08 sep Börnin fyrst
Það er ekkert dýrmætara í heiminum en börnin okkar. Sjálf er ég svo lánsöm að eiga þrjú börn með eiginkonu minni. Að vera móðir og að fylgjast með börnunum mínum takast á við lexíur lífsins eru mestu forréttindi lífs míns. Í haust byrjaði miðjubarnið mitt í grunnskóla og þar með eigum við konan mín börn á öllum skólastigum – í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
Það að eiga börn á öllum skólastigum gefur okkur sem foreldrum einstaka sýn á skólakerfið í heild. Á hverjum degi fara börnin okkar í skólann sinn þar sem framúrskarandi fagfólk tekur á móti þeim með bros á vör. Þau verja meirihluta dagsins í skólabyggingunum þar sem þau læra ekki aðeins á bókina heldur líka félagsfærni. Þar er grunnurinn lagður að lífi barnanna okkar – og þar með framtíð samfélagsins alls. Þar á sér stað vinna sem aldrei má vanmeta.
Ég hef starfað á Alþingi síðan 2017. Fyrst sem aðstoðarmaður formanns Viðreisnar en nú sem þingmaður. Það hefur alltaf farið ótrúlega í taugarnar á mér að menntamálum sé gjarnan ýtt til hliðar í pólitískri umræðu. Sem er merkilegt miðað við samfélagslega virðið sem þar er undir. Það er til dæmis táknrænt um afgangsstærðina að menntamálin séu sett undir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Þannig deilir málaflokkurinn rými með málaflokkum á borð við útlendingamál, löggæslu og almannaöryggi. Allt mikilvægir málaflokkar en oft mjög plássfrekir á kostnað menntamálanna.
Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum þegar það kemur að því að efla menntakerfið okkar. Leikskólar glíma við manneklu, grunnskólar við kennaraskort og framhaldsskólar þurfa meiri stuðning. Hugsum okkur ef menntamálin fengju sömu orku og veiðigjöldin á Alþingi. Nú eða Bókun 35. Það væri hið minnsta hressandi ef þau fengju sömu athygli og sama vægi í pólitískri umræðu.
Það er undir okkur komið að breyta þessu. Að taka verkefninu alvarlega og setja menntamálin á oddinn. En það dugar skammt að koma með digurbarkalegar yfirlýsingar. Við erum á endanum dæmd af aðgerðum, ekki orðum. Og það erum við fullmeðvituð um. Viðreisn hefur alltaf talað skýrt í menntamálum. Við viljum tryggja að öll börn hafi aðgengi að öflugum skólastigum með framúrskarandi fagfólki.
Við ætlum að setja málefni barna í forgang og fjárfestum þannig í framtíðinni. Menntamál eiga ekki að vera einhvers konar jaðarmál heldur algjört kjarnamál. Öll kerfi eru mannanna verk. Það er okkar að hlúa að þeim og tryggja að kerfi séu hönnuð fyrir fólkið en ekki öfugt.