Forgangur í fjárlögum

Fyrir helgi lauk fyrstu umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Stjórnin var ekki bara mynduð um hefðbundin loforð heldur líka til að leiða fram breytingar. Það kallar á ákvarðanir sem sumar eru erfiðar en er ætlað að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta, ná stöðugleika og að efla atvinnulíf um allt land. Nefna má raunhæfar aðgerðir til að einfalda stjórnsýslu og hagræða í ríkisrekstrinum til þess að geta fjárfest duglega í innviðum og efla heilbrigðis- og velferðarþjónustu.

Ljóst var strax í upphafi að hlaupa yrði hratt frá byrjun. Ný stöðugleikaregla tryggir að hér verður ekki anað út í ófjármögnuð verkefni og reikningurinn sendur til framtíðar. Við höfum þegar lækkað skuldir ríkisins með sölu á eignarhlut í Íslandsbanka. Hjúkrunarrýmum hefur verið fjölgað til að létta álagi af heilbrigðiskerfinu. Við höfum ráðist í löngu tímabært og nauðsynlegt viðhald á vegum. Sumt af þessu byggist á vinnu síðustu ríkisstjórnar og góðu samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Annað ekki eins og gengur.

Við fjárlagaumræðuna kom fram sú gagnrýni frá stjórnarandstöðunni að ekki væri nóg að gert til að skapa rými fyrir vaxtalækkun. Hagræða þyrfti enn meira. Í þessu er talsvert holur hljómur því síðasta ríkisstjórn ætlaði að skila hallalausum fjárlögum ári síðar en ríkisstjórn Viðreisnar, Samfylkingar og Flokks fólksins. Horfum nú aðeins á staðreyndir. Síðasta ríkisstjórn hafði stefnt að hallalausum fjárlögum 2028. Þessi ríkisstjórn ætlar að ná því árið 2027. Síðast þegar við sátum hér og afgreiddum fjárlög bættust við milljarðar í útgjöldum í meðförum þáverandi meirihluta.

Við skulum líka hafa í huga að upphaflega var gert ráð fyrir að halli ríkissjóðs yrði 27 milljarðar á þessu ári, árangur þessarar ríkisstjórnar er sá að hallinn er 15 milljarðar. Hafa verður í huga að við erum rétt að byrja og við munum halda okkur að verki. Óhrædd við að taka ákvarðanir sem raunverulega gagnast íslensku samfélagi.

Hér verður nefnilega ekki hagrætt hugsunarlaust út í loftið. Flatur niðurskurður með óljósum árangri er ekki leiðin fram á við. Það þarf að forgangsraða og sum verkefni þola enga bið. Þar má til að mynda nefna geðheilbrigðismálin.

Því miður er það svo að fólk sem glímir við geðheilbrigðisvanda, að ekki sé minnst á aðstandendur þess, hafa allt of lengi mátt þola óviðunandi þjónustu og skilning. Þetta er okkar viðkvæmasti hópur, sem því miður á sér of fáa málsvara. Þetta var í forgangi í sumar þegar fjármagn var sérstaklega sett í að loka ekki meðferðarúrræðum. Fyrir liggur að enn meiri peningum verður varið í geðheilbrigðismálin á næstu misserum. Það er nefnilega vel hægt að forgangsraða þótt verið sé að hagræða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. september 2025