29 sep Takk Miðflokkur
Það er gömul saga og ný að það geta myndast óvæntar tengingar á milli stjórnmálaflokkanna sem skylmast á hinu pólitíska sviði hverju sinni. Dæmin um þetta eru mýmörg. Eitt það óvæntasta í seinni tíð leit dagsins ljós á dögunum þegar Miðflokkurinn tók undir helstu rök Viðreisnar fyrir því að ganga í Evrópusambandið. Viðreisn hefur frá stofnun bent á að íslenska krónan leggur gríðarlegan kostnað á íslensk heimili, fyrirtæki og hið opinbera. Hún er hvorki stöðugur né sterkur gjaldmiðill. 100 milljarða árleg vaxtagjöld íslenska ríkisins og svimandi háir húsnæðisvextir, verðtrygging og ýktar hagsveiflur segja okkur þá sögu ansi skýrt. Upptaka evru eftir aðild að ESB er því mjög fýsilegur kostur til að létta heimilum, fyrirtækjum og ríkinu róðurinn. Vextir myndu með tímanum verða lægri og líkari því sem tíðkast í nágrannalöndunum.
Miðflokkurinn vill ekki ganga í Evrópusambandið. Það liggur alveg fyrir. En í nýlegu þingmáli sem flokkurinn lagði fram á Alþingi, með sjálfan formanninn sem fyrsta flutningsmann, kemur skýrt fram að flokkurinn tekur undir þau rök Viðreisnar að fullreynt sé með íslensku krónuna. Í greinargerð áðurnefndrar tillögu til þingsályktunar frá formanni Miðflokksins segir orðrétt:
„Ef það finnast vinnanlegar olíu- eða gaslindir í íslenskri lögsögu hefði það samdægurs mikil áhrif á hag landsmanna. Það myndi einfaldlega breyta öllu í efnahagsumhverfi þjóðarinnar. Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Hægt yrði að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar og bjóða landsmönnum hagkvæm óverðtryggð íbúðalán, svo að dæmi séu tekin.“
Hér er mikilvægt að árétta sérstaklega að beinlínis er sagt að hér yrði hægt að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar. Nokkuð öruggt er að formaður Miðflokksins myndi vera snöggur til svars og segði að þetta væri bara ein af færum leiðum. En skýrara verður það varla, að hér er komin afdráttarlaus yfirlýsing um að við einmitt búum ekki hér við stöðugan og sterkan gjaldmiðil sem unnt er að reka án verðtryggingar, eða það er í það minnsta mat formanns Miðflokksins.
Það vill einmitt svo til að þjóðinni stendur til boða að klára aðildarviðræður við Evrópusambandið. Samþykki hún það er hægt að kanna kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu, og leggja efnislegt mat á það í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það er sannarlega mikilvægt innlegg í þá umræðu alla, að formaður Miðflokksins telur, þrátt fyrir allt, að hér búum við ekki við stöðugan gjaldmiðil og að hér verði ekki að óbreyttu unnt að bjóða almenningi hagkvæm óverðtryggð íbúðalán.