Börnin fyrst

Það er ekk­ert dýr­mæt­ara í heim­in­um en börn­in okk­ar. Sjálf er ég svo lán­söm að eiga þrjú börn með eig­in­konu minni. Að vera móðir og að fylgj­ast með börn­un­um mín­um tak­ast á við lex­í­ur lífs­ins eru mestu for­rétt­indi lífs míns. Í haust byrjaði miðju­barnið mitt í grunn­skóla og þar með eig­um við kon­an mín börn á öll­um skóla­stig­um – í leik­skóla, grunn­skóla og fram­halds­skóla.

Það að eiga börn á öll­um skóla­stig­um gef­ur okk­ur sem for­eldr­um ein­staka sýn á skóla­kerfið í heild. Á hverj­um degi fara börn­in okk­ar í skól­ann sinn þar sem framúrsk­ar­andi fag­fólk tek­ur á móti þeim með bros á vör. Þau verja meiri­hluta dags­ins í skóla­bygg­ing­un­um þar sem þau læra ekki aðeins á bók­ina held­ur líka fé­lags­færni. Þar er grunn­ur­inn lagður að lífi barn­anna okk­ar – og þar með framtíð sam­fé­lags­ins alls. Þar á sér stað vinna sem aldrei má van­meta.

Ég hef starfað á Alþingi síðan 2017. Fyrst sem aðstoðarmaður for­manns Viðreisn­ar en nú sem þingmaður. Það hef­ur alltaf farið ótrú­lega í taug­arn­ar á mér að mennta­mál­um sé gjarn­an ýtt til hliðar í póli­tískri umræðu. Sem er merki­legt miðað við sam­fé­lags­lega virðið sem þar er und­ir. Það er til dæm­is tákn­rænt um af­gangs­stærðina að mennta­mál­in séu sett und­ir alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd Alþing­is. Þannig deil­ir mála­flokk­ur­inn rými með mála­flokk­um á borð við út­lend­inga­mál, lög­gæslu og al­manna­ör­yggi. Allt mik­il­væg­ir mála­flokk­ar en oft mjög pláss­frek­ir á kostnað mennta­mál­anna.

Við stönd­um frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um þegar það kem­ur að því að efla mennta­kerfið okk­ar. Leik­skól­ar glíma við mann­eklu, grunn­skól­ar við kenn­ara­skort og fram­halds­skól­ar þurfa meiri stuðning. Hugs­um okk­ur ef mennta­mál­in fengju sömu orku og veiðigjöld­in á Alþingi. Nú eða Bók­un 35. Það væri hið minnsta hress­andi ef þau fengju sömu at­hygli og sama vægi í póli­tískri umræðu.

Það er und­ir okk­ur komið að breyta þessu. Að taka verk­efn­inu al­var­lega og setja mennta­mál­in á odd­inn. En það dug­ar skammt að koma með dig­ur­barka­leg­ar yf­ir­lýs­ing­ar. Við erum á end­an­um dæmd af aðgerðum, ekki orðum. Og það erum við fullmeðvituð um. Viðreisn hef­ur alltaf talað skýrt í mennta­mál­um. Við vilj­um tryggja að öll börn hafi aðgengi að öfl­ug­um skóla­stig­um með framúrsk­ar­andi fag­fólki.

Við ætl­um að setja mál­efni barna í for­gang og fjár­fest­um þannig í framtíðinni. Mennta­mál eiga ekki að vera ein­hvers kon­ar jaðar­mál held­ur al­gjört kjarna­mál. Öll kerfi eru mann­anna verk. Það er okk­ar að hlúa að þeim og tryggja að kerfi séu hönnuð fyr­ir fólkið en ekki öf­ugt.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. september 2025