Trump og Pútín

Þegar leiðtog­ar Banda­ríkj­anna og Rúss­lands hitt­ast þá eru það stórtíðindi. Heims­byggðin fylg­ist með Pútín og Trump funda og stjórn­mála­skýrend­ur greina hver niðurstaða fund­ar­hald­anna er. Rýnt er val á fund­arstað, lesið í handa­bönd og lík­ams­tján­ingu og þær yf­ir­lýs­ing­ar sem gefn­ar eru í fram­haldi af fund­in­um. Meira að segja klæðaburður ut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands var mikið frétta­efni enda mætti hann á svæðið merkt­ur gamla Sov­ét­inu. Eins og menn vita þá sakn­ar Pútín Sov­ét­ríkj­anna og klæðaburður ut­an­rík­is­ráðherr­ans því tæp­ast til­vilj­un. Skila­boðin eru að sama skapi óþægi­leg fyr­ir Úkraínu.

Und­ir venju­leg­um kring­um­stæðum væri svona leiðtoga­fund­ur fagnaðarefni. Það er gríðar­mikið í húfi, fyrst og fremst fyr­ir íbúa Úkraínu en líka ríki Evr­ópu og heims­byggðina alla. Ömur­legt inn­rás­ar­stríð Rússa þarf að stöðva með öll­um til­tæk­um ráðum. Von­andi verður því Ala­ska­fund­ur­inn til góðs. En á sama tíma er sú spurn­ing áleit­in hvernig standi á því að mót­tök­urn­ar sem árás­armaður­inn Pútín fékk í Alaska séu mun inni­legri og hlý­legri en birt­ist okk­ur fyr­ir fá­ein­um vik­um þegar full­trúi fórn­ar­lamba árás­ar­stríðsins, for­seti Úkraínu, var nán­ast flæmd­ur úr Hvíta hús­inu á maka­laus­um blaðamanna­fundi. Vænt­ing­um þarf því að stilla í hóf, ekki síst þegar frétt­ir ber­ast af því að for­seti Banda­ríkj­anna sé já­kvæður gagn­vart þeirri kröfu Rússa að Úkraína þurfi að gefa eft­ir landsvæði til að friður verði að veru­leika. Fram hjá því verður held­ur ekki litið að fjöl­marg­ir grein­end­ur og sér­fræðing­ar í alþjóðamál­um eru þeirr­ar skoðunar að þessi fund­ur hafi verið sig­ur fyr­ir Pútín. Með hon­um fékk hann mikla viður­kenn­ingu eft­ir út­skúf­un und­an­far­inna ára á alþjóðasviðinu.

Fund­ur Banda­ríkja­for­seta með helstu leiðtog­um Evr­ópu og for­seta Úkraínu nú í fram­hald­inu skipt­ir sköp­um um hvort fundað hafi verið til góðs á föstu­dag. Öllu máli skipt­ir að friður­inn verði ekki á for­send­um árás­araðilans held­ur að fullt til­lit verði tekið til full­veld­is Úkraínu. Um þetta virðist samstaða meðal ríkja Evr­ópu og miklu skipt­ir líka að samstaða sé um þetta hér á landi. Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra orðaði þetta vel í fjöl­miðlum í gær þegar hún sagði að niðurstaðan mætti ekki verða sú að „að árás­araðil­inn, sem er Rúss­land, fái sitt fram með frekju, yf­ir­gangi, og ég tala nú ekki um mark­viss dráp á borg­ur­um Úkraínu“. Orð Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur fyrr­ver­andi ut­an­rík­is­ráðherra um friðar­vænt­ing­ar senda sömu skila­boð. „Er það friður ef alþjóðlega viður­kennd­um landa­mær­um er breytt. Tugþúsund­um, jafn­vel hundruð þúsund­um barna, sem hef­ur verið rænt, er ekki skilað og full­valda sjálf­stæðu ríki er bannað að haga sér eins og full­valda, sjálf­stætt ríki og er bannað að taka ákv­arðanir fyr­ir sig?“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. ágúst 2025