22 sep Evrópa er sterkasta vígi frelsisins
Á landsþingi Viðreisnar í gær flutti Guy Verhofstadt, fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu, Evrópuþingmaður og núverandi forseti European Movement International, eldmessu í troðfullum sal um þá heimsmynd sem nú blasir við. Ræða hans var kraftmikil og ástríðufull og minnti okkur á að lýðræði og frelsi eru ekki sjálfgefin gæði heldur verðmæti sem við verðum stöðugt að verja.
Við búum á tímum óstöðugleika þar sem grafið er stöðugt undan lýðræði, mannréttindum og frelsi einstaklinga. Verhofstadt hélt því fram að í slíkri heimsmynd væri nauðsynlegt að Evrópa stæði áfram keik með þessum gildum. Og um mikilvægi Evrópusambandsins í þessum óstöðuga heimi sem mótvægi við þá þróun sem við horfum nú upp á í heiminum. Samstaða Evrópu um þessi gildi er því ekki aðeins æskileg, heldur nauðsynleg. Evrópusambandið er einfaldlega eina vígi þessara gilda sem eftir er.
Austan við okkur berst Úkraína fyrir sjálfstæði sinu, frelsi og tilverurétti gagnvart yfirgangi Rússlands. Það er ekki aðeins barátta þeirra, heldur okkar allra sem trúum á rétt fullvalda ríkja til að ráða örlögum sínum. Í vestri sjáum við sífellt sterkari strauma þar sem popúlískir leiðtogar efast um gildi frjálslyndis, fjölbreytileika, alþjóðasamvinnu (jafnvel sjálfs alþjóðakerfisins), frjálsrar fjölmiðlunar og tjáningarfrelsis. Hvert sem litið er sjáum við því miður vaxandi tilhneigingu til að loka sig af, hunsa staðreyndir og stilla hópum upp sem óvinum í stað þess að rækta sameinandi þætti og lausnamiðaða samvinnu.
Við Íslendingar eigum allt okkar undir að alþjóðakerfið virki. Eins og heimsmyndin blasir við mér þá liggur það í augum uppi að í dag er Evrópusambandið sterkasta vígi lýðræðis og mannréttinda í heiminum. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur stjórnmálamennina að líta aðeins í eigin barm og hugsa tvisvar áður en við förum út í þá vegferð að grafa undan Evrópusambandinu og Evrópusamvinnu. Orðum okkar fylgir ábyrgð og umræðuhefðin skiptir máli. Ríkisstjórnin hefur boðað þjóðaratkvæði um það hvort þjóðin vilji ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið um fulla aðild. Viðreisn hefur alltaf sagt að það verði tvöföld atkvæðagreiðsla um aðild. Fyrst um hvort ljúka eigi samningum og svo um samninginn sjálfan. Það er ekki hættuleg vegferð. Engar bakdyr. En hún kallar á þroskandi umræðu fyrir okkar góða samfélag um kosti, galla, grunngildi og stöðu okkar í þessari óstöðugu heimsmynd.
Ætlum við bara að vera áhorfendur þegar gildi sem hafa tryggt okkur frið og frelsi eru dregin í efa eða ætlum við að vera virkir þátttakendur með sæti við borðið og verja þau? Ég hlakka til samtalsins.