18 ágú Trump og Pútín
Þegar leiðtogar Bandaríkjanna og Rússlands hittast þá eru það stórtíðindi. Heimsbyggðin fylgist með Pútín og Trump funda og stjórnmálaskýrendur greina hver niðurstaða fundarhaldanna er. Rýnt er val á fundarstað, lesið í handabönd og líkamstjáningu og þær yfirlýsingar sem gefnar eru í framhaldi af fundinum. Meira að segja klæðaburður utanríkisráðherra Rússlands var mikið fréttaefni enda mætti hann á svæðið merktur gamla Sovétinu. Eins og menn vita þá saknar Pútín Sovétríkjanna og klæðaburður utanríkisráðherrans því tæpast tilviljun. Skilaboðin eru að sama skapi óþægileg fyrir Úkraínu.
Undir venjulegum kringumstæðum væri svona leiðtogafundur fagnaðarefni. Það er gríðarmikið í húfi, fyrst og fremst fyrir íbúa Úkraínu en líka ríki Evrópu og heimsbyggðina alla. Ömurlegt innrásarstríð Rússa þarf að stöðva með öllum tiltækum ráðum. Vonandi verður því Alaskafundurinn til góðs. En á sama tíma er sú spurning áleitin hvernig standi á því að móttökurnar sem árásarmaðurinn Pútín fékk í Alaska séu mun innilegri og hlýlegri en birtist okkur fyrir fáeinum vikum þegar fulltrúi fórnarlamba árásarstríðsins, forseti Úkraínu, var nánast flæmdur úr Hvíta húsinu á makalausum blaðamannafundi. Væntingum þarf því að stilla í hóf, ekki síst þegar fréttir berast af því að forseti Bandaríkjanna sé jákvæður gagnvart þeirri kröfu Rússa að Úkraína þurfi að gefa eftir landsvæði til að friður verði að veruleika. Fram hjá því verður heldur ekki litið að fjölmargir greinendur og sérfræðingar í alþjóðamálum eru þeirrar skoðunar að þessi fundur hafi verið sigur fyrir Pútín. Með honum fékk hann mikla viðurkenningu eftir útskúfun undanfarinna ára á alþjóðasviðinu.
Fundur Bandaríkjaforseta með helstu leiðtogum Evrópu og forseta Úkraínu nú í framhaldinu skiptir sköpum um hvort fundað hafi verið til góðs á föstudag. Öllu máli skiptir að friðurinn verði ekki á forsendum árásaraðilans heldur að fullt tillit verði tekið til fullveldis Úkraínu. Um þetta virðist samstaða meðal ríkja Evrópu og miklu skiptir líka að samstaða sé um þetta hér á landi. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra orðaði þetta vel í fjölmiðlum í gær þegar hún sagði að niðurstaðan mætti ekki verða sú að „að árásaraðilinn, sem er Rússland, fái sitt fram með frekju, yfirgangi, og ég tala nú ekki um markviss dráp á borgurum Úkraínu“. Orð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fyrrverandi utanríkisráðherra um friðarvæntingar senda sömu skilaboð. „Er það friður ef alþjóðlega viðurkenndum landamærum er breytt. Tugþúsundum, jafnvel hundruð þúsundum barna, sem hefur verið rænt, er ekki skilað og fullvalda sjálfstæðu ríki er bannað að haga sér eins og fullvalda, sjálfstætt ríki og er bannað að taka ákvarðanir fyrir sig?“