm. Þessi breyting mun því draga úr kostnaði.
Þá eru í frumvarpinu löngu tímabærar reglur um afturköllun alþjóðlegrar verndar vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota. Þar er verið að setja skynsamlegar kröfur gagnvart þeim sem hér fá alþjóðlega vernd og samræma reglur okkar reglum nágrannaríkja.
Í haust mun ég líka leggja fram frumvarp til laga um brottfararstöð. Samhliða verður greiningarstöð sett á stofn hjá embætti lögreglunnar á Suðurnesjum. Með því tryggjum við skilvirkari og hraðari afgreiðslu mála. Sem stendur eru útlendingar í ólöglegri dvöl vistaðir í fangelsi. Það mun létta á stöðu í fangelsismálum og bæta aðbúnað þeirra sem vista þarf vegna þess að þeir hafa ekki sýnt samvinnu við brottför úr landi.
Misnotkun á dvalarleyfum ekki liðin
Frumvarp um farþegalista var samþykkt í vor og er nú orðið að lögum. Lögin styrkja stöðu Íslands gegn skipulögðum glæpum með efldri upplýsingaöflun um það fólk sem hingað kemur til lands. Áform ríkisstjórnarinnar um að efla embætti lögreglunnar á Suðurnesjum hafa verið kynnt, en markmiðið er að efla enn frekar aðgerðir gegn skipulögðum brotahópum.
Útlendingamál á Íslandi snúast hins vegar ekki eingöngu um alþjóðlega vernd þótt pólitísk umræða hafi verið með þeim hætti. Á grunni dvalarleyfiskerfisins er um það bil fjórðungur af fólksflutningum til landsins. Þar ríkir stjórnleysi sem stafar af algjöru stefnuleysi á liðnum árum.
Ég setti af stað greiningarvinnu á dvalarleyfum í apríl og mun á næstunni fjalla frekar um þá galla sem einkenna þetta kerfi og vinna að frumvarpi um að ná stjórn á þessum málaflokki. Misnotkun á dvalarleyfum á einfaldlega ekki að vera liðin. Það á að vera erfitt að svindla en létt að gera rétt. Við eigum að gera þá kröfu að þeir sem vilja setjast hér að leggi sitt af mörkum og verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Við eigum sömuleiðis að gera þá kröfu til okkar sjálfra að það fólk sem hingað flyst fái raunveruleg tækifæri til þátttöku í samfélaginu.
Stefna Sjálfstæðis- flokksins í tíu ár
Hlutverk stjórnvalda er að sýna í verki að þau geti mótað ábyrga stefnu – og fylgt henni eftir með verkum.
Af hálfu Sjálfstæðisflokksins heyrast nú þau skilaboð að síðasta ríkisstjórn eigi ekki að vera dæmd af verkum sínum heldur frekar af hugmyndum sem aldrei urðu að veruleika. Þær hugmyndir sem þó komust til framkvæmda í dvalarleyfismálum sköpuðu stjórnleysi. Lengst gekk þessi málflutningur sjálfstæðismanna þegar formaður flokksins lýsti því á dögunum aðspurður um norska dvalarleyfiskerfið að aðgerðir Norðmanna væru í reynd stefna Sjálfstæðisflokksins. Það er furðuleg söguskýring. Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði útlendingamálum hér í rúman áratug. Nú síðast árið 2023 voru reglur um dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga rýmkaðar undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Eftirlit með málaflokknum var síðan nánast ekkert, eins og forseti Alþýðusambands Ísland hefur bent á. Það er því óþarfi fyrir sjálfstæðismenn að láta eins og þeir hafi verið í stjórnarandstöðu síðastliðin 10 ár. Þeir fóru með málaflokkinn.
Ríkisstjórn í sókn
Nú er hins vegar tekin við samhent og sterk stjórn sem fær ekki einungis góðar hugmyndir heldur getur fylgt þeim eftir. Nú er tími til að ráðast í nauðsynlegar lagabreytingar. Þingmálaskrá haustsins boðar markvissar aðgerðir til að ná stjórn á útlendingamálum.
Ríkisstjórnin er einhuga um þær breytingar sem gera verður. Reynslan sýnir okkur að þetta skiptir einna mestu máli. Stefna okkar er skýr hvað það varðar að afnema séríslenskar reglur. Sú stefna byggist á öryggi og velferð, öruggum landamærum og raunverulegum tækifærum til þátttöku í samfélaginu af hálfu þeirra sem setjast að á Íslandi.
Umgjörð um þennan málaflokk mun þess vegna styrkjast.